Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:22:52 (7799)

2001-05-15 11:22:52# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:22]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vil taka fram í þessu sambandi. Í fyrsta lagi til að fyrirbyggja allan misskilning sem kann að hafa komið fram þá er það að sjálfsögðu þannig að gerðardómurinn getur tekið tillit til samninga Landssambands ísl. útvegsmanna og Vélstjórafélagsins eins og annarra samninga. Það er ljóst. Ef við lesum nefndarálit meiri hluta sjútvn. þá er samningur Vélstjórafélagsins og LÍÚ hluti af þeim samningum sem vísað er til. En vitaskuld er gerðardómurinn ekki bundinn af tilteknum samningum.

Í öðru lagi vildi ég líka taka það fram vegna þeirra tíðinda sem hafa spurst inn í þingið að að sjálfsögðu mun sjútvn. koma saman milli 2. og 3. umr. til að fjalla um þá stöðu sem upp er komin. Reyndar hafði ég gert ráð fyrir því, og kom það fram í starfi nefndarinnar í nótt, að gert væri ráð fyrir því að kalla nefndina saman til þess að fara yfir málin, a.m.k. ef efni stæðu til þess eftir þessa umræðu og það er augljóst að svo verður.