Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 20:27:12 (7756)

2001-05-14 20:27:12# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[20:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um kjaramál fiskimanna og fleira. Frv. felur í sér að bundinn skuli endir með lögum á verkfall aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandsins auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands ísl. útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum í Alþýðusambandi Vestfjarða eins og nánar er tilgreint í 1. gr. frv.

Í 2. gr. frv. segir:

,,Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001 skal Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm. Skal gerðardómurinn ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr.:``

Í greininni eru síðan talin upp þau atriði sem varða hvað mestu. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég aðeins að fara yfir þau atriði sem gerðardómur á að taka til og síðan hvernig þessum kjaradómi er sagt fyrir um hvernig hann á að vinna. Dómurinn skal ákveða um:

a. atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila,

b. atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör,

c. atriði er varða kauptryggingu og launaliði,

d. atriði er varða slysatryggingu,

e. atriði er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum,

f. atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og

g. önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál.

Herra forseti. Þarna er ekki minnst á eitt grundvallaratriði sem einmitt oft er tekið með og mikilvægt er í kjarasamningum, í samningum um kaup og kjör og er hluti af þeim. Það er menntun og sú umgjörð menntunar sem hver starfsstétt býr við. Ég held að það sé fyllilega ástæða til þess, herra forseti, að hafa áhyggjur af því hver staða menntunar í sjómanna- og fiskimannastéttinni er og af þeim áherslum sem stjórnvöld hafa í þeim þætti.

Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað skiptast á nokkrum orðum við hæstv. menntmrh. um áherslur hans í menntun og hvernig hann hefði komið þeim að í þessu frv. Hvernig barðist hæstv. menntmrh. fyrir baráttumálum sínum sem hann ber ábyrgð á, þ.e. sjónarmiðum menntunar og endurmenntunar og öðrum slíkum atriðum heillar starfsstéttar?

[20:30]

(Forseti (ÍGP): Forseta er ekki kunnugt um á hvern hátt hæstv. menntmrh. kom að þessu máli.)

Ég þakka hæstv. forseta og leyfi mér að koma því á framfæri að hæstv. menntmrh. setji sig inn í menntunarmál sjómanna, setji sig inn í öll þau menntunarmál sem lúta að einmitt þessari starfsstétt og það hefði fyllilega verið ástæða til þegar verið er að setja ramma í kjaraumgjörð, í starfsumgjörð á heilli stétt, að það hefði átt að vera nefnt. En ég hef lesið þetta í gegn nokkrum sinnum, herra forseti, og hef ekki séð það. Þetta er í sjálfu sér hluti af þeirri umgjörð. Það hefði verið mjög eðlilegt að í þeim samningum sem standa yfir og ég tala ekki um þegar á að fara að setja málin í gerðardóm að þá væri þar jafnframt tekið tillit til þess og settar fram kröfur og óskir, ekki bara af hálfu sjómanna heldur af hálfu ríkisvaldsins, um að þar væri kveðið á um að setja inn myndarlega fjárupphæð til menntunar, endurmenntunar og hvernig mætti auðvelda sjómönnum og öðrum sem að þessu vinna, fiskvinnslufólki og öðrum, aðgengi að menntun.

Ég ítreka að ég tel að hæstv. menntmrh. ætti að huga að sínum þætti og ábyrgð í umgjörð þessa máls, umgjörð kjara heillar starfsstéttar.

Síðan, með leyfi forseta, er áfram í 3. gr. kveðið á um hvernig gerðardómurinn skuli starfa. Mér finnst helst skorta á, herra forseti, ef sami tónn ætti að vera í gegnum frv. að þá hefði átt að nefna með nöfnum hvaða menn ættu að fara í gerðardóminn. Það hefði verið miklu eðlilegra svo þetta lægi allt meira og minna ljóst fyrir því að í 3. gr. er sagt hvað gerðardómurinn eigi að gera og hvernig úrskurður hans skal vera. Honum er uppálagt að fara eftir þeim kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001 og öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á.

Þarna er beinlínis mælt svo fyrir að gerðardómurinn eigi ekkert að vera að slugsa við að spekúlera í neinum atriðum, hann á bara að taka þennan samning og skipta kannski um nöfn í honum en að öðru leyti virðist hann eiga að gilda.

