Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:36:40 (7789)

2001-05-15 10:36:40# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég hef reynt að meta samningslíkur, bæði í mars og núna, þá geri ég það að sjálfsögðu á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hef aflað mér í sjútvn. Alþingis við heimsóknir þeirra samningsaðila sem hafa komið á fund nefndarinnar. Það var mat manna í mars, auðvitað ekki einróma mat en mat margra samningsaðila sem komu á fund okkar, að efnislegar forsendur væru til þess að ætla það að hægt væri að ljúka samningum á þessum tíma eða þar um bil. Þess vegna var það svo að ég hélt því fram á þeim tíma og held því fram enn að á grundvelli þessara upplýsinga hafi verið ástæða fyrir okkur á Alþingi og aðra til að ætla það að samningar kynnu að nást á þessu tímabili. Því miður gerðist það ekki. Síðan geta menn velt vöngum yfir ástæðunni fyrir því. Hv. þm. getur t.d. reynt að halda því fram sem hann hefur reynt að gera að það hafi á einhvern hátt verið afskipti ríkisvaldsins sem hafi komið í veg fyrir það. Ég er ósammála því.

Það er hins vegar mat manna, og þarf ekki annað en að fletta í blöðunum fyrir helgina til þess að sjá að það var mat samningsaðila sjálfra á föstudag og laugardag að þeir væru ekkert að nálgast, þetta mál væri komið í harðan hnút og kenndu menn þar um ýmsum ástæðum, m.a. samningnum milli Vélstjórafélagsins og LÍÚ. Við skulum ekki setja okkur í dómarasæti í þessu erfiða máli gagnvart samningsaðilunum, aðalatriðið er að þetta var hið kalda mat manna á þessum tíma. Það var á grundvelli þessa mats, eins og hefur margoft komið fram í umræðunni og kom líka fram þegar mælt var fyrir þessu máli sem ríkisstjórnin ákvað að leggja fram það frv. sem við ræðum hér nú.