Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 14:38:58 (7698)

2001-05-14 14:38:58# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Nú hefur verkfall sjómanna staðið í sex vikur og stjórnarmeirihlutinn hefur misst þolinmæðina. Það er forkastanlegt hvernig unnið er að málum á hinu háa Alþingi. Ég frétti af útbýtingarfundinum svokallaða úti á flugvelli á laugardagseftirmiðdag, engir tilburðir voru til að ná í þingmenn til að gefa þeim kost á að vera viðstaddir og tjá sig um málin, pukur og laumugangur og ekkert samráð var haft við stjórnarandstöðuna. Það er, virðulegi forseti, eins og hæstv. ríkisstjórn sé komin í þá stöðu að hún telji sig vera stjórnarbatterí fyrir verktakafyrirtæki úti í bæ en ekki samfélagið Ísland. Þetta eru vinnubrögð sem við getum engan veginn sætt okkur við og þau ber að fordæma og við getum ekki stutt frv. sem hefur aðkomu með þeim hætti.

Á laugardaginn bárust þær fréttir af viðtölum að það var mat mjög margra þá að núna væri fyrst farið að herða að mönnum og nú væri að koma grundvöllur fyrir samningum. Sumir voru að nefna tvo til þrjá daga, að ekki væri meira eftir í málinu. En þá er rokið til og komið með lög á sjómenn eina ferðina enn og hér er um stóralvarlegt mál að ræða. Við gerum okkur öll grein fyrir því að þrýstingurinn er gríðarlegur í samfélaginu. Þrýstingurinn er líka frá sjómönnum vegna stöðu þeirra, staða sjómanna er nefnilega í grunninn mjög döpur og verkfallssjóðir fjölskyldnanna sem bjóða upp á 15--20 þús. kr. á viku í verkfalli er auðvitað engan veginn nægjanlegt þannig að í röðum sjómanna er farið að sverfa að líka. Við gerum okkur fulla grein fyrir þessu og það eru ekki bara sjómennirnir í verstöðvunum heldur er það náttúrlega fiskvinnslufólkið sem þrýstir á menn, fer inn á hinar mórölsku taugar og gerir það að verkum að margir eru sáttir við það, heyrir maður, að ríkisvaldið grípi inn í og setji lög á sjómenn. Þetta heyrir maður úr röðum sjómanna, og það er fyrst og fremst þessi umgjörð sem er svo hörð og nöturleg fyrir sjómenn, fyrir samstöðuna til þess að heyja verkfall síðustu dagana þegar í raun og veru er komið að því að ná fram kjarabótum, ná fram réttindum, þá guggna menn á því, margir hverjir.

Staða sjómanna fyrir íslenska samfélagið er nefnilega stóralvarlegt mál. Á undanförnum árum hefur grunnkaup og kjör með lagainngripi algjörlega legið í láginni, smánarleg kjör sem sjómönnum er þannig boðið upp á beint, og síðan miðað við aðra í samfélaginu er þessi stétt þannig sett að öll mál eru upp í vindinn, slysatryggingamál, eftirlaunamál, fríin. Þetta eru atriði sem gera það að verkum að fyrirsjáanlegt er að atgervisflótti verður úr stéttinni á allra næstu árum. Við höfum upplýsingar um að ungu fólki finnst ekki fýsilegra að fara í sjómennskuna en svo að nemendum fækkar stöðugt í Stýrimannaskólanum og í Vélskólanum líka, sem er tvímælalaust vísbending um það að ungu fólki hugnast ekki að fara í greinina. Það er náttúrlega vegna þess að það fólk sem gæti hugsað sér að fara í sjómennskuna lítur á afkomu og aðstöðu þeirra manna sem eru í sjómennskunni í dag og þá líta menn mjög mikið á eftirlaunamálin, réttindamálin, slysatrygginar og þess háttar þar sem hægt er að segja fjölmargar hræðilegar sögur af því hvernig málum er komið.

