Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 12:14:22 (7817)

2001-05-15 12:14:22# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Nokkur tíðindi hafa orðið í þessu máli eins og greint var frá áður en fundi var frestað. Svo bar við, alla vega skildi ég málið þannig, að eftir að ég hafði farið fram á það við forseta að málið yrði tekið út af dagskrá þá varð forseti við því og tók til við önnur mál. Tillaga mín var um að fundurinn frestaði þessu mál til kl. hálftvö, að loknu matarhléi, svo okkur gæfist ráðrúm til að meta þau tíðindi sem fram komu í yfirlýsingu Sjómannasambandsins sem aflýsir verkfalli sínu.

Nú er hins vegar, samkvæmt ákvörðun forseta þingsins, tekið til við að ræða þetta mál aftur í þeirri stöðu sem það er, eins óljóst og það er í frv. og í brtt. í ljósi yfirlýsingar sem Sjómannasambandið gaf nýverið um að aflýsa verkfallinu.

[12:15]

Ég verð að viðurkenna að mér finnst svolítið snúið að ræða málið í þessu samhengi, um frv. sem tekur á því að banna verkfall aðila sem tekið hafa ákvörðun um að aflýsa verkfallsaðgerðum, beinlínis í þeim tilgangi að komast hjá því að þurfa að una því sem í lagafrv. ríkisstjórnarinnar birtist og fara frekar yfir á sinn gamla kjarasamning. Í þessari stöðu, herra forseti, held ég að ekki verði hjá því komist að rekja þetta mál allskilmerkilega. Ég hef hugsað mér að gera það eins og málum er komið.

Ég vék að því við umræðuna í gær hversu mikið langlundargeð samtök sjómanna hefðu sýnt í kjaramálum sínum með því að vera í raun kjarasamningslausir í mánuði og jafnvel ár án þess að grípa til aðgerða. Ég hygg að aðrar stéttir hafi ekki sýnt slíkt langlundargeð í sama mæli og sjómenn. Þeir hafa að vísu oft þurft að grípa til verkfallsvopnsins en þeir hafa ævinlega gripið til þess þegar samningar þeirra hafa verið fallnir úr gildi og verið lausir mánuðum og jafnvel árum saman.

Sú umræða sem stundum hefur verið í þjóðfélaginu um að sjómenn væru alltaf í verkföllum hefur mér fundist afar ósanngjörn. Engin stétt hér á landi, ég get fullyrt það, hefur jafnlengi verið samningslaus, án kjarasamnings og eingöngu unnið eftir eldri kjarasamningum á síðustu árum. Það er hefð fyrir því að þegar kjarasamningur fellur úr gildi, þegar gildistími hans er liðinn, þá er unnið eftir gamla samningnum. Í því tilviki hafa menn setið eftir með það að fá ekki fram kaupbreytingu. Þessu hafa sjómannasamtökin oft og tíðum unað mánuðum saman áður en þau hafa gripið til þess að mynda þrýsting á að gerður væri kjarasamningur um starfskjör með því að afla sér verkfallsheimilda og beita þeim. Sú staða sem við erum í, að ræða frv. ríkisstjórnarinnar um lög á kjaradeilu sjómanna, að hluta til á samtök sem þegar hafa aflýst verkfalli, er afar einkennileg, herra forseti.

Mér finnst að eins og málum er komið sé rétt að rekja aðdraganda deilunnar sem undanfarið hefur staðið. Sjómannasamtökin hafa í raun búið við meginágreiningsatriði þessarar deilu í áratug eða meira. Í skýrslum Farmanna- og fiskimannasambandsins allt frá árinu 1988 má finna tilvitnanir í umræður um hvernig fiskverð mundi þróast í frjálsum samningum eftir að verðlagsráðið gamla hætti að virka. Það verður ábyggilega fróðlegt fyrir þingheim þegar ég fer að rekja niðurstöður skýrslu Farmanna- og fiskimannasambandsins síðar í dag og bera saman við það hvernig málin hafa þróast. Ég hugsa að menn hafi gott af að fá að heyra það. Það er rétt að fara djúpt í málið við þessa umræðu og varpa ljósi á söguna í kjaramálum sjómanna og kjarabaráttu þeirra í gegnum árin.

