Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:30:36 (7786)

2001-05-15 10:30:36# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður sjútvn. gerðist svo borubrattur í umræðum um störf þingsins áðan að hrósa sér sérstaklega af því og hæla sér af þeim vinnubrögðum að flókið og erfitt frv. af þessu tagi hefði verið skoðað í fáeinar klukkustundir á næturfundi. Er þá væntanlega verið að færa rök fyrir því að það sé almennt fullnægjandi umfjöllun um stór frv. að þingnefndir hafi þau undir í tvo, þrjá klukkutíma eina nótt. Það var sérkennilegt að heyra þann málflutning áðan, herra forseti.

Það kom fram í ræðu hv. formaður sjútvn. að sjómenn hefðu verið án samninga síðan snemma árs 2000. Síðan bætti formaður sjútvn. við: ,,og það er því ljóst að mikill tími hefur verið til þess að ná samningum í þessari deilu``. En þá kemur spurningin: Dregur hv. formaður sjútvn. engar ályktanir af því að sjómenn höfðu árangurslaust í heilt ár reynt að koma hreyfingu á hlutina áður en þeir gripu til aðgerða? Þarf ekki að hafa þetta í huga þegar réttmæti þess að banna verkfall sjómanna er metið? Þeir höfðu áður verið samningslausir í heilt ár og höfðu engum árangri náð gagnvart viðsemjendum sínum við að koma hreyfingu á hlutina. Fróðlegt væri að heyra hvernig hv. formaður sjútvn. metur þetta. Er ekki óhjákvæmilegt að skilja þetta sem viljaleysi af hálfu viðsemjenda sjómanna og verða ekki aðgerðir þeirra að skoðast í því ljósi? Er ekki inngrip ríkisstjórnarinnar þeim mun alvarlegra sem þetta liggur fyrir, að menn höfðu að þessu leyti verið réttlausir í meira en ár áður en þeir, seinþreyttir til vandræða, fóru út í aðgerðir og þá eru þær truflaðar, ekki einu sinni heldur í tvígang, með lagasetningu af hálfu ríkisstjórnarinnar?