Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:45:36 (7727)

2001-05-14 18:45:36# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals langar mig til að fá fram svör við því hvort hann telji rétt að afnema verkfallsréttinn, ekki bara hjá sjómönnum heldur hjá öðrum stéttum líka. Það hlýtur það sama að ganga yfir alla í landinu. Nú þegar hafa fjölmargar stéttir í raun og veru ekki verkfallsrétt. Það eru stéttir sem sinna heilbrigðismálum og öryggismálum og verða að lúta því að hafa ekki þennan rétt. En hvernig eiga þá sjómenn og aðrir sem ná ekki fram kröfum á launatöxtum og í þessu tilfelli varðandi sjómenn um skiptahlutfall að ná fram réttarbótum ef ekki nást samningar, ef ekki er tekið undir kröfur þeirra, ef samningar eru lausir um lengri tíma eins og hjá sjómönnum núna? Til hvaða ráða geta þeir gripið til að ná frjálsum samningum ef þeir eiga ekki að hafa verkfallsrétt?