Ég held þó að réttast sé að byrja örlítið nær okkur í tíma og varpa ljósi á það sem ég vil kalla viljaleysi útgerðarmanna til að koma málum í einhvern þann farveg að ná megi samningum.

Þegar sjómannasamtökin höfðu verið með lausa samninga í ár, í janúar sl., buðu þau upp á sérstakan kjarasamning þar sem sett yrðu til hliðar erfiðustu atriðin, þau atriði sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður sjútvn., nefndi hér í framsöguræðu, að fiskverðsmál og mönnunarmál væru erfið mál sem hann þekkti sem gamalreyndur samningamaður. Hann sagði að það væri mjög erfitt að takast á um þessi mál. Sjómenn gerðu sér auðvitað mætavel ljóst eftir 10 ára baráttu að þetta væru erfiðustu málin. Það var auðvitað ekki kappsmál sjómannasamtakanna að stefna inn í eitthvert stórkostlegt verkfall ef hægt væri að komast hjá því með öðrum leiðum.

Þetta held ég að sé rétt að ítreka, herra forseti: Það var ekki stefna sjómannasamtakanna að fara í stórkostleg verkfalls\-átök ef hægt hefði verið að komast hjá því. Sjómannasamtökin settust niður sameiginlega, Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannasamband Íslands og Vélstjórafélag Íslands og hugðust finna leið til að koma á einhverju samkomulagi um erfiðustu atriðin, einnig samkvæmt skilgreiningu stjórnarþingmanna, þ.e. mönnunarmálin og verðlagsmálin. Lagt var til að þau yrðu lögð til hliðar. Sjómannasamtökin gerðu þetta. Þau lögðu fram tilboð í janúar sl., undirritað 19. janúar 2001 sem beinlínis var ætlað að koma í veg fyrir verkfalls\-átök. Ríkisstjórnin hefur nú sett met með því að grípa tvisvar inn í sömu kjaradeiluna með lagasetningu.

Sjómannasamtökin fóru fram á að samið yrði um þrjú grunnatriði í bráðabirgðasamningnum sem þau buðu upp á til að komast hjá verkfallsátökum. Hvaða atriði voru það? Jú, það voru almennar kaupbreytingar á einstökum kaupliðum: á kauptryggingu, hlífðarfatapeningum, fæðispeningum og tímakaupi. Kröfurnar varðandi launaliðinn til að ná þessum skammtímasamningi, sem þeir voru að bjóða upp á svo ræða mætti stóru málin í friði án verkfalls, voru um lagfæringar á ákveðnum liðum sem ég taldi upp. Mér sýnist að hugmyndir sjómannasamtakanna í janúar hafi ekki verið allfjarri því sem útgerðarmenn settu síðan í ,,Laxdælu`` varðandi breytingar á kauptryggingu.

Það er hins vegar rétt að geta þess, herra forseti, að kauptrygging sjómanna kemur sem betur fer ekki oft til greiðslu. Kauptrygging sjómanna ber sem betur fer ekki oft uppi árslaun sjómanna þó að það komi fyrir. Ég held að ég muni það rétt að almennt, sé litið er yfir sjómannastéttina í heild sinni, séu yfir 90% af greiðslum til sjómanna byggðar á hlutaskiptum en innan við 10% af kauptryggingu eða öðrum kaupliðum. Það er því alveg ljóst hvar greiðslurnar sem útgerðin reiðir af hendi og tekjur sjómanna liggja, þær liggja að stærstum hluta í hlutaskiptum, í gegnum fiskverð, verðlagsmálin svokölluðu.

