Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 20:15:28 (7750)

2001-05-14 20:15:28# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[20:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hafði orð á því að hlaupið væri upp til handa og fóta núna vegna þess að útgerðin hefði beðið um það. Ég velti því fyrir mér hvers vegna hv. þm. segir þetta og hvað hann hefur fyrir sér í því að verið sé að hlaupa eftir útgerðinni í þessu máli. Útgerðin er búin að semja við vélstjóra. Það er ljóst að þar hefur náðst niðurstaða.

Árið 1998 voru samþykkt á Alþingi lög sem voru sniðin eftir sáttatillögu sem sáttasemjari ríkisins hafði þá lagt fyrir deiluaðila. Í atkvæðagreiðslu samþykktu sjómenn þessa miðlunartillögu en Landssamband ísl. útvegsmanna felldi tillöguna. Þessi tillaga var síðan samþykkt hér á Alþingi nánast óbreytt eða lítið breytt og það var auðsjáanlega ekki verið að hlaupa eftir vilja útgerðarmanna í því tilliti eða á þeim tíma. Ég hef ekki séð það núna að það sé verið að hlaupa sérstaklega eftir einhverjum óskum útgerðarmanna.

Þess vegna langar mig til að vita, herra forseti, (Gripið fram í.) hvenær ósk frá Landssambandi ísl. útvegsmanna kom fram um að ríkisstjórnin setti lög og hvort það hafi í raun einhvern tíma heyrst frá ríkisstjórninni eða hún hafi lýst því yfir að hún ætlaði að gera þetta.