Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 13:52:00 (7687)

2001-05-14 13:52:00# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hver bakaði þetta neyðarbrauð? Það var hæstv. ríkisstjórn.

Þegar hv. þm. kemur hingað í tvígang og segir að sjómannasamtökin hafi ekki reynst vandanum vaxin gleymir hann þessu: Ríkisstjórnin hefur ekki sparað yfirlýsingarnar. Allt frá því að þessi deila hófst hafa þeir verið með munninn opinn í fjölmiðlum við hvaða tækifæri sem þeir hafa getað. Og alltaf, herra forseti, hafa þeir skilið þannig við málin að það hefur ekki verið hægt að skilja þá öðruvísi en svo að ef í svokallað óefni stefndi mundu þeir grípa inn í með lagasetningu. Hvernig er hægt, hv. þm. Kristján Pálsson, fyrir sjómannasamtökin að reyna að ná samningum við útvegsmenn þegar þeir hafa nánast yfirlýsingar um að ef í óefni stefni muni þeir verða skornir niður úr snörunni með lagasetningu eins og við erum að verða vitni að hér í dag? Við slíkar aðstæður er ekki hægt að semja þannig að hv. þm. ætti að spara sér stóru orðin í garð sjómannasamtakanna.