Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:19:30 (7783)

2001-05-15 10:19:30# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:19]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg furðulegt að talað sé um að frv. hafi ekki fengið nægilega eðlilega skoðun þegar það liggur fyrir að sá efnisþáttur frv. sem gagnrýndur var hvað harkalegast fékk sérstaka umfjöllun í starfi hv. sjútvn. sem leiddi til þess að gerð var efnisleg breyting á frv. Er það ekki til marks um að menn hafi farið af fullri alvöru í það mál, að fara ofan í þann efnisþátt sem mestum deilum hafði valdið í frv. sjálfu? Það er auðvitað augljóst mál að unnið var efnislega að þessu máli.

Það er alveg rétt að hér í gærkveldi kom prýðilegur fulltrúi frá félmrn. og ræddi málin. En við skulum heldur ekki gleyma því að það voru aðrir fulltrúar sem við hljótum líka að hlusta eftir, þ.e. fulltrúar vinnumarkaðarins, sjómenn og útvegsmenn, sem einnig höfðu skoðun á þessu máli. Þetta mál var auðvitað skoðað frá mörgum hliðum. Bæði frá hinu faglega, lögfræðilega sjónarhorni sem lögfræðingur félmrn. setti fram en einnig frá sjónarhorni þeirra sem við eiga að búa.

Mér finnst menn gera heldur lítið úr því að við ræddum þessi mál langtímum saman við þessa aðila í gærkvöldi. Menn gera heldur lítið úr því þegar talað er um að síðan hafi málið ekki verið almennilega rætt í nefndinni. Þetta er fráleitt.

Menn tala um að við hefðum þurft miklu lengri tíma. Ég spyr: Hversu langan tíma telja menn að nota eigi í þetta mál hér í þinginu? Hversu lengi átti þetta verkfall að standa sem allir eru sammála um að er farið að hafa mjög alvarleg áhrif í þjóðfélaginu?

Því er einnig haldið fram að ekki hafi verið hugað að öðrum þáttum eins og t.d. Kvótaþinginu. Ég bendi á, virðulegi forseti, að það mál var tekið til sérstakrar umfjöllunar af hálfu sjútvn. á sínum tíma þegar skýrsla um það mál var lögð fyrir Alþingi. Geta þingmenn ekki treyst sjálfum sér til að taka ákvörðun á grundvelli eigin þekkingar? Þarf sífellt að leiða menn í gegnum alla hluti af hálfu sérfræðinga alveg fram á síðustu stundu? Geta þingmenn ekki byggt á þeirri reynslu sem þeir sjálfir hafa aflað sér?