Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:11:12 (7778)

2001-05-15 10:11:12# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta umrædda frv. var skoðað vandlega í gærdag í félmrn., bæði af starfsmönnum ráðuneytisins og eins af starfsmanni okkar sem staðsettur er úti í Brussel. Niðurstaðan varð sú að það orðalag sem er í brtt. meiri hluta nefndarinnar standist. Sá fulltrúi ráðuneytisins sem kom á fund hv. sjútvn. er prýðilegur lögfræðingur og kunnur vinnurétti.

Frv. var samið á laugardaginn var. Þá var starfsfólk félmrn. í fríi. Sama gilti á sunnudag. Ég ónáða ekki starfsmennina í helgarleyfum sínum nema tilneyddur, enda vissi ég að (Gripið fram í.) nægur tími gæfist til að skoða þetta mál þegar fólkið kæmi til vinnu á mánudag, eins og raunin varð. Ég tel að frv., í þeim búningi sem útlit er fyrir að það fái, standist og kvíði því ekki að þurfa að svara fyrir það í Genf.