Þetta gildir einnig um gildistökutímann. Engin ástæða er til annars, það sparar prentun og annað því um líkt að nota þennan kjarasamning sem nokkur hópur vélstjóra hefur samþykkt og láta hann verða algildan fyrir allar þessar starfsstéttir. Það er líka hagræði í því að láta hann gilda í sama tíma og sá samningur.

Mér sýnist þetta því verða býsna einfalt og ódýrt verk hjá væntanlegum gerðardómi, ef hann verður skipaður, og greinilega útgjaldalítið fyrir ríkissjóð.

Ég set út á það, herra forseti, og tel að ætti að athuga það hvort ekki væri verulegt hagræði í því að það kæmi inn ákvæði í 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman.`` --- Það væri miklu þægilegra að vera með nöfn á þessu þannig að ekki þurfi ekki að vera neitt að streða í þessu sérstaklega. Þá er þetta svona í stíl.

Hins vegar er leitt að heyra að hæstv. félmrh. hefur látið að því liggja að ekki væri alveg víst að þessi grein stæðist vinnurétt og alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar eiga aðild að varðandi félagsleg réttindi einstaklinga og félaga og vinnurétt o.s.frv. Hæstv. ráðherra hafði ekki gefist tóm til fyrr en í dag að skoða hvort þetta lagafrv. sem verið væri að setja fram hefði nokkra lagastoð eða ekki. Og er það nokkuð seint gripið ef farið er í það eftir að frv. er komið fram að athuga hvort meginþættir frv. eigi sér þá lagastoð.

En hæstv. félmrh. er gætinn maður og ég hygg að hann muni styðja hæstv. sjútvrh. til betri vegar í þessu og benda honum á agnúa sem kunna að vera á þessum greinum áður en þetta verður að lögum. Og betra að það hefði verið athugað fyrr.

En hvers vegna, herra forseti, eru þessar kjaradeilur til komnar? Upplýst hefur verið að sjómannastéttin hefur æ ofan í æ mátt búa við að sett væru lög á kjarasamninga hennar og hefur hún verið samningslaus nú í líklega u.þ.b. sex ár.

Þess vegna er við hæfi að rifja það upp að starfskjör sjómanna eru bara hluti af þeim þætti sem lýtur að sjávarútvegi og vinnslu sjávarfangs hér á landi. Öllum er kunnugt um þá deilu, þá ósátt sem ríkir um sjávarútvegsstefnuna hér á landi. Það var því ekki að ástæðulausu að fyrir síðustu alþingiskosningar lýstu bæði formaður Sjálfstfl., hæstv. núv. forsrh., og einnig formaður Framsfl., hæstv. núv. utanrrh., því fjálglega yfir á flokksþingum sínum, í aðdraganda og undirbúningi kosninganna, að það yrði að leggja vinnu í það og væri afar mikilvægt að endurskoða stefnuna um stjórn fiskveiða og ná fram sátt hjá þjóðinni um þá stefnu. Við munum öll þessi kosningaloforð. Við munum þau öll. Þetta átti að vera hið fyrsta sem ríkisstjórnin ætlaði að grípa til eða sem þessir venjulegu formenn flokka sinna þá sem urðu síðan ráðherrar ætluðu að grípa til (Gripið fram í.) ef þeir kæmust til valda.

Einn meginkafli í stjórnarsáttmálanum, sem þessir ágætu formenn flokka sinna gerðu, var um það að lög um stjórn fiskveiða skyldu endurskoðuð.

Ég leyfi mér að vitna, herra forseti, í Morgunblaðið laugardaginn 29. maí 1999 þar sem verið er að vitna í stefnuyfirlýsingar og áherslur nýrrar ríkisstjórnar:

,,Vinna á að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnun og forsætisráðherra er spurður hvernig því verði háttað: ,,Áætlanir okkar um fiskveiðistjórnun draga mjög dám af þeim ræðum sem formenn stjórnarflokkanna fluttu hvor um sig á landsfundum sínum, annars vegar að viðhalda því sem menn telja farsælt og hafa skilað árangri fyrir þjóðina í heild en jafnframt er undirstrikuð nauðsyn þess að ganga í þá endurskoðun sem lög um stjórn fiskveiða mæla fyrir um að í skyldi farið í framhaldi af dómi Hæstaréttar. Það skýrir vilja ríkisstjórnarinnar til að takast á við þetta verkefni sem margir telja að hægt sé að finna lausn á án þess að hafa bent á það.`` Með nefnd sem skipa á strax til að endurskoða lögin segir Davíð Oddsson þessi fyrirmæli laganna undirstrikuð. Þá er í fyrsta sinn sett inn í sáttmála flokkanna ákvæði um að greinin taki í auknum mæli þátt í kostnaði við eftirlit, þjónustu og hvers kyns rannóknir í þágu hennar eftir því sem afkoma hennar leyfir.``

