Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:47:38 (7672)

2001-05-14 10:47:38# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér stóðu í morgun talsverðar umræður um það hvernig þetta mál hafi borið fyrir þingið. Ég tók ekki þátt í þeim umræðum en ætla að leyfa mér að ræða það aðeins í upphafi máls míns.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að með því háttalagi sem hv. þm. stjórnarliðsins höfðu í frammi í því máli þá hafi í reynd verið reynt að koma aftan að stjórnarandstöðunni. Ég er þeirrar skoðunar að með því hafi verið brotnar ákveðnar hefðir. Við högum störfum okkar í þinginu bæði eftir þingsköpum og ákveðnum óskráðum reglum sem á hafa komist. Það er einfaldlega þannig að ákveðin tillitssemi og ákveðin kurteisi hefur verið í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu í gegnum árin. Því er haldið fram að með þessum útbýtingarfundi hafi verið brotið í blað. Ég skal ekki segja hvort hægt sé að taka svo djúpt í árinni, herra forseti. En það er einfaldlega þannig að einstakir útvarpsþættir voru rofnir löngu áður en boðað var hér til fundar til að tilkynna að fyrir dyrum stæði að leggja fram frv. síðar þann dag á Alþingi Íslendinga þar sem leggja ætti til að sjómannaverkfallinu yrði aflýst með lögum.

Það liggur líka fyrir, herra forseti, að hér var talsverður fjöldi stjórnarliða og stjórnarandstæðinga að störfum í nefndum þingsins. Fundum þeirra nefnda var slitið til þess að hægt væri að kalla stjórnarþingmenn til fundar við forustumenn sinna flokka til að ræða þessi mál. Með öðrum orðum: Vitneskjan um hvað til stóð var á almannavitorði í stjórnarliðinu tiltölulega snemma dags, a.m.k. um þrjú- fjögurleytið, á meðan þess var vendilega gætt að stjórnarandstaðan fengi engan pata af málinu.

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. forsrh. að svona hefði þetta alltaf verið. Það hefði aldrei verið þannig að stjórnarandstöðunni væri gert viðvart þegar dreifa ætti mikilvægum málum á svokölluðum útbýtingarfundum. Þetta er rangt, herra forseti.

Ég vil af þessu tilefni rifja upp að ég var sjálfur í stjórnarliði og stýrði sjútvn. í forföllum Matthíasar Bjarnasonar, þáv. formanns sjútvn., árið 1991. Þá voru gerðar ákaflega umdeildar breytingar á hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. Þá tilkynnti ég, sem starfandi formaður sjútvn. í upphafi fundar í sjútvn., til þess að sjútvn. hefði af því pata, að þegar þeim fundi loknum mundum við gera reka að því að búa til nál. og dreifa því á sérstökum útbýtingarfundi. Við létum sem sagt stjórnarandstöðuna vita af þessu, þar á meðal þáv. hv. þm. Halldór Ásgrímsson, þáv. varaformann Framsfl. og núv. oddvita þess flokks og varaforsætisráðherra. Þannig liggur alveg fyrir að a.m.k. í þessu dæmi, þegar um er að ræða ákaflega umdeild mál, hefur stjórnarandstöðunni verið gert viðvart til þess að hún gæti ráðið sínum ráðum og notfært sér réttinn sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði að umræðuefni áðan. Þingmenn hafa nefnilega rétt til þess í upphafi fundar að láta í ljósi skoðanir sínar á vinnubrögðum sem kunna að vera umdeild, á þingmálum sem kunna að vera umdeild. Sá réttur er tekinn af þeim ef þeir vita ekki hvað til stendur. Þetta tel ég ámælisvert, herra forseti.

Ég vil líka, þótt hv. þm. Halldór Blöndal sé ekki staddur í forsetastóli sem stendur, taka fram, í tilefni orðaskipta milli mín og hans sem urðu hér á laugardaginn, að ég spurði hann þá hvort hann hefði vitað deginum fyrr að til stæði að útbýta þessu frv. á útbýtingarfundinum. Ég tók það skýrt fram að ef það væri niðurstaða mín og Samfylkingarinnar að svo hefði verið og hæstv. forseti hefði þess vegna í raun verið að blekkja þingmenn stjórnarandstöðunnar þá mundum við endurskoða samstarf okkar við hann. Hæstv. forseti svaraði ekki þessari spurningu. Hins vegar lýsti hæstv. sjútvrh. því yfir síðar í þeirri umræðu, þegar ég átti ekki kost á að taka þátt í henni, að það hefði verið ómögulegt fyrir hæstv. forseta að gera sér grein fyrir því á þeim tímapunkti að þetta stæði til. Ég vil af þessu tilefni lýsa því yfir að ég tek þessar útskýringar góðar og gildar. Mér þótti tilefni til að láta þetta koma fram hér, herra forseti.