Verðlagsmálin, sem varða 90% af launum sjómanna, buðust sjómenn til, í þessu tilboði í janúar, að leggja til hliðar og setja í sérstakan farveg starfshóps sem ynni á gildistíma þessa kjarasamnings með það að markmiði að í október yrðu lagðar fram tillögur frá þeim starfshópi um verðlagsmálin annars vegar og um mönnunarmálin hins vegar. Aðalágreiningsefnin hefðu þannig verið sett í fagvinnu til að reyna að finna á þeim flöt, m.a. til þess að koma þeim málum í eðlilegan og betri farveg og einnig til að menn gerðu ekki slík mistök sem gerð voru í hinni svokölluðu ,,Laxdælu``, þar sem menn sitja uppi með undirskrifaðan samning sem hefur í för með sér lækkun á kaupi sjómanna, lækkun á aflahlut þeirra. Eftir þeim upplýsingum sem við fengum í nefndarstarfi í nótt þá var mönnum ekki ljóst í hvaða lækkun stefndi með undirskrift þessa samnings. Ég held ég fari rétt með að viðurkennt hafi verið fyrir okkur að þarna hafi orðið ákveðin mistök sem menn vildu gjarnan reyna að leiðrétta. Það liggur svo sem ekkert fyrir um að það takist. Sennilega tekst mönnum það alls ekki miðað við skilning manna á þessum mistökum. Sá skilningur virðist allt annar hjá forustumanni Vélstjórafélagsins en forustumönnum hinna sjómannasamtakanna. Hin sjómannasamtökin lýstu því yfir að þessi gjörð hefði áhrif til launalækkunar í öllum kjarasamningum nema á frystiskipum. Ég held að ég hafi alveg örugglega tekið rétt eftir því að svo væri nema á stærstu frystiskipunum. Alls staðar annars staðar virkar mannafækkunin til verulegrar lækkunar, mismunandi mikillar, en sennilega mest upp á 15%.

[12:30]

Ætli þeim sjómönnum sem eru nú á þeim skipum sem eiga að taka við 15% kjaraskerðingu finnist ekki nóg um? Segjum að þetta séu sjómenn með meðallaun. Hásetinn hafi 2,5--3 millj. á ári og ef hann hefur 3 millj. á ári þá er verið að lækka laun hans um 450 þús. Það er ekki snyrtilegra en það.

Mér er sem ég sæi aðrar starfsstéttir, herra forseti, taka slíkum rassskellingum þegjandi og hljóðalaust. Ég verð að segja að ég furða mig nokkuð á því að stjórnarmeirihlutinn skuli ætla í tillögum sínum, eins og þær birtust hér, að byggja á slíku. Ég held að þetta sé einsdæmi. Ég held að það sé einsdæmi að menn ætli að hengja sig við samning þar sem maður sem hefur 3 millj. í árslaun á að lækka í launum um 450 þús. Ég held að ég hafi aldrei heyrt það áður að það þætti góður kjarasamningur, hvað þá að reyna að hengja það sem viðmið fyrir aðrar stéttir eins og verið er að gera á hv. Alþingi.

Annað atriðið sem sjómenn buðu fram í sáttatilboði sínu í janúar, þegar búið var að telja upp þessa kaupliði sem vega þó sáralítið í kostnaði útgerðar vegna þess að kaupliðirnir vega eins og ég sagði áður innan við 10% í greiddu kaupi en aflahluturinn sennilega yfir 90%, var sá hluti sem vegur innan við 10% í kaupgreiðslu þeirra á ársgrundvelli sem þeir lenda í þessu tilboði en leggja til hliðar í sérstaka gerð eða sérstakan starfshóp þann hlutann sem vegur 90% í tekjum þeirra. Það hefði auðvitað þýtt að lagfæring á því hefði dregist alla vega fram yfir október því að starfshópurinn átti ekki að skila af sér fyrr og þá, herra forseti, hefðu sjómenn verið samningslausir að því er varðar hlutaskipti sem byggð eru á fiskverðinu í rúmlega hálft annað ár, 18--19 mánuði. Það var öll frekjan sem sjómenn fóru fram á, að bjóða það fram að í hlutaskiptum þeirra mundi ekki koma fram hækkun vegna fiskverðsútfærslu og mönnunarmála fyrr en eftir október á þessu ári. Og þó svo starfshópurinn hefði skilað af sér í október þá er ekki þar með sagt að menn væru búnir að lenda því sameiginlega inn í kjarasamning fyrr en kannski undir áramót. Líklegasta niðurstaðan úr þessu sáttatilboði sjómanna er því að þeir hefðu verið að bjóða fram engar hækkanir á aflahlut sínum, sem er 90% af kaupi þeirra, í tæp tvö ár, herra forseti.

Vita menn einhver dæmi þess að aðrar stéttir hafi boðið slíkt fram? Minnist forseti þess að hafa heyrt að einhverjar aðrar stéttir hafi boðið fram slíkan vilja til samnings, að bjóða fram óbreytt kjör í 90% vægi í kaupliðum sínum til þess að nást mætti sátt án verkfalls eftir að vera búnir að vera samningslausir í heilt ár? Ég held ekki, herra forseti. Þetta er stéttin sem rassskellt er aftur og aftur með lagasetningum í hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég ætla mér að fara mjög gaumgæfilega yfir það hvernig farið hefur verið með sjómannasamtökin í samningumn þeirra og lagasetningum á undanförnum árum og þó að ég sé að fara yfir það sem gerst hefur á þessu ári og því síðasta, þá er örugglega af mörgu að taka í þeirri sögu.

