Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:15:28 (7781)

2001-05-15 10:15:28# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:15]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Mér finnst að hér hafi verið ómaklega vegið að starfsmanni félmrn. sem kallaður var til hv. sjútvn. í gær. Óskað hafði verið eftir því af sjútvn. að starfsmaður félmrn. kæmi til að svara þeirri spurningu hvort frv. bryti í bága við alþjóðasamninga. Starfsmaðurinn kom og svaraði því afskaplega skýrt og byggði það á athugunum sínum í ráðuneytinu og samstarfi við fulltrúa Íslendinga í Brussel, sem eru gjörkunnugir þessum málum. Svarið var afskaplega skýrt. Frv. brýtur ekki í bága við alþjóðasamninga. Mér finnst ómaklega vegið að starfsmanni ráðuneytisins sem svaraði þessum þætti, þeim sem um var spurt, afskaplega skýrt. Þetta brýtur ekki í bága við alþjóðasamninga.

Ég tel að formaður nefndarinnar hafi haldið eðlilega á málinu. Kallaðir voru til þeir hagsmunaaðilar sem málið snýr að og svör við hinum félagslega þætti sem hér hefur verið til umræðu eru afskaplega skýr þannig að málið er að því leyti í eðlilegum farvegi. Meiri hluti nefndarinnar tekur mið af þeim faglegu ábendingum sem fram hafa komið og kynnir álit sitt á þeim grundvelli. Málið er þannig í eðlilegum farvegi og formaður nefndarinnar hefur stýrt því farsællega.