Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 16:05:40 (7711)

2001-05-14 16:05:40# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hv. þm. Árni Johnsen skuldi okkur ákveðnar skýringar í þessum sal. Hann sagði í ræðu sinni að hann teldi að varla væri hægt að ætlast til þess að sjómenn næðu samningum um sum þau atriði sem þeir væru að reyna að semja um sem hann m.a. nefndi ef ég man rétt fiskverð og eitthvað fleira.

Mér finnst að hv. þm. skuldi okkur nákvæma skýringu á því hvers vegna hann lítur svo á að sjómenn séu ekki bærir til þess að ná samningum í þessari stöðu. Spurningin er þessi: Er það vegna kvótakerfisins? Er það vegna kvótabrasksins eða er það krafa LÍÚ um arð af hverju kílói fisks sem þeir geta skammtað sjálfum sér, af hverju kvótakílói sem kemur í veg fyrir að sjómenn geti yfirleitt náð samningum í þessari kjaradeilu? Er það eitthvað af þessum atriðum sem ég spurði um eða er það eitthvað annað sem kom ekki fram í ræðu hv. þm. sem veldur því að hann leggur það mat á að það sé ekki á valdi sjómanna að ná samningum í þessari kjaradeilu? Ef það er svo, þá hljótum við að spyrja okkur í hv. Alþingi: Hverju eigum við að breyta í lögum svo að eðlilegir kjarasamningar megi komast á milli stétta í þessu starfsumhverfi?