Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 16:00:58 (7708)

2001-05-14 16:00:58# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að lýðræðið sé greitt fyrst og fremst með þeim verðmætum sem sjómenn og fiskvinnslufólk standa að í samfélagi okkar. Við skulum ekki gleyma hlut fiskvinnslukvennanna sem vinna líklega erfiðara starf en sjómennirnir sjálfir þó að það sé annars eðlis.

Full ástæða er til að virða rétt sjómanna en sjómenn vita manna best að þegar í óefni er komið, þegar ólagið ríður yfir, þá verður að bregðast við. Þeir sem lenda inni í brimgarðinum þurfa að komast út úr honum. Verkfall sjómanna í sex vikur og engar vísbendingar um lausn mála á næstu vikum eða mánuðum gerir ekkert annað en mola undan samfélagi okkar og þegar er farið að mola í byggðum landsins. Það molar ekki í Reykjavík eins og ég sagði, en farið er að mola í byggðum landsins. Við verðum og höfum skyldu til að bregðast við þegar svo er komið. Þannig er tíminn útrunninn og að mínu mati þó fyrr hefði verið og virði ég þó fullkomlega rétt sjómanna. En þegar ekki er hægt að benda á nein atriði til lausnar, hvorki af sjómönnum, sáttasemjurum né öðrum aðilum sem koma að málinu, þá verður að bregðast við. Þetta er eina leiðin sem íslenskt samfélag getur gert í þeim efnum til að við verðum okkur ekki til skammar sem þjóð og forsvarar fyrir íslenska þjóð því það er spurning um sjálfstæði Íslands að við höldum reisn þjóðarinnar og virðingu og höldum samfélaginu gangandi.