Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 12:38:21 (7677)

2001-05-14 12:38:21# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi komið fram, m.a. í fjölmiðlum, að bæði fulltrúar sjómanna sem og fulltrúar útgerðarmanna lýsa óánægju sinni með að málið skuli komið í þennan farveg. Ég held ég verði að leiðrétta hv. þm. í því að hér sé verið að ráðast gegn sjómönnum. Það kemur fram, eins og ég nefndi áðan, í máli fulltrúa beggja deiluaðila að þeir eru ósáttir við að ríkisstjórnin skuli grípa inn í.

Ég ítreka, herra forseti, að samningar hafa verið lausir frá 1. febr. árið 2000. Það hafa verið haldnir fjölmargir fundir til að reyna að ná sáttum og báðir aðilar virðast fastir í sínu fari, ekki tilbúnir að gefa eftir og mætast einhvers staðar á miðri leið.

Með öðrum orðum tel ég að þessir fulltrúar deiluaðila hafi sýnt það í verki að þeir valdi því ekki að fara með það mikilvæga umboð sem þjóðin hefur veitt þeim, til að sækja þessa takmörkuðu auðlind.

Þetta snýst ekki einungis um deilur á milli sjómanna og útgerðarmanna heldur um efnahagslíf íslensku þjóðarinnar. Þess vegna hafa stjórnvöld ákveðið að grípa inn í. Það væri ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að gera það ekki, vegna þess hversu miklir hagsmunir eru í húfi, ekki síst hagsmunir heimila og fyrirtækja, jafnt heimila sjómanna sem allra annarra landsmanna. Það er ábyrgð stjórnvalda að treysta þessar efnahagsstoðir og láta ekki efnahagslífið komast í uppnám.

Ég þykist vita að hv. andmælandi sé mér sammála, enda fulltrúi margra alþýðumanna í landinu í samtökum sínum.