Hæstv. sjútvrh. hefur, eins og áður þegar þetta mál hefur komið til umræðu, talað mikið um nauðsyn þess að slíta verkfallinu vegna þess að það væri farið að bíta. Verkfallið væri farið að hafa áhrif á efnahag landsmanna og fyrirtækjanna í landinu og á landsbyggðina. Það má því spyrja hæstv. sjútvrh.: Út á hvað heldur hann að verkföll gangi? Þau ganga út á að vinnandi fólk í landinu beitir þeim eina rétti, því eina afli sem það hefur, til að taka á vinnuveitandanum, stórútgerðinni í þessu tilviki, og ná fram rétti sínum, til þess að ná fram kjarabótum. Það blasir við, eins og hér hefur margsinnis verið rakið í umræðunum um þetta mál, að sjómönnum hefur árum saman verið meinað að ná rétti sínum. Hvers vegna? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur ávallt verið reiðubúin til að setja lög á deilur útgerðarmönnum til hagsbóta.

Auðvitað er það þannig að þegar menn fara í verkfall þá hefur það áhrif. Það er þess vegna, hæstv. sjútvrh., sem menn fara í verkfall. Það er þess vegna sem þeir beita rétti sínum til að láta vinnuafl sitt ekki lengur falt. Hins vegar er það þannig, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. hefði átt að hugsa sinn gang fyrr ef það er þetta sem hann hafði svona miklar áhyggjur af. Hverjir ætli hafi haft mest áhrif á það hvernig þetta verkfall hefur þróast? Hverjir hafa verið með ábyrgðarlausar yfirlýsingar út og suður, alveg frá því verkfallið hófst í mars?

Hverjir lögðu fram frv. með ákaflega ábyrgðarlausum og ótímabærum hætti til að fresta verkfalli? Það var hæstv. stjórnarlið, hæstv. sjútvrh. með atbeina hæstv. forsrh. Þá lá fyrir, samkvæmt yfirlýsingu hæstv. forsrh., að samningar væru í þann mund að nást og hæstv. forsrh. ætlaði auðvitað að ná sér í ljómann af því að leysa deiluna og slá sér upp með því að leggja fram þetta ábyrgðarlausa frv. sem þá var sett fyrir þingið. Hverjar urðu afleiðingar þess, herra forseti? Það hlupu allir í keng og allir hrukku til baka. Útgerðarmenn jafnt og sjómenn fóru í kuðung og það var ekki hægt að ljúka samningunum. Formaður sjómannafélagsins á Eyjafjarðarsvæðinu lýsti því yfir margsinnis að þetta frv. og frestunin hefði eyðilagt feril samninganna. Ég lýsi allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir að hafa með inngripi sínu, með íhlutun sinni í samningaviðræðurnar, eyðilagt þá samninga sem hæstv. forsrh. sagði í þessum sal að væru í þann mund að nást. Það er ekki hægt að túlka orð hæstv. forsrh. á þeim tímapunkti öðruvísi en svo að hefðu menn fengið að vera afskiptalausir, fengið að láta samningana ganga sinn gang og tala áfram saman í friði, þá væri ekkert verkfall í dag. Ábyrgðin á þessu er ríkisstjórnarinnar. Þeir tveir menn sem mesta ábyrgð bera eru hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh.

Hvernig hefur deilunni undið fram síðan? Þegar erfið deila eins og þessi, með þá forsögu sem hún hefur, er í gangi þá ber mönnum að halda aftur af sér og þegja. Hverjir voru með stöðugar yfirlýsingar um samningaviðræðurnar? Var það stjórnarandstaðan? Nei, það var hæstv. forsrh., en þó fyrst og fremst hæstv. sjútvrh. Aftur og aftur stigu þeir fram á völlinn og gáfu yfirlýsingar. Jafnan voru yfirlýsingarnar það loðnar að ekki var hægt að skilja þær öðruvísi en svo að leiðinni væri haldið opinni fyrir útgerðarmenn, möguleikanum á að setja lög til að slíta deiluna.

