Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:35:48 (7719)

2001-05-14 18:35:48# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér hafa menn rakið aðdragandann að þessum deilum, hvernig sjómenn reyndu í upphafi árs að ná skammtímasamningi um hækkaða tekjutryggingu sem nú er 86 þús. kr., um bættar slysatryggingar sem að dómi flestra sanngjarnra manna ef ekki allra eru mjög ósanngjarnar og um lífeyrisgreiðslur samsvarandi þeim sem aðrar stéttir hafa samið um. Gegn þessu stóðu útvegsmenn. Þess vegna var gripið til verkfallsvopnsins. Það var ástæðan.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur og segir: Verkföll byggja á ofbeldi. Það er rétt. Í þessu tilviki byggja þau á ofbeldi þeirra sem staðið hafa gegn réttmætum kröfum sjómanna. En hvað vill hv. þm. gera? Hann vill kippa grundvellinum undan kjarabaráttu sjómanna og banna verkfall þeirra, nauðvörnina. Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Péturs H. Blöndals, fulltrúa Sjálfstfl. við þessa umræðu: Vill hv. þm. láta banna öll verkföll?