Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 21:33:02 (7759)

2001-05-14 21:33:02# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[21:33]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Umræðan sem fram hefur farið í dag um frv. ríkisstjórnarinnar um kjaramál fiskimanna og fleira, eins og það heitir fínu nafni, hefur verið fróðleg fyrir margra hluta sakir. Fróðlegt hefur verið að fylgjast með því hverjir hafa þagað og hverjir hafa talað. Af hálfu Sjálfstfl. auk hæstv. sjútvrh. hafa þrír hv. þingmenn talað. Talsmenn Sjálfstfl. í þessari umræðu voru auk hæstv. sjútvrh., hv. þingmenn Árni Johnsen, Kristján Pálsson og Pétur H. Blöndal. Það var mjög fróðlegt að hlýða á málflutning þeirra.

Tveir hinir fyrrnefndu, hv. þingmenn Árni Johnsen og Kristján Pálsson, kváðust miklir vinir sjómanna. Þeir lýstu því fjálglega fyrir þingheimi hve vænt þeim þætti um sjómenn. Nú þyrfti hins vegar að hafa vit fyrir þessum sömu sjómönnum sem þeim þykir svo vænt um, svipta þá verkfallsrétti, taka af þeim samningsrétt í hálfan áratug og þröngva yfir þá lögum sem að öllum líkindum mundu skerða kjör tiltekinna hópa um mörg hundruð þúsund krónur á ári hverju. Þessir góðu vinir sjómanna sögðu að þetta væri nauðsynlegt og sjómenn mundu skilja þetta afar vel. Þetta leyfa hv. þingmenn sér að segja þrátt fyrir mótmæli sjómanna hvaðanæva að af landinu.

Þriðji talsmaður Sjálfstfl., Pétur H. Blöndal, sagðist ekki vera sérstakur vinur sjómanna, alla vega hafði hann ekki sérstaklega orð á því. Hann rakti hins vegar fyrir okkur sögu verkfalla á Íslandi, hvernig þau hefðu þróast, hvernig sú saga hefði þróast á undangengnum árum og áratugum. Hv. þm. minntist þess að þegar hann var í barnæsku þá hefði verið hellt niður úr mjólkurflösku uppi á Ártúnshöfða og síðan hefði ranglætið verið að vinda upp á sig þar til við værum nú stödd með þetta hryllilega verkfall sjómanna. Verkföll eru vond, sagði hv. þm., og okkur ber að íhuga hvort ekki sé kominn tími til að leggja bann við verkföllum. Hann var inntur nánar eftir þessu í þingsalnum og spurður hvort hann væri að halda því fram fyrir hönd síns flokks að banna ætti verkföll. Hv. þm. afneitaði flokknum í skyndi en byrjaði hins vegar að telja upp þær stéttir sem nauðsynlegt væri að svipta samningsréttinum og verkfallsréttinum. Það voru auk sjómanna, kennarar og fleiri hópar, hálaunaaðallinn á Íslandi. Það ber að svipta hann samningsréttinum.

Þetta voru talsmenn Sjálfstfl. við þessa umræðu. En auk þeirra talaði fyrir þessu mannréttindabrotafrumvarpi hæstv. sjútvrh. Árni M. Mathiesen. Ég beindi nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra og ekki aðeins hans heldur einnig til hæstv. félmrh. Ég spurði hvort það hefði verið kannað í félmrn. hvort þetta frv. stæðist þær skuldbindingar sem Íslendingar hefðu undirgengist á alþjóðavettvangi og vísaði þar sérstaklega til vinnumálastofnunarinnar ILO.

Hæstv. félmrh. upplýsti við umræðuna að fyrst í dag hefði farið fram slík athugun, niðurstaðan lægi ekki fyrir, en ráðherrann sagðist telja að svo væri ekki og vona að svo væri ekki. Ég spyr: Hvers konar vinnubrögð eru þetta, að leggja fyrir þingið frv. sem bannar verkföll og ekki nóg með það, sviptir heila stétt, íslensku sjómannastéttina, samningsrétti í hálfan áratug, að koma hingað með frv. sem stríðir gegn alþjóðlegum skuldbindingum sem Íslendingar hafa undirgengist? Því er a.m.k. haldið fram og færð hafa verið mjög skilmerkileg rök fyrir því hér í þingsalnum. Síðan er það upplýst að málið hafi ekki einu sinni verið kannað af hálfu þeirra sem eiga að standa vörð um þessi réttindi, þ.e. félmrn. Það er fyrst í dag sem þessi mál eru tekin til skoðunar þar. Þetta voru fróðlegar upplýsingar sem fram komu í máli hæstv. félmrh.

En ég spurði hæstv. sjútvrh. fleiri spurninga. Ég vona að hann sé ekki horfinn af vettvangi. Ég vona að hæstv. sjútvrh. sé ekki horfinn af vettvangi vegna þess að ég er að minna hann á að ég spurði fleiri spurninga. Ég spurði hvernig ríkisstjórnin og hæstv. sjútvrh. ætluðu að axla ábyrgð gagnvart því fólki, sjómönnum sem hafa verið í verkfalli í sex vikur án launa, sem nú hefur fengið ríkisstjórnarrýtinginn í bakið. Þegar verkfall sjómanna var að byrja að bíta og einhver líkindi voru til þess að samningar mundu nást, að útgerðarmenn mundu láta undan réttlátum kröfum sjómanna, þá lætur ríkisstjórnin höggið ríða. Ég spyr: Hvernig ætla ríkisstjórnin og hæstv. sjútvrh. að axla ábyrgð gagnvart þessu fólki?

Ég rifjaði það upp hér fyrr við umræðuna í dag á hve ótrúlega óbilgjarnan hátt útvegsmenn hafa komið fram í þessari kjaradeilu. Í upphafi árs vildu sjómenn ná skammtímasamningum um tekjutryggingu, sem nú liggur í 86 þús. kr. fyrir háseta, um slysatryggingar og um lífeyrisgreiðslur sambærilegar við það sem aðrar stéttir fá og hafa samið um. Öllu þessu var hafnað af útvegsmönnum. En núna þegar ríkisstjórnin sér færi á að þröngva upp á sjómannastéttina samningum sem byggja á samningum Vélstjórafélagsins og eru í óþökk sambands sjómanna og farmanna og fiskimanna þá er höggið látið ríða. Nú á að freista þess að binda menn í þessa samninga í hálfan áratug.

Þingmenn hafa fjallað um það í ræðum að svívirðilegasti hluti þessara laga sé 3. gr. sem tengir samninga sjómanna og farmanna og fiskimanna, þ.e. Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, við vélstjórasamninginn og ég tek undir það. Ég legg jafnframt áherslu á að lagafrv. í heild sinni, sem sviptir sjómenn samningsrétti, er algerlega óásættanlegt. Ríkisstjórninni ber að sjá sóma sinn í að draga þetta frv. til baka þegar í stað og biðja íslenska sjómenn afsökunar á framferði sínu.