Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:32:49 (7787)

2001-05-15 10:32:49# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég vakti athygli á því hversu lengi það ástand hefur varað að sjómenn hafa verið samningslausir. Það er alveg rétt eins og ég rakti áðan að samningaumleitanir hafa staðið yfir mjög lengi. Hv. þm. spyr mig hvort það sé ekki til marks um viljaleysi útvegsmanna. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan ætla ég ekki að setja mig í það dómarasæti að kenna öðrum hvorum aðilanum um. Staðreyndin er sú að menn náðu ekki saman og þær aðstæður voru uppi, sem komu mjög glögglega fram í öllum fjölmiðlaviðtölum fyrir helgina, að menn voru ekkert að nálgast í þessum efnum. Þess vegna er sú staða auðvitað uppi sem raun ber vitni.

Ég get ekki fallist á að inngrip ríkisvaldsins að þessu leyti hafi verið til þess fallið að trufla þetta mál vegna þess einfaldlega að verkfallið hefur staðið miklu lengur en við höfum dæmi um varðandi verkfall sjómanna, a.m.k. á liðnum áratugum svo langt sem ég man aftur. Ekki er rétt að halda því fram að afskiptasemi ríkisvaldsins að þessu leyti hafi hafi komið í veg fyrir að menn næðu saman. Það kom fram og hefur komið fram ótal sinnum af hálfu samningsaðila að út af fyrir sig hafi menn verið farnir að þekkja mjög vel sjónarmið hvors annars. Menn þekktu mjög vel hvað bar þarna í milli. Það skorti hins vegar á að menn næðu saman um samningsniðurstöðu. Ég ætla mér ekki að áfellast menn í þeim efnum. Það er ljóst að hér var um að ræða mjög erfið úrlausnarefni, sérstaklega fiskverðsmálið og mönnunarmálin, og menn náðu einfaldlega ekki saman um þau.