Ekki fer á milli mála, herra forseti, að hæstv. forsrh., sem þá er nýskipaður eða nýr, er afar hugleikin sú ábyrgð hans sem hann hafði þá lýst yfir áður á landsfundi sínum í aðdraganda kosninga að væri eitt brýnasta málið til að takast á við.

Þegar vitnað er í hæstv. utanrrh. í þessum sama undirbúningi að ríkisstjórn í kynningu á stjórnarsáttmálanum, í Morgunblaðinu 29. maí 1999, þá stendur með fyrirsögn, með leyfi forseta,:

,,Árangur í sjávarútvegsmálum innan árs. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum verður skipuð nefnd til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Halldór sagðist telja mikilvægt að þessi nefnd starfaði hratt en störfum hennar hefði ekki verið settur neinn tímafrestur.`` --- Síðan kemur, herra forseti: --- ,,Ég gæti vel hugsað mér að sjá einhvern árangur af slíku starfi innan eins árs,`` sagði hann.``

Þetta er sem sagt sagt 29. maí 1999. Hæstv. utanrrh. og formanni Framsfl. er umhugað um starfið og áfram segir í fréttinni, með leyfi forseta:

,,Um hugsanlega niðurstöðu af starfi nefndarinnar sagði Halldór: ,,Þetta er margslungið mál og inn í það kemur m.a. tekjuskiptingin í sjávarútveginum.```` --- Inn í það kemur tekjuskiptingin í sjávarútveginum, og er það ekki það, herra forseti, sem við erum að ræða hér? Erum við ekki að ræða tekjuskiptinguna í sjávarútveginum? Einmitt. Auðvitað er tekjuskiptingin hluti af þeirri endurskoðun sem var lofað við myndun ríkisstjórnarinnar í maí 1999.

Og áfram, með leyfi forseta, segir formaður Framsfl.:

,,Ég ætla ekki að spá fyrir um það, en það kemur fram að það eigi að miða að því að sjávarútvegur sé sem öflugastur og þar með byggðirnar. Byggðirnar þurfa á öflugum sjávarútvegi að halda, en það eru margir sem átta sig ekki nægilega vel á hve mikil áhrif breyttar aðstæður hafa haft á sjávarútveginn, þ.e. opnara hagkerfi og sú staðreynd að við jöfnum ekki lengur sveiflur í sjávarútvegi með gengisbreytingum,`` --- með gengisbreytingum, þetta var fagurlega sagt --- ,,heldur þurfa fyrirtækin að hafa möguleika á að aðlagast breyttum aðstæðum og geta hagrætt til að lifa af samdrátt.``

Herra forseti. Í yfirlýsingum beggja formanna ríkisstjórnarflokkanna, í upphafi ríkisstjórnarferils þeirrar sem nú situr, leggja þeir báðir áherslu á að endurskoðun fiskveiðistjórnarstefnunnar sé mikilvæg til að ná sátt um skiptingu verðmætanna, um það hvað hver skuli hafa í sinn hlut úr þessum atvinnuvegi.

[20:45]

Það er ljóst að þetta var klárt í upphafi. Hefur nokkuð breyst? Nei, herra forseti, ekkert hefur breyst annað en að endurskoðunarnefndin sem skipuð var og hafði þetta veigamikla hlutverk, hefur engu skilað. Hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. vonaðist til að það yrði innan árs. Nú eru að verða tvö ár síðan þessi nefnd var skipuð. Hún átti að hraða vinnu sinni og hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. vænti þess að hún mundi skila einhverju innan árs. Síðan fréttum við í umræðum á Alþingi í dag að þessi nefnd, sem hefur svo mikilvægt hlutverk, hafi einungis komið til tveggja stuttra funda á þessu ári. Hins vegar hefur mjög oft verið boðað til funda en þeim jafnharðan verið frestað eða aflýst. Nefndin sem átti að hafa það hlutverk að taka á endurskoðun á stjórn fiskveiða, þar á meðal kjörum, starfs- og kjararamma þeirra sem að greininni starfa, útgerðarmanna, sjómanna eða fiskvinnslufólks. Það liggur því beinast við að lýsa allri ábyrgð á hendur ríkisstjórnarflokkunum, Framsfl. og Sjálfstfl., á því hvernig staðan er í fiskveiðimálum og kjaramálum sjómanna.

