Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 12:47:54 (7682)

2001-05-14 12:47:54# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[12:47]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Kennarar voru í tveggja og hálfs mánaðar verkfalli, var það ekki? Nú efa ég ekki að hv. þm. þekki vel til kjara kennara. Ekki ætla ég að draga í efa að þeir séu að sinna mikilvægum störfum í þjóðfélagi okkar. (Gripið fram í.) Jú, jú, hv. þm. Kristján Pálsson, sem betur fer fengu krakkarnir vinnu í einhvern tíma. En ég hygg samt að þetta hafi raskað talsvert miklu í högum margra í þjóðfélaginu.

En það er ekki aðalmál hvort við berum okkur saman við tímalengd í þessu verkfallinu eða hinu. En mér er spurn þegar hv. þm. talar um að mönnum sé trúað fyrir nýtingu aflans í sjónum. Það er einfaldlega þannig að það eru útgerðarmenn sem fá aflaúthlutunina og hafa kvótann hjá sér og hafa, ef ég man rétt úr umræðum í fjölmiðlum í þessari deilu, m.a. látið í ljós að það mætti veiða aflann á öðrum tímum árs, það væri ekki algjör pressa á því að leysa þessa deilu þó hún sé komin upp núna varðandi úthafskarfann og síldina. Ég spyr þess vegna hv. þm.: Er það meining hans sem hann var að tjá hérna eða á ég að skilja það svo að hann telji að þessa varanlega úthlutun á aflaheimildum til útgerðarmanna eigi að leggja niður? Er það það sem hann var að segja?