Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:26:01 (7802)

2001-05-15 11:26:01# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. formanni sjútvn. er allt þetta umhverfi í uppnámi getum við í raun orðað það. Ljóst er að þessi aðför ríkisstjórnarinnar að sjómannasamtökunum sem felst í því að ætla að setja lög á deiluna og gerðardóm yfir sjómenn hefur valdið því að menn eru að taka ákvarðanir sem geta haft mikil áhrif. Mér finnst spurning, herra forseti, hvort ekki sé ástæða til að fresta þessum fundi á meðan menn fara yfir málin. Þó svo hv. formaður sjútvn. vilji ekki líta til þess að nefndin skoði þetta umhverfi þá held ég að full ástæða væri til að menn litu til þess hvort þessari umræðu yrði haldið áfram og þá í hvaða formi vegna þess að ljóst er að það frv. sem hér liggur fyrir er allt annað frv. en það sem hér ætti að vera ef menn horfa af raunsæi til þess umhverfis sem orðið er hvað varðar sjómenn og þær aðstæður sem þeim hafa verið búnar.

Herra forseti. Ég óska eftir því að gert verði hlé á þessum fundi á meðan menn fara yfir stöðu mála og meta hvernig væri rétt að halda þessari umræðu áfram.