Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:29:04 (7804)

2001-05-15 11:29:04# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:29]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég mælist til þess sama, að umræðunni verði nú frestað, a.m.k. verði gert hlé á fundinum eða umræðunni frestað þannig að menn fái tækifæri til að meta stöðuna í nýju ljósi.

Nú liggur hér fyrir samkvæmt yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. og var reyndar staðfest í gær að þeir aðilar sem ekki verða í verkfalli þegar lögin eða frv. verður afgreitt verða að sjálfsögðu ekki settir undir lögin þannig að af sjálfu leiðir að gera þarf breytingar á því frv. sem nú liggur fyrir. Það er langeðlilegast, herra forseti, með tilliti til vandaðra vinnubragða að þær brtt. komi núna fram á meðan 2. umr. stendur þannig að hægt verði að greiða atkvæði um þær og ganga þannig frá frv. við lok 2. umr. að það sé í sem endanlegustum búningi. Það getur varla nokkur maður mælt með því að það sé til fyrirmyndar í vinnubrögðum að geyma að gera grundvallarbreytingar á málinu þangað til við 3. umr. þegar samkvæmt venju er eingöngu greitt atkvæði um frv. í heild. Efnisbreytingar af þessu tagi og frumvörpin grein fyrir grein eru til umfjöllunar við 2. umr. Þegar liggur orðið fyrir að gera þarf umtalsverðar breytingar á 1. gr. frv. og e.t.v. fleiri greinum þá er langeðlilegast að sjútvn. komi saman á nýjan leik, skili framhaldsnefndaráliti eða framhaldsnefndarálitum og ný brtt. komi fram þar sem tekið verður mið af þeim aðstæðum sem þá verða uppi í málinu.

Þetta segir sig eiginlega alveg sjálft, herra forseti, þannig að ég trúi ekki öðru en virðulegur forseti, sjútvrh. og formaður sjútvn. átti sig á því að þetta eru hin einu eðlilegu vinnubrögð og þar af leiðandi eðlilegast að umræðunni verði nú frestað, enda held ég, herra forseti, að nóg annað liggi fyrir þessum fundi sem hægt er að nota tímann til að ræða á meðan.