Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 19:05:39 (7738)

2001-05-14 19:05:39# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. þarf ekki að kenna þingmönnum, a.m.k. ekki þeim sem hér talar, að það þurfi þrjár umræður til þess að frumvörp verði að lögum. Ég hef hins vegar stundum á tilfinningunni að hæstv. forsrh. hefði gott af námskeiði hjá félmrh. því hann hegðar sér yfirleitt eins og hans ákvarðanir séu orðnar þar með lög í landinu um leið og honum hefur dottið eitthvað í hug eða hann ákveður eitthvað. Það er ekki svo sem betur fer. Og þingið hefur auðvitað ekki bara möguleika til að breyta hlutum, það hefur þá skyldu að vanda vinnubrögð og laga það sem bersýnilega er ekki í lagi þegar þingmál koma hér og ber að með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég held að ekki þurfi í sjálfu sér að orðlengja um þetta frekar. Það er búið að gefa um það hér mjög merka yfirlýsingu af hæstv. félmrh. að það verði að fara rækilega ofan í saumana á þeim þáttum málsins er snúa að samningsréttinum og skuldbindingum okkar gagnvart honum og að félmn. þingsins þurfi að taka málið til sín til að skoða það sérstaklega með stuðningi ráðuneytisins. Það verður þá að sjálfsögðu gert.