Næsta atriðið sem var í þessu tilboði sjómanna, þessu sáttatilboði þeirra til að koma í veg fyrir allan skaða í þjóðfélaginu sem af hugsanlegum verkföllum gæti hlotist á þessu ári, var um lífeyrismál, um lífeyrissparnað. Ég held að rétt sé að hafa svolítinn aðdraganda að umræðunni um lífeyrismál sjómanna. Lífeyrismál sjómanna eins og margra annarra launþega komu í raun og veru í framkvæmd upp úr 1970 þegar sett voru lög um að landsmenn skyldu fara að greiða í lífeyrissjóði. Að því er sjómenn varðar var fyrirkomulagið þannig sem búið var til að útgerðin féllst á að greiða í lífeyrissjóð fyrir sjómenn af hluta kauptryggingarinnar, herra forseti. Og ég vil vekja athygli á því að kauptrygging sjómanna hefur yfirleitt verið mjög lág í gegnum árin. Sem dæmi um það má vitna til þess að kauptrygging sjómanna, háseta um þessar mundir, er sennilega um 86 þús. kr. Þannig er nú málið vaxið, herra forseti. --- Nú berst einhver kliður af götunni inn í salinn, herra forseti. (KVM: Þetta er ekki frá mér.) Það er ekki frá hv. þm. Karli V. Matthíassyni, enda þingmaðurinn yfirleitt með mjög rólegt og yfirvegað yfirbragð.

(Forseti (GuðjG): Forseti getur nú þaggað niður klið í salnum en ekki á götum úti þannig að ég bið hv. þm. að hækka þá örlítið róminn og yfirgnæfa þennan klið sem ég held reyndar að sé horfinn.)

(JB: Það eru sjómenn að mótmæla.)

Herra forseti. Ég mun reyna að halda áfram ræðu minni. Mér kemur það svo sem ekki á óvart þó að sjómannastéttin komi að þessu húsi og mótmæli. Ef einhver hefur haft tilefni til þess að koma að þessu húsi og sýna mótmæli þá er það sjómannastéttin. Ég verð að segja það eftir að hafa starfað sem forustumaður fyrir sjómannasamtök í mörg ár að ég hef oft furðað mig á langlundargeði sjómanna. Þess vegna hef ég verið að rekja það í ræðu minni hve langt sjómenn hafa í raun og veru teygt sig í því að reyna að halda frið um kjaramál. En hins vegar er það héðan frá Alþingi sem lagaboð hefur komið sem yfirleitt hefur orðið til þess að ósætti hefur orðið við sjómannastéttina, í langflestum tilvikum. Og þar eru svo sem ein lög sem líka er hægt að gera að umræðuefni síðar í dag, lögin um stjórn fiskveiða, sem hafa ekki haft hvað minnst áhrif á að ósætti er við sjómannasamtökin um grunn undir kjarasamning þeirra.

Ég var þar kominn í máli mínu, herra forseti, að byrja að fjalla um lífeyrismál og nefndi að lífeyrismálin hefðu að því er sjómenn varðaði hafist á því að farið var að greiða í lífeyrissjóð af hálfri kauptryggingunni upp úr 1970. Þannig var það í nokkur ár, herra forseti, að sjómenn, fiskimenn, eignuðust mun minni lífeyrisréttindi en aðrar stéttir í þjóðfélaginu og sem viðmið getum við vitnað til þess að kauptrygging háseta er í dag 86 þús. kr. Ef þessi regla væri í gildi í dag væru sjómenn að greiða í lífeyrissjóð af 43 þús. kr. og eignast þá réttindi í samræmi við það. Þeir væru sem sagt mjög neðarlega í því að ávinna sér réttindi og væru í raun og veru í sömu stöðu og öryrkjar að þessu leyti ef þetta viðmið hefði gilt enn þá og væri í gildi í dag. En það gilti í nokkur ár og varð til þess að á þeim árum sem það var í gildi eignuðust sjómenn sáralítil lífeyrisréttindi.