Í sjómennskunni hefur líka orðið gríðarleg breyting hvað varðar breytingu á fyrirtækjasamsetningunni í landinu. Menn upplifa atvinnuöryggi í allt öðrum dúr núna en fyrir 10, 15 árum. Mönnum er kastað á milli skipa, kastað á milli verstöðva og þetta hefur gríðarlegar afleiðingar á sjómennina og stöðu þeirra. Óöryggið er miklu meira en áður var og þetta þarf að koma inn í þennan kjarapakka.

Virðulegi forseti. Þess vegna er greinin í heild sinni þannig sett núna að íslenska samfélagið hefur ekki efni á öðru en að taka þetta verkfall og láta það taka þann tíma sem þarf til að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir greinina til framtíðar. Við náum engu með þessari lagasetningu núna. Það verður status quo sem gerir það að verkum að við uppskerum það sem til er sáð. Fækkun verður í Sjómannaskólanum áfram, menn sjá sér ekki hag í því að fara inn í þessa grein og það kemur samfélaginu öllu í koll til lengri tíma litið og er raunar farið að gera það vegna þess að vöntun er í sumum starfsstéttum þar sem menn þurfa að vera með góða og mikla menntun.

[14:45]

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að líða það að hæstv. ríkisstjórn komi fram með frv. sem bersýnilega gengur þvert á allar alþjóðasamþykktir um réttindi manna til að vera í félagasamtökum, grunnrétt manna til að heyja verkfall og ná fram réttindum sínum þannig. Ég sé ekki betur en að þetta frv. sé svo gallað og samsetningin á því sé þess eðlis að hæstv. ríkisstjórn með hæstv. ráðherra, sem fer með málaflokkinn, muni lenda á sakamannabekk hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni ef þetta verður látið ganga eftir eins og það er sett upp. Það er nú ekki gott til afspurnar að við á hinu háa Alþingi skulum ekki geta vandað betur til verka en svo að við stöndum að samþykkt frumvarpa sem bersýnilega brjóta í bága og eru í trássi við það sem samþykkt hefur verið á alþjóðagrundvelli.

Virðulegi forseti. Eins og málum er stillt upp með því að stofnaður verði gerðardómur ef ekki verður samið, þá erum við að gera þetta til það langs tíma að við erum að taka völdin af og raunar veikja sjómannasamtökin og náttúrlega líka samtök útgerðarmanna, LÍÚ, og það er fáránleg staða líka. Auðvitað mun staðan vera þannig að innan LÍÚ hafa menn meiri áhuga á því að slíkt sé gert heldur en innan sjómannasamtakanna. En það er í mínum huga alveg augljóst að ef þessu fer fram sem horfir, að hér verði binding til fjögurra og hálfs árs, þá munum við uppskera minni menntun sjómanna til framtíðar litið, flótta úr greininni og minni fagþekkingu, en við Íslendingar höfum státað okkur af því að vera í fremstu röð meðal þjóða í sambandi við fagþekkingu. Og það er staða sem við getum ekki liðið og þess vegna var það svo nauðsynlegt að hafa þolinmæði, halda ró sinni sennilega í 3--5 daga í viðbót vegna þess að verkfallið er farið að bíta. Þó svo að við gerum okkur grein fyrir því að staða sjómannsfjölskyldnanna er slæm, þær hafa ekki nema 15--20 þúsund á mánuði úr verkfallssjóði, þó að við gerum okkur grein fyrir því að staðan hjá sveitarfélögunum í sjávarplássunum er erfið, þó að við gerum okkur grein fyrir því að staða fiskverkafólks sé erfið um stundarsakir meðan þetta ríður yfir, þá var það svo nauðsynlegt að í þetta eina skipti gætum við borið gæfu til þess að láta reyna á samninga milli aðila á eðlilegum nótum.

Virðulegi forseti. Ég er andvígur þessu frv. eins og ég hef sagt. Það hefur verið farið efnislega yfir frv. af öðrum hv. ræðumönnum þannig að ég sé ekki ástæðu til að gera það, en ég hef miklar áhyggjur af stöðu sjómannastéttarinnar ef þetta á að ganga fram á þennan hátt. Það er mál sem við erum ekki búin að bíta úr nálinni með, eins og ég segi, og þetta er til stórtjóns til lengri tíma litið.