Hv. þm. Guðjón Guðmundsson kom hér og minntist á stöðu fiskvinnslufólks. Hann spurði hv. þm. Karl Matthíasson hvort hann hefði ekki áhyggjur af stöðu fiskvinnslufólks. Auðvitað höfum við miklar áhyggjur af stöðu fiskvinnslufólks. En hvers vegna er staða fiskvinnslufólks með þeim hætti sem raun ber vitni? Hvers vegna er svo mikið óöryggi í atvinnu þeirra, um það hvort aflinn kemur að landi hjá þeim, um það hvort þeirra fiskvinnsla fái fiskinn eða ekki og hver ræður þeirri stefnu? Jú, þetta er hluti af fiskveiðistjórnarstefnunni.

Hafi menn áhyggjur, sem er eðlilegt, af kjörum og stöðu fiskvinnslufólks þá eiga þeir að snúa sér að því sem þessu fólki var lofað í síðustu kosningum, að það yrði forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að endurskoða þau lög sem m.a. eru ábyrg fyrir því að þetta fólk býr við hvað minnst atvinnuöryggi á Íslandi.

Það hefði verið nær að ríkisstjórnin spýtti í lófana, eigi hún eitthvað til að spýta í þá, og tæki á endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna. Þá stæðum við trúlega ekki í þeirri stöðu sem við erum í hér í dag, að ræða um að setja þurfi lög á verkfall og verkbann í sjávarútveginum. Þá væri meira á hreinu varðandi þessa atvinnugrein hvort sem við hefðum öll verið sátt við þá niðurstöðu eða ekki, þá vissum við þó hvernig umgjörð hennar ætti að vera til næstu ára. En nú er allt í sömu óvissunni, herra forseti. Ætlunin virðist að gera ekki neitt í þessari endurskoðun á stjórn fiskveiða.

Við minnumst síðasta flokksþings Framsfl., herra forseti. Þar töluðu menn af miklum ákafa, baráttuhug og krafti. Þar var lögð fram skýrsla sem allir bjuggust við að mundi hleypa Framsfl. í uppnám, jafnvel kljúfa hann. (Gripið fram í: Hvar var þetta? ) Þetta var á flokksþingi Framsfl. Það var meira að segja svo að flokksþingið gleymdi um tíma að skammast út í Vinstri græna. Það gleymdist þó ekki alveg.

Niðurstaðan varð sú, þessi fína snertilending, (Gripið fram í.) að skipa nefnd valinkunnra framsóknarmanna undir forustu valinkunnasta framsóknarmannsins af öllum --- sá hefur ekki fundist enn. Hún skyldi síðan endurskoða stefnu Framsfl. í fiskveiðimálum og fresturinn sem henni var gefinn var ekki skýrt tilgreindur en þó var þess vænst að hún mundi skila af sér á haustdögum. Hvort það var á næstu haustdögum eða þar næstu er álitamál. Þessi nefnd átti að vera verklagsnefnd fyrir annan ríkisstjórnarflokkinn en hún hefur, að því er best er vitað, ekki enn tekið til starfa. (Gripið fram í: Það vantar formann.) Það vantar formann. Hvort sem hann hefur verið ráðinn eða ekki þá er nefndin ekki virk. (Gripið fram í.) Þetta er mikið vandamál, það vilja sjálfsagt allir vera formenn.

Þetta er umgjörð fiskveiðistjórnarinnar hér á landi. Meðan ekkert gerist á þessum vettvangi er þess heldur ekki að vænta að þeir sem starfa að atvinnugreininni viti hvernig þeir eiga að ráða fram úr óvissunni. Þegar hv. þm. ræða um óöryggi og erfiða stöðu fiskvinnslufólks þá er það alveg hárrétt. En þeim hv. þm. væri nær að leggjast á árar og róa í sínum eigin flokksmönnum og krefjast þess að því sem var lofað fyrir síðustu kosningar, áfram var lofað við gerð stjórnarsáttmálans og æ ofan í æ á fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar sem nú situr, að þetta skyldi verða áhersluverkefni þeirra, að endurskoða fiskveiðistjórnarstefnuna með tilliti til allra þeirra þátta sem ég hef vitnað til úr stefnu þeirra.