Síðan var þetta örlítið lagfært. Ég man ekki nákvæmlega hvenær það var, herra forseti, en ég hygg að það hafi verið á árunum 1974 eða 1975 sem farið var að greiða í lífeyrissjóð sjómanna af allri kauptryggingunni. Það var samþykkt fyrir aðeins 25 árum að greitt skyldi af allri kauptryggingu sjómanna sem eins og ég hef upplýst vegur innan við 10% í greiddu kaupi þeirra. Það var viðmiðið sem menn bjuggu við. Þannig þróuðust lífeyrismál sjómanna fram undir 1980.

Á árunum frá 1976 og fram yfir 1980 voru tímar hinna gjöfulu félagsmálapakka sem þá voru viðhafðir í þjóðfélaginu, að þegar stéttarfélög og stéttarsambönd gerðu kjarasamninga fylgdu með einhvers konar félagsmálapakkar, bygging húsnæðis fyrir láglaunafólk, greiðslur til byggingar orlofsheimila og ýmislegt fleira sem tengdist slíkum félagsmálapökkum. Sjómenn fengu jafnan lítið af þeim félagsmálapökkum. Því var það --- vegna þess hvernig starf sjómannsins var vaxið, þ.e. starf sem reynir mikið á menn, menn þurfa að leggja mikið fram af líkamshreysti sinni --- að sjómannasamtökin fóru að gera kröfu um það fyrir 1980 að sjómenn þyrftu að eiga rétt á því að geta hafið töku lífeyris fyrr en aðrar starfsstéttir vegna þess að starfsævi þeirra margra hverra byði ekki upp á það og ævistarfslengd þeirra væri ekki sambærileg og annarra stétta vegna álagsins. Fyrir þessu fékkst nokkur skilningur og var farið að ræða það hvernig mætti koma því fyrir að sjómenn gætu hafið töku lífeyris fyrr en aðrir launþegar. Það var svo á árinu 1981 sem sjómannasamtökin og þáverandi stjórnvöld gerðu með sér samkomulag um að gerð skyldi lagabreyting á Alþingi að ósk sjómannasamtakanna. Sú lagabreyting skyldi fela í sér að sjómenn ættu rétt á að hefja lífeyristöku frá 60 ára aldri að þeim skilyrðum uppfylltum að þeir hefðu starfað 25 ár til sjós, herra forseti, þannig að þetta var beinlínis tengt við starfsaldur þeirra og þar af leiðandi því álagi sem sjómannsstarfinu fylgir. Þannig var það nú, herra forseti.

[12:45]

Þetta endaði með því að ákvæðið var sett inn í löggjöf og sú löggjöf frá 1981, um réttindi sjómanna í lífeyrissjóði og réttindi til að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri, var samþykkt í hv. Alþingi með öllum greiddum atkvæðum. Allir alþingismenn voru sammála því að eðlilegt væri að sjómenn ættu þennan rétt og að ríkisvaldið mundi stuðla að því og að þessi innkoma í lög væri sambærileg við ýmsa aðra félagsmálapakka, væri útfærð að þessu leyti varðandi sjómenn en væri útfærð að öðru leyti gagnvart mörgum öðrum stéttum eins og hefði verið gert á undanförnum árum eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni.

Sjómenn litu svo á að þar sem lögin hefðu verið sett í hv. Alþingi með samkomulagi og samþykki allra hv. þm. þá mundu viðkomandi stjórnvöld finna á því lausn að fé rynni þá inn í Lífeyrissjóð sjómanna til að styrkja lífeyrissjóðinn til að standa við þessar skuldbindingar eða þá að sett yrði á fót sérstök greiðslumiðlun til að tryggja þann kostnað sem af þessu hlytist. Þetta fékkst því miður ekki í gegn. En á tímum hinna skipulögðu gengisfellinga sem áttu sér oft stað á þessum árum --- það er öðruvísi en nú er þegar gengisfellingar gerast bara af sjálfu sér, aðallega einhvers staðar frá, ná að vísu kannski svipaðri prósentutölu 10, 15, 20% í lækkuðu gengi en eru ekki skipulagðar og ákveðnar eins og þær voru á þessum árum --- en þegar þetta var, eftir 1980, þá urðu stundum til svokallaðir gengismunarsjóðir. Það kom fyrir, herra forseti, að úr þeim gengismunarsjóðum, sem teknir voru til hliðar, fengu sjómannasamtökin stundum inn í lífeyrissjóð sinn örlitlar greiðslur, svona eins og viðurkenningarvott á því að ávallt hefði verið vilji Alþingis að standa við þessar skuldbindingar varðandi 60 ára regluna og þetta væri viðurkenningarvottur í þá veru að þannig yrði málum fyrir komið og menn mundu smátt og smátt finna þessu betri farveg.

