Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 21:43:34 (7760)

2001-05-14 21:43:34# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[21:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í morgun var ég þar kominn að ég var að fara yfir þau atriði sem vitnað er til í frv. og byggð eru á samningi Vélstjórafélags Íslands. Ætli ekki sé rétt að ég haldi því áfram nokkra stund til nánari upplýsingar um það hvernig málið er vaxið?

Það er svo sem ekki undarlegt þó Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands geti með engu móti sætt sig við að vera tengd við samning Vélstjórafélags Íslands því hann er í sumum atriðum, ég ætla bara að leyfa mér að segja það, hrein afglöp.

[21:45]

Ég vann sjálfur við slíka samningagerð frá árinu 1975 og fram á árið 1999 og tel mig þekkja þessa samninga nokkuð vel. Ég held að ég hafi aldrei séð grein í kjarasamningi sem menn hafa skrifað undir og fengið síðan samþykkta hjá félagsmönnum sínum, að vísu fáum, broti félagsmanna, um beina launalækkun áhafna á fiskiskipum, beina launalækkun. En þannig er ákvæðið í samningi vélstjóra sem er merkt 2.1., um áhrif fækkunar í áhöfn o.s.frv. Það er bara rétt að rekja hvernig það kemur út í raunverulegum dæmum svo menn séu ekki að tala neina tæpitungu um hvað er að tefla.

Á skipi eru t.d. tíu menn í áhöfn og sennilega hefur svo verið í tvo áratugi ef ekki lengur þó að í kjarasamningnum hafi staðið að mannafjöldi samkvæmt samningi skyldi vera 15. Raunmönnunin hefur verið tíu manns árum og áratugum saman. En þessi samningur kemur þannig út að sjómenn á viðkomandi skipi, þar sem tíu menn hafa starfað árum saman, lækka um 14% í launum, 14,39%. Ef tekið er dæmi af einni veiðiferð þar sem brúttóaflaverðmæti eru 3,5 milljónir þá er niðurstaðan sú að úr þeirri veiðiferð, ,,fyrir Laxdælu`` --- þessi sérstaki samningur sem er með þessum ósköpum hefur verið kallaður ,,Laxdæla``, --- hafði skipstjóri 155 þús. kr. í hlut úr veiðiferð þar sem brúttóaflaverðmæti var 3,5 milljónir með tíu mönnum. Eftir ,,Laxdælu`` hefur viðkomandi skipstjóri 133 þús. kr. í hlut. Hann lækkar um 22.400 kr. tæpar, eða 14,39%. Svona gengur þetta niður allan tignarstigann og þegar komið er að hásetanum, sem hefur helmingi minna en skipstjórinn, einn hásetahlut, þá lækkar hann úr 77.700 kr. í 66.500 kr., um 11.200 kr., einnig um 14,39% út á þessa grein nr. 2.1. í samningnum.

Er að undra þó menn taki ekki við svona tilfærslu og fagni henni? Engan þarfa að undra það. Mér er nær að halda að menn hafi bara ekkert vitað hvað þeir voru að skrifa undir þegar þetta var sett inn í samninginn og undirskrifað. Það er ekki eins og hér sé verið að tala um einhver nýmæli. Þetta eru kjör sem stéttin hefur búið við áratugum saman. Það á sem sagt að fara að miða við fjölda sjómanna í áhöfn sem er búinn að standa í kjarasamningnum áratugum saman og lækka hlut áhafnarinnar út á það en ekki út á þá raunmönnun sem skipið hefur verið gert út með undanfarin ár eða áratugi.

Það er auðvitað svolítið misjafnt eftir veiðigreinum hvernig þetta kemur út í samningnum. Dæmið sem ég tók var af litlum ísfiskstogara sem landar ferskfiski. Ef við skoðum hins vegar minni frystitogara þá er skerðingin í launum upp á 5,5%. Þar eiga að vera 20 menn samkvæmt launatöflu en hafa verið 17 árum saman. Þar gerast hlutirnir þannig að ef aflaverðmæti er 15 millj. kr. þá lækkar skipstjórahluturinn úr 456 þús. kr. í 431 þús. kr. eða um 25 þús. kr. og hásetinn lækkar um 12.600 kr. Ef við færum þetta yfir á tíu veiðiferðir og segjum að skipið fiski fyrir 150 milljónir á ári þá lækkar hásetinn um 126 þús. kr. á ársgrundvelli. Er nema von að menn séu ekki par hrifnir þegar fara á að nauðga þeim yfir á svona viðmið eins og eru í kjarasamningi vélstjóra? Mér er nær að halda að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að skrifa upp á, svei mér þá.