Nú er það svo, herra forseti, að fyrir Alþingi liggja góð frv. og tillögur til að bæta þessa umgjörð. Hefði verið vilji hjá hv. meiri hluta Alþingis til þess að taka á málunum þá hefði hann samþykkt þær tillögur sem hafa verið fluttar af flokkum í minni hluta á Alþingi, af Frjálslynda flokknum, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og af þingflokki Samfylkingarinnar. Hér liggja fyrir tillögur sem miða að því að taka á málum og rétta af það sem verulega hefur farið úrskeiðis. Hefði það verið gert, ef þarna væri slegið saman, þá værum við ekki í jafnslæmri stöðu í dag.

Svo geta hv. þm. komið hér, skammast og sagt: Ja, hvað á að gera? Það er allt komið í óefni. Við verðum að setja lög, það er allt komið í óefni. Jú, vissulega. Svo lengi má draga að gera hreint fyrir sínum dyrum að í óefni stefni. Þá grípa menn til næsta kostsins, valdbeitingar.

Herra forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar, sem flutt var snemma á sl. hausti. Flutningsmenn eru: Guðjón A. Kristjánsson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sverrir Hermannsson, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Í tillögunni er ítarlega rakið, bæði hvernig skuli vinna að málinu við endurskoðun og skapa nýjan grundvöll fiskveiðistjórnar. Þar er líka gerð ítarleg grein fyrir tillögum sem til úrbóta gætu orðið. Þessi þáltill. hefur legið hér inni á Alþingi án þess að fá afgreiðslu í nefnd. Ég er viss um það, herra forseti, að ef það sem þarna er lagt til hefði verið nýtt og því komið í verk þá stæðum við ekki frammi fyrir því að setja lög á verkfall sjómanna og verkbann í sjávarútvegi. Þá stæðum við frammi fyrir því að unnið væri að því að tryggja grunninn og atvinnuöryggi fiskvinnslufólks víða um land. En því var ekki að heilsa. Nei, það einhvern veginn hentaði ríkisstjórninni og þeim hagsmunahópum sem að henni standa betur að láta fljóta að feigðarósi.

Hér liggur líka fyrir tillaga frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og Karli V. Matthíassyni, sem fleiri hv. þm. lýstu yfir stuðningi við, um að meðan lögin um stjórn fiskveiða hafi ekki verið endurskoðuð þá verði núverandi skipan á veiðum krókabáta samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, framlengd um eitt ár. Því verði tilhögun veiða þessara báta á fiskveiðiárunum 2001--2002 hin sama og á fiskveiðiárinu 2000--2001.

Það er nefnilega ótækt að lofa nauðsynlegri endurskoðun á stjórn fiskveiða og standa síðan ekki við neitt. Hver og einn þáttur í þessari heildarumgjörð kemst í uppnám ef ráðist er á hvern fyrir sig. Það verður að taka á þessu með heildstæðum hætti, eins og ríkisstjórnin lofaði í upphafi síns ferils, sem mætti nú reyndar fara að taka enda, því fyrr því betra.

Það hafa einnig, herra forseti, verið fluttar tillögur um hvernig mætti tryggja að fiskvinnslan ætti öruggari aðgang að þeim fiski sem kemur á land og fyrir það yrði tekið að fiskur væri fluttur í gámum úr landi án þess að komast á markað hélendis, án þess að fiskvinnsla á Íslandi hafi möguleika til að bjóða í þann fisk. Skyldi ekki vera nær, fyrir hv. þm. sem eðlilega hafa áhyggjur af atvinnuöryggi og rekstri fiskvinnslunar, að taka á þessu máli, þó ekki væri nema banna að fiskur sé fluttur út í gámum óunninn án þess að íslenskri fiskvinnlu hafi gefist tök á að bjóða í hann? Það væri skref í rétta átt en því hefur ekki verið að heilsa. Þvert á móti var gert auðveldara að flytja óunninn fisk úr landi og forða því að fiskvinnslan hugsanlega keypti hann.

