Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 19:10:46 (7744)

2001-05-14 19:10:46# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Af því að hæstv. félmrh. sagði að Herjólfsmálið væri ekki sambærilegt þá vil ég byrja á að segja að það er fullkomlega sambærilegt varðandi túlkun á því hversu langt megi ganga í slíku inngripi og hversu miklar hömlur eru settar á frelsi gerðardómsins. Það var það sem var fyrst og fremst dregið hér fram í umræðunni og þetta er fullkomlega sambærilegt.

Hæstv. ráðherra sagði skilyrði fyrir hendi fyrir því að setja lög. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi velt fyrir sér og hvort félmrn. hafi skoðað hvort ákvæði umræddrar 3. gr. standist alþjóðasáttmála vegna þess að gerðardómurinn er ekki frjáls að því hvernig hann leysir deiluna og vegna þess hversu afgerandi bindingin er við samning vélstjóra og vegna þess hversu langur gildistíminn er. Það voru þessi þrjú atriði sem ég nefndi sérstaklega í ræðu minni og vildi gjarnan fá svar við því frá hæstv. félmrh. hvort hann telji þessi ákvæði standast alþjóðasamninga og hvort það hafi verið skoðað sérstaklega í ráðuneytinu. Ég verð að segja, herra forseti, að þessi umræða vekur mann enn og aftur til umhugsunar um löggjafarundirbúning á hinu háa Alþingi þegar við erum enn og aftur að fjalla um svona hluti þegar frv. er komið fyrir Alþingi.