Frv. ríkisstjórnarinnar, eins og það er sett fram, byggist á að telja upp þessi atriði í kjarasamningnum. Í fyrsta lagi er í a-lið 2. mgr. 2. gr. frv. vitnað til 1. gr. í samningi vélstjóranna, um atriði er tengjast verðmyndun, og ég var búinn að ræða um í dag, sem nú er kallað viðmiðunarverð hlutaskipta sem er alveg ný fiskverðsviðmiðun. Í b-lið 2. mgr. 2. gr. frv. segir að taka skuli mið af atriðum er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör. Það var það sem ég var að fara yfir áðan. Það er nú ekki mikil reisn yfir því að taka málið upp með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn gerir.

Síðan er vikið að fleiri atriðum og þau talin upp. Talað er um kauptryggingu og launaliði, um slysatrygginguna sem er að hluta til tekin af óskiptu og um afmörkun á helgarfríum. Síðan kemur að lífeyrissjóðnum, að lífeyrisréttindum, því að sjómenn voga sér að setja fram kröfur um að þeir skyldu fá í viðbótarlífeyri sams konar útfærslu og aðrir landsmenn í kjarasamningum sínum. Nei, það gekk auðvitað ekki eftir og í kjarasamningi vélstjóra er viðmiðið tekið af kauptryggingu en ekki heildarlaunum sjómanna.

Sjómenn hafa afar slæma reynslu af þessu viðmiði varðandi kauptrygginguna. Þetta var nefnilega gert þegar lífeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1970. Þá var viðmiðið kauptrygging. Það varð til þess að fyrstu tíu árin sem sjómenn greiddu í lífeyrissjóð þá öðluðust þeir nánast engin réttindi í lífeyrissjóðnum því þeir voru ævinlega að greiða af svo lágu kaupi. Það var ekki fyrr en í verkfalli 1985, sem beinlínis var háð til þess að ná lífeyrissjóðsgreiðslum af öllum launum, að samið var um að sjómenn skyldu fá greiðslur í lífeyrissjóð af öllum launum sínum. Það var gert í áföngum á tveimur árum, þ.e. af 50% launanna 1985, af 75% launanna 1986 og af 100% launanna 1987. Það hefði verið nær að setja einhver slík viðmiðunarákvæði inn í þennan samning en byrja ekki á nýjan leik að fara í viðmið við kauptrygginguna og eiga svo eftir að slást um það í framtíðinni að breyta því. Það er ekki að undra þó að þau sjómannasamtök sem ekki eru búin að skrifa undir samning séu óhress með að vera tengd við þessa gjörð.

Síðan er auðvitað kapítuli út af fyrir sig að ævinlega skuli sett lög á kjaradeilur sjómanna. Mér finnst óásættanlegt að ævinlega þegar sjómenn reyna að ná fram kjarasamningi og grípa til þess ráðs að boða til verkfalls til að knýja á um gerð kjarasamnings, þá skuli því frá fyrsta degi velt upp að nú þurfi að fara að setja lög á þetta því þarna séu mikil verðmæti í húfi, þetta hafi áhrif á þjóðfélagið, þetta dragi úr umsetningu í þjóðfélaginu og hafi áhrif á atvinnu. Ég vil bara ítreka að mér finnst enn ein lagasetningin á aðgerðir sjómanna til að ná fram réttlátum samningum algjörlega óásættanleg.

Sjómenn hafa stundum verið sakaðir um að hafa farið ógætilega með verkfallsvopnið. Kannski mætti ætla að þeir hefðu gert það miðað við að lagasetning er alltaf notuð til að drepa niður aðgerðir þeirra. En það er bara ekki svo. Þannig eru málin ekki vaxin, herra forseti.

Fyrir fáum mánuðum buðu sjómenn fram sérstaka sátt í þessari kjaradeilu sem nú á að setja lög á. Hvernig var þessi sátt sem var boðin fram í janúar? Hún var þannig að samið skyldi um þrjú atriði, um launaliði, viðbótarframlög í lífeyrissparnaði og um breytingu á slysatryggingu félagsmanna sjómannasamtakanna. Undir þetta skrifuðu öll sjómannasamtökin. Þegar þetta er lagt fram í janúar eru sjómenn búnir að vera samningslausir í eitt ár. Með þessu fylgdi að önnur erfið deilumál, t.d. fiskverðsmyndun og mannafækkunar\-ákvæði, skyldu sett til hliðar meðan gengið væri frá þessum skammtímasamningi út þetta ár þannig að það sem eftir lifði ársins, í ellefu mánuði, hefðu menn haft tíma til að semja um þau atriði sem út af stæðu í kjaradeilunni. Samningurinn gilti sem sagt út þetta ár.

