Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 20:24:26 (7755)

2001-05-14 20:24:26# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[20:24]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað hef ég áhyggjur af því þegar fiskverkafólk hvort sem það býr í Grundarfirði eða vestur á fjörðum er verkefnalaust vegna verkfalla. En kaupin ganga þannig og gerast þannig að það er ekki hægt að koma málum áfram oft og tíðum nema grípa til verkfalla. Mér verður hugsað til verkakvenna sem komu vestan af fjörðum fyrir nokkrum árum til Grundarfjarðar. Þær voru í kjarabaráttu og launabaráttu. Þær voru að berjast fyrir því að fá 100 þús. kr. á mánuði í laun. Það hefur ekki náðst. Ég gleðst yfir því að hv. þm. Guðjón Guðmundsson skuli sýna því skilning líka hvað kjör verkamanna eru bág. Það er mjög slæmt þegar staðan er svona og það er mjög slæmt þegar verkfall er. En hvað eiga menn að gera til að knýja fram bætur og knýja fram réttlæti í málum sínum?