Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:17:08 (7782)

2001-05-15 10:17:08# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þegar nefndin kom til starfa í gærkvöldi var henni ætlaður tími til tólf frá því klukkan hálfellefu. Á þeim tíma átti að fara yfir þessi mál. Nefndinni var neitað um að fá á sinn fund hagsmunaaðila til að ræða um ágreiningsatriði í frv. Þegar hér er verið að tala um að ágætlega hafi verið staðið að málum og nægur tími, eins og hæstv. félmrh. sagði, til að vinna að þessu máli, þá er það svo fáránlegt sem mest getur verið. Það gafst enginn tími til að fara yfir atriði eins og, svo ég nefni það sem dæmi, að taka eigi af Kvótaþingið. Ekki var hægt að fá menn í nefndinni til viðræðna um það. Það kom fram að einungis einn aðili hafði farið fram á að það yrði sett inn í löggjöfina. LÍÚ hafði fengið það fram, að beðið yrði um það frá hendi Vélstjórafélagsins og LÍÚ. Aðrir aðilar komust ekki að eða að ekki var hægt að fá þá til að tala við nefndina um þetta atriði. Þetta eru auðvitað gjörsamlega forkastanleg vinnubrögð sem hér fara fram. Mér finnst það dálítið bratt hjá hv. þm. stjórnarinnar að hreykja sér af því að vel sé staðið að málum þegar það eina sem hefur gerst hér er að þeir hafa tekið út atriði sem augljóslega gátu ekki staðist og hefðu verið rekin ofan í kokið á stjórnvöldum á Íslandi. (Gripið fram í: Þeir gera ekki meiri kröfur en þetta.) Það eru einu kröfurnar sem eru gerðar til málsins af hendi stjórnarliða.

Ég tel að menn hefðu átt að hugsa sig betur um. Þeir höfðu til þess nægan tíma. Það hefur staðið býsna lengi þetta verkfall og menn hefðu getað verið búnir að hugsa þessi mál betur úr því að þeir hugsuðu sér að láta fara fram umræðu um að taka þennan rétt af sjómönnum eins og hér stendur til. Mér finnst að hv. þm. þurfi, í umræðunni hér á eftir, að fara vel yfir það með okkur úr stjórnarandstöðunni hvort vel er að málum staðið.