Þetta buðu sjómannasamtökin þrátt fyrir að kjarasamningar hefðu verið lausir í ár. Til að reyna að komast hjá verkfallsátökum buðu menn fram þessa sátt. Hver hafnaði henni? LÍÚ. Það var auðvitað LÍÚ sem hafnaði slíkri sátt. Mér finnst þurfa að draga það fram í þessari umræðu að sjómannasamtökin hafa virkilega lagt sig fram um að reyna að koma í veg fyrir að þurfa að fara eina ferðina enn út í verkfallsaðgerðir, þrátt fyrir að þeir væru búnir að vera með lausa samninga svo lengi að það væri farið að telja að ári. Vilji þeirra til að leysa þessa deilu án verkfalla hefur því legið fyrir alla tíð.

Ég held að greinin sem ég vitnaði til í kjarasamningi vélstjóra um þá launalækkun sem ég fór hér yfir, sé í raun lýsandi dæmi um hvers vegna aldrei náðist að gera kjarasamning við þessi samtök. Landssamband ísl. útvegsmanna ætlaði sér að ná fram launalækkun á sjómannastéttina. Það er ekki hægt að draga neina aðra ályktun af þessu máli. Það var meining þeirra að ná fram launalækkun. Þeir bjuggu hana í þann búning að þeir væru með sanngirnismál í höndunum, þ.e. að með nýrri tækni um borð í skipum þá yrði mönnun að taka breytingum með þeim hætti að þeir fengju eitthvað fyrir fjárfestingu sína í nýrri tækni. Sá liður er hér í grein 2.2.2. í kjarasamningi vélstjóra, um hina nýju tækni, hæstv. forseti.

Þar bjóða menn upp á að verði fækkun frá þeirri raunmönnun sem er í dag þá verði hlutnum skipt til helminga á milli útgerðar og sjómanna, þ.e. frá þeirri raunmönnun sem er í dag. Ég hygg að sjómannasamtökin gætu kannski nálgast þá útfærslu ef hinn kaflinn væri ekki þar á undan varðandi þetta atriði. Ef miðað væri við raunmönnun eins og hún hefur reynst vera á undanförnum árum þá mætti skoða útfærsluna þegar kæmi til ný tækni og ný hagræðing. En það fyllir mælinn að byrja á að setja inn í samninginn að menn skuli fyrst taka við launalækkun og síðan sérstöku ákvæði til viðbótar þegar bætt verði um betur með nýrri tækni.

[22:00]

Ég held að rétt sé að vekja athygli á því að hæstv. ríkisstjórn Sjálfstfl. hefur áður fengið viðvaranir um það, m.a. frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, að henni væri ekki alveg frjálst að setja hvað sem er í lög varðandi kjaramál fólks. Það er kveðið á um ákveðin lágmarksréttindi í mannréttindasáttmála Evrópu. Í 11. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu segir, með leyfi forseta:

,,1. Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.

2. Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla.``

Stjórnarliðar hafa haldið því fram að þessi lög eigi að setja vegna almannaheilla. Ég held að kjaradeilan eins og hún hefur þróast og inngrip stjórnvalda í hana, fyrst með lögum sem tóku gildi á miðnætti 19. mars og giltu til 1. apríl og síðan öðrum aðgerðum sem hæstv. sjútvrh. beitti sér fyrir, m.a. að aflýsa svokölluðu hrygningarstoppi þorsksins, svokölluðu fæðingarorlofi eins og við höfum nú kallað það venjulega, allar þessar aðgerðir hafi dregið kraftinn úr löglega boðuðum aðgerðum sjómannasamtakanna. Ég tel að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á að deilan hefur dregist á langinn, vegna inngripa hennar í þessa deilu í upphafi þegar virkilega var pressa og þrýstingur á deiluaðila. Sú ákvörðun hæstv. sjútvrh. að þau skip sem voru við róðra og stunduðu fiskveiðar þyrftu ekki að hlíta hinu árlega stoppi til verndar hrygningu þorsksins hleypti einnig illu blóði í samningamenn í þessari deilu.

Mín niðurstaða af öllum þessum hugleiðingum er sú að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á því hvernig þessi deila hefur þróast. Ég tel að það frv. sem hér er lagt fram af sjútvrh. og ríkisstjórninni, um kjaramál fiskimanna og fleira, sé óásættanlegur gjörningur. Ég er andvígur því að þannig sé staðið að málum. Ég tel að sjómenn hafi í gegnum tíðina sýnt mikla ábyrgð í kjaramálum sínum. Það sést best á því að þeir hafa verið samningslausir árum saman án þess að beita verkfallsvopninu.