Eitt af baráttumálum sjómanna, herra forseti, eru lífeyrismál. Ákveðinn hluti sjómannastéttarinnar býr við léleg lífeyrisréttindi. Sjómenn starfa í hættulegu starfsumhverfi. Það hefur sýnt sig að slys, tafir vegna slysa og jafnvel örkumla, eru tíðari í þessari stétt en nánast nokkurri annarri starfsstétt, hér á landi.

[21:00]

Það er líka alveg ljóst að ekki er svo auðvelt hjá fiskimönnum að stunda þessa atvinnu allt til sjötugs eins og getur gengið í mörgum öðrum stéttum. Það gefur augaleið að fólk verður að hverfa fyrr úr þessari atvinnugrein en mörgum öðrum. Því er dapurlegt til þess að vita að lífeyrissjóðsmál þessa fólks skuli vera í svo miklu uppnámi og svo miklu óöryggi sem raun ber vitni. Það ætti varla að þurfa að ræða það sem hluta af kjarasamningi að kippa þessu máli í lag. Það ætti að vera sjálfsagt af hálfu Alþingis að hafa eigið frumkvæði að því að leggja Lífeyrissjóði sjómanna til það fjármagn sem þyrfti til að standa undir þeim eðlilegu skuldbindingum og til að geta skapað sjóðfélögum eðlilegt öryggi eins og aðrar stéttir búa við. Þetta ætti ekki að þurfa að vera að ræða. En því miður verður að setja þetta fram sem kjarakröfu.

Á Alþingi liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, flm. Guðjón A. Kristjánsson, sem leggur til að að frumkvæði Alþingis verði tekið á lífeyrissjóðsmálum sjómanna og Lífeyrissjóði sjómanna gert fært að standa undir þeim framtíðarskuldbindingum sem eðlilegt og nauðsynlegt er. En, herra forseti, meiri hluti Alþingis sér enga ástæðu til að taka þetta mál neitt sérstaklega fyrir eða gefa því flýtimeðferð þó það hefði kannski aðeins verið gott mál inn í umræðuna og létt umræðuna um kjaramálin, um stöðu og starfskjör þessarar stéttar. Nei, nei. Þó hvert tækifærið af öðru sé lagt upp í hendur þingsins er meiri hluti Alþingis samtaka um að koma í veg fyrir að það nái fram að ganga og vilja heldur lenda í þeirri stöðu að allir fórni höndum og komið sé allt í vanda og allt komið í þrot og segi: Hvað eigum við að gera? Við höfum engin önnur úrræði en að setja lög. Ekki bara fyrstu lögin heldur önnur lögin sem eru sett á þessa kjaradeilu og liggur við að líti svo út að ríkisstjórnin geti bara afgreitt þessi lög með reglulegu millibili á færibandi, annaðhvort að eigin ósk eða annarra sem bera hugsanlega þær óskir upp við hana.

Herra forseti. Það er dapurlegt að við skulum láta svo gerast í þessum meginatvinnuvegi þjóðarinnar að láta allt ganga í undandrætti með réttarbætur gagnvart þessari starfsstétt á Alþingi að allt gangi í undandrætti hér um endurskoðun á stjórn fiskveiða sem nánast allir eða mikill meiri hluti Íslendinga --- ég er fullviss um það --- telur brýna nauðsyn á að séu gerðar endurbætur á og breytt þó við getum deilt um hversu mikið eða í hvaða átt. Þessari aðgerð var lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Henni var lofað í aðdraganda kosninganna, henni var lofað sem einni fyrstu aðgerð sem þessir flokkar mundu grípa til og gangast fyrir ef þeir kæmust til valda og því miður, herra forseti, komust þeir til valda.

Í ríkisstjórnarsáttmála sínum settu þeir þetta samt sem meginmarkmið sitt að fylgja eftir. En því miður, herra forseti, virðist ekkert vera að gerast á þessum vettvangi. Það þjónar einhvern veginn betur einhverjum hagsmunum --- ég vona þó ekki, a.m.k. þjónar það ekki hagsmunum þjóðarinnar --- að láta þetta dragast og dragast og gera ekkert og standa síðan frammi fyrir því að allt er komið í hnút og þá koma menn hér og segja: Ja, nú er illt í efni, þjóðarskútan er að fara á hausinn, hún er að sigla á blindsker og allt í volli og nú höfum við það eina úrræði að setja lög. Herra forseti. Þetta er dapurlegt.