Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 21:05:51 (7757)

2001-05-14 21:05:51# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GE
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[21:05]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég hef mál mitt á því að taka undir þá gagnrýni sem borin var fram í morgun í fyrstu ræðum, rétt eftir tíu, á framgang þessa máls, hvernig það bar að. Þetta er í fyrsta skipti síðan ég kom til þings 1991 sem svo alvarlegt deilumál hefur borið þannig að.

Herra forseti. Sjómenn hafa á síðustu fjórtán árum í reynd verið með lausa samninga í sex og hálft ár. Þeir hafa núna verið samningslausir í rúmt ár. Á undanförnum árum höfum við séð allar kjaradeilur þeirra enda á sama veg, þann veg að hæstv. ríkisstjórn hefur komið og sett lög á deiluna. Hæstv. ríkisstjórn virðist hafa gengið erinda útvegsmanna aftur og aftur. Það má spyrja: Hvernig ætlast menn til þess að hægt sé að setja niður deilur með frjálsum samningum ef það liggur fyrir, herra forseti, að annar deiluaðilinn geti treyst á að deilunni verði lokið með lögum eða lagasetningu?

Virðulegi forseti. Það frv. til laga sem hefur verið í umræðu á Alþingi í dag, frv. til laga um kjaramál fiskimanna o.fl., er með þeim hætti að það á að setja gerðardóm til þess verks að 14 dögum liðnum að leysa deilu milli sjómanna og útvegsmanna sem hafa ekki þegar gert samkomulag á grundvelli kjarasamnings vélstjóra. Herra forseti. Sá kjarasamningur felur í sér, samkvæmt þeim gögnum sem við höfum fengið í dag, launalækkun fyrir ákveðinn hóp sjómanna sem nemur 4--14,39% eftir því sem við höfum í upplýsingum frá forsvarsmönnum sjómanna. Bara á þeirri forsendu, ef þetta ákvæði verður ekki lagfært, mun ég án nokkurs vafa greiða atkvæði gegn þessu frv.

Sá sem hér stendur var til sjós samtals í fjögur og hálft ár. Það er langt síðan það var. Ég viðurkenni að ég þekki ekki þær aðstæður sem sjómenn vinna við í dag af eigin raun. En ég er sannfærður um að orsök alls þess sem hér er rætt um í dag á rót sína að rekja til rangrar framkvæmdar fiskveiðistjórnarkerfis sem við höfum búið við og deilt hefur verið um frá lögfestingardegi þess og raunar löngu áður en það var lögfest.

Herra forseti. Þau vinnubrögð að kasta fiski, þau vinnubrögð að þvinga sjómenn til þátttöku í kvótakaupum, þau vinnubrögð að kasta sjómönnum í land af skipum um leið og veiddur er helmingurinn af afla viðkomandi skips, er m.a. orsökin fyrir því hvernig staðan er í dag. Herra forseti. Braskið og brottkastið er bölið sem allt of margir hafa verið þjakaðir af á meðan þetta kerfi hefur gilt. Ég tel að verðmyndunarmálin verði í krísu á meðan óbreytt lög um fiskveiðistjórn eru í gildi og framkvæmd þeirra. Þar fyrir utan tel ég að unnt væri að semja um önnur þau atriði sem deilt er um ef það væri með öðrum hætti sem ég var að rekja.

Mér er ljóst að fjölmörg fyrirtæki eiga orðið í vanda. Það kreppir óhugnanlega að hjá því fólki sem á atvinnu sína og afkomu undir því að afli berist á land af þeim skipum sem deilan tekur til.

Hér voru fluttar margar góðar ræður í dag en því miður voru tvær ræður þannig að mínu mati að þar hefði mátt sleppa a.m.k. þeim hnjóðsyrðum og þeim leiðindaorðum sem þar voru notuð. Þar var m.a. talað um að Reykjavík og Reykvíkingar vissu ekki af þessum málum.

Ég skal taka undir að það er kannski rétt að það verður minna vart við þessi mál í Reykjavík en á landsbyggðinni. En ég minni á að hópur fólks í Reykjavík situr heima vegna verkfallsins auk sjómannanna sjálfra og því skyldu menn ekki segja að hér verði enginn var við neitt. Þeir sem halda þessu fram ættu að hitta fiskverkafólk í Reykjavík og hér í nágrenni og kynna sér viðhorf þess.

Það má líka, herra forseti, spyrja í þessari umræðu um hvað líði tillögum endurskoðunarnefndar á fiskveiðistjórnarlögunum. Hvaða tillögur hafa stjórnarliðar lagt fram til að koma á víðtækri sátt um stjórn fiskveiða, eins og lofað var fyrir síðustu kosningar? Ætlar hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir breytingum á lögunum? Ég segi það að ef lífsmark væri með þessari nefnd, ef vilji væri hjá stjórnarliðinu til einhverra breytinga sem lúta að grundvallaratriðum í þeirri kjaradeilu sem við ræðum um gæti það haft víðtæk áhrif á kjör sjómanna með jákvæðum formerkjum og einnig á stöðu sjávarbyggðanna á fámennari stöðum landsins.

Virðulegi forseti. 3. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir er ófær. Hún er gjörsamlega ófær og hún er sett inn í frumvarpið af svo mikilli vanþekkingu og flumbrugangi að það er gjörsamlega ólíðanlegt. Viðmiðun við ótækan samning sem ég var að lýsa rétt áðan, samning Vélstjórafélagsins, sem gerir ráð fyrir lækkun launakjara sem nemur 14,39%, er einn sá grundvöllur sem á að vera til lagasetningarinnar eða gerðardóms. Þetta verður að hverfa út. Þessu hljóta stjórnarliðar, þó að blindir séu og trúir sínum flokkum, að átta sig á og að verður að hverfa út. Það verður líka að hverfa út, herra forseti, ákvæðið um 54 mánaða samning. Það ákvæði verður líka að hverfa út úr þessum drögum. Það hefði kannski mátt orða þetta á þann máta að miða við aðra kjarasamninga og miða við tímalengd annarra kjarasamninga.

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu velt fyrir mér hugmynd um kjaradóm, um kjaranefnd og það hefur hvarflað að mér á síðustu dögum að það yrði að leggja fram einhvers konar slíkar tillögur. En að mínu mati hefði það orðið að gerast á þann hátt að það væri samþykkt fullkomlega af hálfu beggja deiluaðila.

Herra forseti. Ég hef mjög margt um þessi mál að segja. Ég gæti verið allan þann tíma sem mér er heimilaður í ræðustól. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar þetta mál vegna þess að talsmenn Samfylkingarinnar hafa komið að grundvallaratriðum þessa máls slag í slag og þess vegna liggur skýr vilji fyrir af okkar hálfu um það hvernig við munum taka á málinu, herra forseti.