Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 20:22:13 (7754)

2001-05-14 20:22:13# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[20:22]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það gengur enginn til þess með bros á vör að setja lög á sjómannadeiluna. Það er öllum ljóst. En hver er staða málsins í dag? Í Morgunblaðinu í gær er sagt frá árangurslausum samningafundi á laugardaginn. Þar segir að útlitið sé mjög dökkt, það hafi ekki batnað á neinn hátt. Þetta er erfiðara en nokkru sinni fyrr, sagði Þórir Einarsson sáttasemjari í samtali við Morgunblaðið. Verkfall sjómanna hefur nú staðið í sex vikur og er það lengsta til þessa.

Þetta er staðan. Nú vil ég spyrja hv. þm. sem ég veit að er sanngjarn maður og velviljaður og kemur úr byggðarlagi sem byggir nánast allt sitt á því sem kemur úr sjónum. Ef hv. þm. er að hlusta, þá vil ég gjarnan spyrja hann: Hvað finnst honum um stöðu fiskverkafólksins í byggðarlaginu hans og í kjördæminu hans og um allt land? Hefur hann ekki áhyggjur af stöðu þess? Hefur hann ekki áhyggjur af stöðu þess erlenda verkafólks sem mælir göturnar dag eftir dag og viku eftir viku? Hefur hann ekki áhyggjur af þeim fjölmörgu þjónustufyrirtækjum og einstaklingum sem hafa afkomu sína af því að þjónusta flotann og fiskvinnsluna? Þetta fólk getur ekki geymt kvóta sinn og tekið hann þegar verkfallið leysist. Þetta fólk er að tapa verulegum tekjum og á mjög bágt þessa daga. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. sjái það vandamál.

Ég spyr hann líka hvort hann hafi ekki áhyggjur af fiskmörkuðum okkar erlendis, ef við getum ekki útvegað fisk upp í sölusamninga viku eftir viku og mánuð eftir mánuð? Ég spyr hann enn fremur hvort hann hafi ekki áhyggjur af efnahagslífi þjóðarinnar og stöðu krónunnar þegar útflutningurinn hrapar og er nánast enginn viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Eigum við í þessari stöðu, hv. þm., kannski að bíða í sex vikur enn eftir að mönnum þóknist að semja? Ef hv. formaður Samfylkingarinnar hættir nú að leggja hv. þm. orð í eyra, ég veit að hann er einfær um að svara þessu, Össur minn, þá þætti mér vænt um að fá svör við þessu því ég veit að hv. þm. hefur taugar til allra þessara aðila og þeirrar alvarlegu stöðu sem við erum í og hann vill ekki að verkfallið verði áfram í sex vikur. En það er ekkert sem bendir til neins annars samkvæmt þeim fréttum sem við höfum hér fyrir framan okkur.