Hvernig halda menn að það gangi fyrir stétt eins og sjómenn sem hefur verið lamin af ríkisvaldinu og útgerðarmönnum árum saman að ná samningum við þessar aðstæður? Útgerðarmenn geta nánast híað á þá og sagt: Reynið þið bara að semja, reynið þið bara að koma með tillögur. Við vitum að þegar á bjátar kemur ríkisvaldið með frv. til þess að slíta þessu. Nákvæmlega það gerðist í þetta skiptið og ég lýsi ábyrgð á hendur hæstv. ráðherrum fyrir að málið skuli komið í þennan hnút. Ábyrgðarlausar yfirlýsingar þeirra hafa sett málið í þessa stöðu. Það er ákaflega nauðsynlegt, herra forseti, að menn hafi það á hreinu við upphaf þessarar umræðu.

Frv. sem hér liggur fyrir er óvanalegt að því leyti til að þar á ekki að fresta verkfalli og ekki að banna það tímabundið heldur á beinlínis að ganga frá samningum við ákveðnar stéttir með lögum. Því er nánast lýst yfir að samningurinn sem vélstjórar gerðu eigi að vera fyrirmynd þeirrar niðurstöðu sem gerðardómur á að komast að. Ég hef skoðað þau frv. og lög sem sett hafa verið á deilur sjómanna. Ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni séð svo fast að orði kveðið sem nú er gert. Kannski liggur skýringin á því í því sem hér kom fram áðan í andsvörum hæstv. sjútvrh. við þann sem hér stendur og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson. Samkvæmt því á beinlínis, hvað sem tautar og raular, að knýja sjómenn til að taka við einhvers konar kjaradómi gerðardóms, kjaraniðurstöðu gerðardóms og láta þá una því í fjögur og hálft ár.

Til stendur að svipta sjómenn, sem við höfum stundum kallað undirstöðugrein samfélagsins, réttinum til frjálsra samninga í fjögur og hálft ár. Mergur málsins var nákvæmlega sá sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson dró út úr hæstv. sjútvrh. áðan. Hvað gerist ef sjómenn vilja fresta? Það kom í ljós að hæstv. sjútvrh. vissi að jafnvel þó að sjómenn vildu fresta verkfalli og hleypa skipum á haf út til veiða þá mundu útgerðarmenn ekki fallast á það. Þess vegna yrðu þessi lög samt sem áður fram að ganga.

Herra forseti. Í þessu birtist samstarf stórútgerðarinnar í landinu og hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er tangarsóknin sem ríkisstjórnin annars vegar og stórútgerðin í landinu hafa beitt gegn sjómannastéttinni. Svo furða menn sig á þingmönnum stjórnarandstöðunnar, sem tilheyra stjórnmálahreyfingum sem hafa áratugum saman og jafnvel í heila öld barist fyrir frelsi vinnandi fólks til að beita þessum rétti sínum, og undrast að við skulum ekki kokgleypa þetta, með öngli, sökku og línu, öllu saman í einum bita.

[11:00]

Herra forseti. Það er svo ótrúlegt að hlusta á málflutning hæstv. ráðherra að ég á eiginlega engin orð. Fyrst hafa þeir hleypt þessu máli í fullkominn hnút og klúðrað því frá upphafi til enda. Þeir bera mesta ábyrgð á stöðu málsins í dag. Þegar þeir koma svo með lög þar sem blasir við, eftir þær umræður sem farið hafa fram, að þeir eru nánast hlekkjaðir saman, ríkisstjórnin og stórútgerðin í landinu, þá undrast þeir að við skulum ekki standa upp og klappa fyrir þeim.

Herra forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að lesa lögin sem sett voru um bann við verkfalli og verkbanni á Herjólfi 13. mars 1993. Ég hvet hæstv. ráðherra líka til að lesa lögin sem samþykkt voru um stöðvun verkfalls á 117. löggjafarþingi, árið 1994 að mig minnir. Hann ætti að bera þau lög saman við það frv. sem hér liggur fyrir. Í ljós kemur að á því er verulegur munur. 3. gr. í frv. sem hér liggur fyrir gengur miklu lengra en þær klásúlur sem er að finna í fyrrgreindum lögum. Það er mergur málsins. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að í 3. gr. frv. sem við ræðum hér sé ekki bara sneitt að félagafrelsi í landinu. Mér sýnist gengið hættulega nærri því að brjóta ákvæði stjórnarskrár varðandi félagafrelsi.

Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki bara fengið gula spjaldið heldur líka það rauða frá Alþjóðavinnumálastofnuninni vegna laga af þessu tagi. Mig langar, herra forseti, að vísa til þess að lög um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi voru kærð, af hálfu þeirra sem sættu þeim lögum, til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hún fjallaði um það mál og niðurstaða hennar var sú að orðalag laganna hafi ekki veitt gerðardómnum sem settur var í málið neinn sveigjanleika til túlkunar. Reyndar er það svo að í úrskurðum sínum viðurkenndi gerðardómurinn þetta sjálfur. Hann benti á að þetta tiltekna ákvæði hafi takmarkað mjög frelsi hans til að leysa málið. Síðan segir í niðurstöðunni að nefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem reifar þetta mál og ræðir, að þetta takmarki rétt stéttarfélaga til að ganga til frjálsra samninga við atvinnurekendur. Síðan segir hún að slíkt sé brot á þeirri meginreglu að aðilar skuli ganga óheftir til almennra kjarasamninga.

Niðurstaðan eftir lagasetninguna 1993 er þessi, með leyfi forseta, og nú vísa ég beint í niðurstöðu nefndarinnar hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni:

,,Nefndin biður því ríkisstjórnina að forðast í framtíðinni að grípa til slíkrar íhlutunar með lagasetningu.``

Við ættum að hafa lært af þessari reynslu, herra forseti. Okkur þingmönnum sem samþykktum þessi lög er ljóst að í því tilviki fór hið háa Alþingi á svig við reglur og sáttmála. Ég spyr, herra forseti: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin leggur núna fram frv. sem gengur lengra og er miklu þrengra en þau lög sem fengu þessa hraklegu útreið?

Við höfum oft, herra forseti, setið tæpt á sakamannabekknum hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að við verðum rassskellt fyrir þetta frv., verði það að lögum. Ég vildi hins vegar í tilefni af þessum orðum mínum inna hæstv. forseta eftir því hvort ekki væri hægt að fá hæstv. vinnumálaráðherra, Pál Pétursson, í salinn. Er hann í húsi, herra forseti?

(Forseti (ÍGP): Forseti mun gera tilraun til þess að sækja hæstv. félmrh. í salinn. Ég sé samkvæmt tölvunni að hann er hér í húsinu.)

Herra forseti. Mér þætti vænt um að hæstv. forseti gerði reka að því að fá hæstv. vinnumálaráðherra hingað til fundarins. Mér finnst reyndar sjálfum að hæstv. ráðherra ætti að sjá sóma sinn í að vera viðstaddur þessa umræðu, ekki síst vegna þess að það hefur komið fram í ræðum fyrr í dag, m.a. í ræðu minni við atkvæðaskýringu fyrr í dag, að talið er að með þessu frv. yrðu brotnir alþjóðlegir sáttmálar og sömuleiðis farið hættulega nærri ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að fá hæstv. félmrh. í salinn.)

Mér þykir vænt um það, herra forseti.

Mér finnst tími til kominn að þingmenn velti fyrir sér ábyrgð sinni og skyldum í málinu sem við erum að ræða. Hvað er í reynd undirrótin að þessum vinnudeilum? Að sjálfsögðu eru það deilur um kvótakerfið og þátttöku sjómanna í kvótakaupum. Þetta er mál sem við höfum margsinnis rætt. Hér hafa meira að segja verið sett lög sem áttu að koma í veg fyrir að sjómenn væru píndir af útgerðarmönnum til að taka þátt í kaupum á kvóta og það hefur ekki tekist þannig að viðunandi sé.

En nú er hæstv. félmrh. genginn í salinn. Ég þakka honum fyrir það en spurningin sem mig langaði að varpa fram og fá svar hæstv. félmrh. við er þessi: Telur hæstv. ráðherra að 3. gr. frv. sé í fullkomnu samræmi við ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi? Telur hann líklegt, miðað við söguna, að hún muni ganga átölulaust af hálfu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar? Telur hann ekki að hér sé gengið á svig við alþjóðlega sáttmála og reglur? Ég tek það fram, herra forseti, að ég æski þess ekki endilega að hæstv. ráðherra veiti mér svar nú þegar en áður en þessari umræðu lýkur vildi ég gjarnan fá svör við þessu.