Sjómenn tóku þessu auðvitað fagnandi og töldu að þetta væri vísir að því að þrátt fyrir allt væri vilji stjórnvalda að tryggja að 60 ára reglan gæti haldið gildi sínu og menn gætu hafið töku lífeyris frá 60 ára aldri óskert enda væru þeir orðnir slitnir og búnir að starfa 25 ár til sjós eða lengur. Niðurstaðan af þessu ákvæði sem sett var inn í lögin var samt sú fyrir rest að þegar gengið var á fund hvers fjmrh. á fætur öðrum í hverri ríkisstjórninni á fætur annarri frá öllum stjórnmálaflokkum sem voru þá starfandi í landinu þá endaði það með því að svörin voru þau: Það hefur aldrei staðið til að ríkissjóður legði fram fé til að standa við þessar skuldbindingar Lífeyrissjóðs sjómanna. Það voru bara sett lög sem kváðu á um þetta en fjárveitinguna á bak við vantaði. Þetta varð til þess smátt og smátt að í Lífeyrissjóði sjómanna safnaðist upp skuld því að menn héldu áfram í góðri trú að greiða út lífeyri til þeirra sjómanna sem áttu rétt á því eftir 25 ára starf miðað við 60 ára aldur óskert.

Margur sjómaðurinn sem var búinn að starfa lengi til sjós naut þessarar reglu. Menn hafa því setið uppi með það, herra forseti, að Lífeyrissjóður sjómanna, sjómennirnir sjálfir sem eru í sjóðnum hafa orðið að bera þennan kostnað, þessar vanefndir ríkisvaldsins á hverjum tíma á því sem sjómenn telja að hafi fylgt þessari lagasetningu frá Alþingi 1981.

Sá fjmrh. sem situr nú í ríkisstjórn, hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde, er sá síðasti af fjármálaráðherrum undanfarinna ríkisstjórna sem hefur m.a. neitað þessari beiðni þrátt fyrir að sjómannasamtökin hefðu lagt upp með það hvernig hægt væri að fjármagna þá uppsöfnuðu skuld sem er í Lífeyrissjóði sjómanna og var á síðasta ári metin upp á 1,6 milljarða kr., sennilega nær 1,7 milljarða kr., hvernig mætti greiða hana inn í sjóðinn á nokkrum árum. Sjómenn höfðu á árum áður bent á ýmsar leiðir til að láta peninga renna úr því sem þeir töldu að þeir ættu sameiginlega með stjórnvöldum inn í þennan sjóð, lífeyrissjóðina, Lífeyrissjóð sjómanna og aðra lífeyrissjóði víða um land sem höfðu sjómenn innan vébanda sinna. Hvaða leiðir skyldu sjómenn hafa bent á?

