Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 16:03:19 (7709)

2001-05-14 16:03:19# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Svei mér þá ef hv. þm. náði ekki að koma einu nýju hugtaki inn í þingsöguna áðan. Hann lítur á sjálfan sig sem forsvara. Hann telur sig vera einhvers konar forsvara í þessum efnum. Auðvitað er enginn botn í því að annars vegar setja á þessar ræður eins og nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. hafa reynt að gera hér og mæra sjómannastéttina og lýsa yfir ást sinni og aðdáun á henni, tíunda það að þeir hafi sjálfir verið á sjó eins og hv. þm. Kristján Pálsson, séu alveg með þetta sérstaklega í æðunum eins og hv. þm. Árni Johnsen, en ætla síðan engu að síður að standa að þessari lagasetningu í andstöðu við sjómenn.

Hv. þm. Árni Johnsen sagði að sjómenn vissu manna best að þegar komið væri í óefni og þegar komið væri inn í brimgarðinn o.s.frv. með miklu líkingamáli, þá yrði að grípa til einhverra ráða. Sjómenn hafa ekki beðið um þessi lög. Þeir eru á móti þeim og ef hv. þm. hefur þessa trú á dómgreind sjómanna og virðir þá eins og hann segir í öðru orðinu, af hverju treystir hann þá ekki þeim sjálfum til að meta hvernig þeir fara með verkfallsrétt sinn? Það er það sem þeir hafa verið að reyna að gera.