Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 12:42:19 (7679)

2001-05-14 12:42:19# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[12:42]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefnir einungis sjómenn í þessu sambandi. Það hefur ítrekað komið fram að hér er um það að ræða að taka mjög alvarlegt mál úr höndum beggja deiluaðila, úr höndum fulltrúa sjómanna og fulltrúa útgerðarmanna. Hvers vegna? Það er vegna þess að þeir hafa haldið þannig á málum, fulltrúar þeirra, að málið er komið í það sem virðist vera óleysanlegur hnútur. Þar er ekki um einkamál fulltrúa þessara tveggja hópa að ræða. Þetta er mál sem varðar alla þjóðina. Þetta er mál sem snertir heimilin í landinu, sem mér finnst hv. þm. líta fram hjá. Það er skylda stjórnvalda að horfa til þess hvaða efnahagslegar afleiðingar langvarandi verkfall hefði. Haft hefur verið eftir einum fulltrúa sjómanna að menn mundu halda áfram deilum þessum þar til færi að grána í fjöll í haust. Þá má spyrja: Hvernig væri efnahagsástand íslensku þjóðarinnar þá? (Gripið fram í.) Hvar væri hinn lýðræðislegi réttur þegar allt væri komið í kalda kol?

Það er lýðræðisleg ábyrgð, hv. þm., stjórnvalda að koma í veg fyrir efnahagslegan glundroða. Ég trúi því ekki, þó að hv. þm. sé mikill baráttumaður, að hann líti fram hjá þeim grundvallaratriðum að halda uppi efnahagslegum stöðugleika sem er grundvöllur þess að hafa fólk í fyrirrúmi, að horfa á heildardæmið. Ég trúi því ekki að hv. þm. líti fram hjá því mikilvæga atriði og vilji sigla inn í efnahagslegt öngþveiti.