Það síðasta sem þeir bentu á í því sambandi var þegar Fiskveiðasjóður Íslands var lagður niður og stofnaður var Fjárfestingarbanki atvinnulífsins. Sjómenn höfðu af óskiptum afla greitt inn í stofnfjársjóð fiskiskipa hjá Fiskveiðasjóði Íslands í fjölda ára, áratugi og smátt og smátt hafði Fiskveiðasjóður Íslands eflst. Hann átti mikið eigið fé. Mig minnir að það hafi verið yfir 6 milljarðar kr., herra forseti, þegar Fiskveiðasjóður var lagður niður. Sjómenn töldu að úr því að ríkið væri að stofna til þess að steypa þessum sjóðum saman í einn banka sem síðar yrði seldur, þá væri ekki úr vegi að eitthvað af þeim fjármunum sem sjómenn töldu sig eiga, m.a. í Fiskveiðasjóði --- það hafði verið stofnað til hans á móti útgerðarmönnum --- rynni inn í Lífeyrissjóð sjómanna til að mæta þeirri skuld sem þar hafði safnast upp. Það var ekki eins og þessi skuld væri eitthvað sem skipti ekki máli. Þessi skuld hjá Lífeyrissjóði sjómanna hefur á síðustu árum orðið til að skerða kjör annarra lífeyrisþega og á hv. Alþingi hafa verið sett lög um að skerða rétt annarra lífeyrisþega í lífeyrissjóðum, sérstaklega í Lífeyrissjóði sjómanna, vegna þess að tryggingafræðingar hafa sagt: Það er uppsafnaður vandi í sjóðnum og samkvæmt nýjum lögum um lífeyrissjóði sem sett voru á Alþingi á árinu 1997, þá bar lífeyrissjóðum að gera ráðstafanir til að lífeyrissjóðirnir ættu fyrir skuldbindingum sínum. Það urðu þeir að tryggja. Stjórnum lífeyrissjóðanna var beinlínis uppálagt að gera ráðstafanir í sjóðum sínum til að sýna fram á að í framtíðinni ættu lífeyrissjóðirnir fyrir skuldbindingum sínum. Lífeyrissjóðir sjómanna stóðu frammi fyrir þessu ákvæði eins og aðrir lífeyrirssjóðir, almennir lífeyrissjóðir, þannig að menn sátu bara uppi með að þurfa að takast á við þetta. Það varð til þess að 60 ára reglan var gerð þannig úr garði að nú kostar hún jafnmikið fyrir áttræðan mann ef annar byrjar að taka lífeyri 65 ára og hinn sextugur, að þegar báðir eru áttræðir hafa þeir tekið sömu peningaupphæð út úr lífeyrissjóðnum. Þetta var gert þannig að sá sem byrjaði sextugur var skertur 0,4% á mánuði, samanlagt um 24%. Sá sem byrjaði sextugur og ætlaði að nýta sér þessa reglu sem sett var í lög árið 1981, fékk 24% lægri greiðslu út úr lífeyrissjóði sínum en sá sem byrjaði 65 ára. Báðir áttu samt að vera komnir á svipaðan stað með úttekt á heildarupphæð út úr lífeyrissjóði þegar þeir næðu áttræðisaldri ef þannig verkaðist til þannig að sjómaðurinn sem hóf töku lífeyris 60 ára, tók lífeyri sinn skertan. Þrátt fyrir þessa aðgerð situr enn þá eftir óbætt 60 ára reglan upp á yfir 1,6 milljarða kr. Eins og ég gat um áður var síðasti fjmrh. sem neitaði því að leiðrétta þetta hæstv. núv. fjmrh. Geir H. Haarde. Þar á undan höfðu allir forverar hans neitað þessari bón í öllum ríkisstjórnum og tók ég þátt í því að ganga á fund þeirra allra frá 1983 til að reyna að fá þennan skaða bættan með einhverjum hætti þannig að ekki þyrfti að koma til skerðing á lífeyrisréttindum sjómanna. En með þetta hafa menn setið.

Það var svo ákvörðun sjómannasamtaka eða réttara sagt stjórnar lífeyrissjóðsins að fara í mál við ríkið út af þessum fjármunum. Ekki er mér kunnugt um það, herra forseti, hvar þau mál eru nákvæmlega stödd nú en hygg þó að það sé á næstu mánuðum sem málið verði dómtekið. Fróðlegt verður að sjá hvernig dómstólar dæma í þessu máli. Það breytir ekki því að lífeyrir sjómanna hefur verið skertur af þessum sökum og sá félagsmálapakki sem menn töldu að löggjafarvaldið væri að færa mönnum árið 1981 var bara svik og prettir. Það var ekkert á bak við hann. Engin fjármögnun fylgdi honum. Það voru lög um það að menn skyldu borga þetta sjálfir. Á sama tíma og aðrar stéttir fengu félagsmálapakka sem greiddir voru með ýmsum hætti, oftast nær fjármagnaðir af fjárlögum, þá varð niðurstaðan þessi: Sjómenn skyldu bera félagsmálapakka sína sem byrði. Það voru hin göfugu lok þessara efnda, herra forseti.

(Forseti (GuðjG): Nú hyggst forseti gera hálftíma matarhlé og biður hv. þm. að gera hlé á máli sínu þegar vel stendur á ef hann er ekki kominn að lokum ræðu sinnar.)

Það stendur ágætlega á, herra forseti.