Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:59:30 (7732)

2001-05-14 18:59:30# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að tekjutap fiskverkafólks er tilfinnanlegt og það er mjög alvarlegt. Það er ámælisvert og í hæsta máta gagnrýnisvert að útvegsmenn skuli hafa sett þessa deilu í þann hnút að það skuli bitna þannig á láglaunafólki.

[19:00]

Hæstv. félmrh. sagði að hér værum við að fjalla um frv. en ekki lög og frv. mætti breyta. Nú er það reynsla okkar á Alþingi að það hefur ekki alltaf reynst auðvelt að breyta stjfrv. Ég spyr: Var ekki samkomulag á milli stjórnarflokkanna um hvernig þetta frv. skyldi líta út áður en það var lagt fram á Alþingi?

Hæstv. félmrh. upplýsti að málin hefðu verið til skoðunar í félmrn. í dag. Voru þessi mál ekki skoðuð áður en þau voru lögð fram á þinginu? Reyndar báru svör hæstv. ráðherra það með sér að svo hefði ekki verið: ,,Ég tel það ekki brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum. Ég vona að það brjóti ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum.`` Ég lýsi furðu á þessu ábyrgðarleysi.