Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 15:47:41 (7831)

2001-05-15 15:47:41# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi umræða er orðin þó nokkuð löng og á sjálfsagt eftir að lengjast eitthvað samt. Ýmislegt hefur gerst frá því í umræðunni um málið í gær og er vert að velta aðeins fyrir sér því sem hefur breyst.

Í fyrsta lagi hefur það breyst að stjórnarliðið, ríkisstjórnin, hefur hrakist til baka með naglalegustu ákvæðin sem voru þarna inni og orkuðu mest tvímælis. En sú grundvallargjörð sem er á bak við þetta mál er auðvitað öll hin sama eftir sem áður. Hér á með lagasetningu að grípa inn í samningaferli milli sjómanna og útvegsmanna.

Þá breytingu sem gerð var á frv. í meðförum nefndarinnar ber að mínu viti að skilja þannig að ekki séu fyrirmæli til gerðardómsins um að taka tillit til einhverra ákveðinna samninga. Það hlýtur að verða fullkomlega á ábyrgð gerðardómsins að fara nákvæmlega yfir það. Varðandi orðalagið, sem hv. formaður sjútvn. og hv. 3. þm. Norðurl. e. ræddu um, tek ég undir að heppilegra væri ef menn sameinuðust um að gera á því breytingu og taka út allar hugsanlegar viðmiðanir við aðra samninga. Það á auðvitað að vera fullkomlega á færi gerðardómsins að taka afstöðu til þess sem miða á við til að ná skynsamlegri niðurstöðu.

Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að tala um það sem var hér inni um þann langa gildistíma samningsins sem til stóð. Ég tel að það liggi í augum uppi að verði kveðið úr um kjaramál með gerðardómi þá komi það ekki til greina til svo langs tíma. Eðlilegast væri að það yrði gert til eins árs og ekki lengur. Aðilar fengju þar með tækifæri til að skipa sínum málum með eðlilegum hætti.

Þessu til stuðnings hafa bæst við þau rök að nú hefur Sjómannasamband Íslands aflýst verkfalli sínu. Það liggur þess vegna fyrir, vegna þeirra yfirlýsinga sem hér hafa komið fram frá hæstv. sjútvrh. og reyndar fleiri aðilum stjórnarliðsins, að Sjómannasambandið verður ekki undir þeim lögum sem hér á setja. Það þýðir auðvitað að sjómenn og útvegsmenn, Sjómannasamband Íslands og útvegsmenn, þurfa að fara í nýjar samningaviðræður. Enginn veit hver niðurstaðan verður af þeim samningum. Þeir sem þurfa að hlíta þeim niðurstöðum sem gerðardómur kemur til með að kveða upp mega ekki vera bundnir árum saman án þess að fá tækifæri til að endurskoða sín mál eftir að Sjómannasambandið hefur náð samningum við útvegsmenn. Ég held að allt mæli gegn því að gerðardómur geti nokkurn tímann komist að niðurstöðu um samning fyrir sjómenn til svo langs tíma.

Yfirlýsing Sjómannasambands Íslands, sem ég nefndi hér áðan, barst um hádegisbilið meðan umræður um málið stóðu yfir. Eftir að hún lá fyrir var ljóst að breyta þyrfti frv. sem hér er til meðferðar. Það hlýtur að verða gert í umfjöllun nefndarinnar á eftir, að 2. umr. lokinni.

Það kom líka fram að hluti félagsmanna í Sjómannasambandi Íslands, þ.e. félagar í Sjómannafélagi Eyjafjarðar, fylgja ekki þessari yfirlýsingu. Ef að líkum lætur mun hæstv. ríkisstjórn og þeir stjórnarliðar sem vinna fyrir hana hér á hv. Alþingi komast að þeirri niðurstöðu að fella eigi út úr 1. gr. frv. nafnið ,,Sjómannasamband Íslands`` og setja þar í staðinn ,,Sjómannafélag Eyjafjarðar``. Nú er ég ekki spámaður um þetta. Það kann að vera að þeir hjá Sjómannafélagi Eyjafjarðar og útvegsmenn í Eyjafirði treysti sér til að semja án þess að vera settir undir gerðardóm. Það hljóta að berast um það fréttir inn á fund háttvirtrar nefndar hér á eftir.

Þegar þessi yfirlýsingin frá Sjómannasambandi Íslands lá fyrir vaknaði samstundis spurningin um hvort Farmanna- og fiskimannasambandið mundi fara sömu leið. Það liggur nú fyrir að Farmanna- og fiskimannasambandið ætlar ekki að aflýsa verkfalli sínu. Þar með heldur verkfall áfram á fiskiskipaflotanum á meðan þessi mál eru til umfjöllunar á hv. Alþingi. Hefði Farmanna- og fiskimannasambandið tekið sömu ákvörðun og Sjómannasambandið, þá hefði hið eina sem hefði stöðvað flotann verið verkbann LÍÚ.

En svona hagar málum ekki til því Farmanna- og fiskimannasambandið ákvað að gera ekki eins og Sjómannasambandið. Þá sitjum við uppi með það að þetta frv. hér, ásamt samningi Vélstjórafélagsins og því að Sjómannasamband Íslands hefur aflýst verkfalli sínu, verður til þess að í gildi verða þrenns konar samningar við sjómenn. Þar verður þessi nýi samningur Vélstjórafélagsins, einnig niðurstaða gerðardóms um kjör félaga í Farmanna- og fiskimannasambandinu og til viðbótar eru aðilar í Sjómannasambandi Íslands áfram á sínum gömlu kjörum þangað til samningar nást. Þetta er orðið æðiundarlegt fyrirkomulag á kjörum sjómanna og sýnir í hnotskurn í hversu miklar ógöngur öll þessi mál eru komin.

Mér hefur borist í hendur yfirlýsing frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hana upp. Hún hefur fyrisögnina ,,Mótmæli``:

,,Fundur haldinn í samninganefnd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þann 15. maí 2001 mótmælir harðlega fyrirliggjandi frumvarpi til laga um kjaramál fiskimanna. Fundurinn lýsir yfir að ekki standi til að aflýsa yfirstandandi verkfalli fyrr en samningur við samtök útvegsmanna hefur tekist. Fundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að draga til baka lagafrumvarpið og veita samningsaðilum svigrúm til að ljúka deilunni með samningi. Ef ekki er orðið við þessari ósk skorar samninganefndin á Alþingi Íslendinga að hafna lagafrumvarpinu. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi lýsir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands fullri ábyrgð á hendur stjórnvalda.``

Þessi afstaða er skýr og klár. Ég veit ekki betur en afstaða ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða hér sé líka skýr og klár. Þeir ætla sér að ná þessu máli fram eins og það liggur fyrir, með þeirri breytingu sem ég nefndi hér áðan, að Sjómannasambandið verði tekið út úr þessu frv. en það gildi þá um aðra aðila.

Ég fór yfir það í ræðu minni í gær hvers vegna þessi málefni komust í þennan farveg. Ég minni á það, áður en lengra er haldið, að hér á Alþingi Íslendinga hafa menn skotið sér undan þeirri skyldu sinni að taka á verðlagsmálunum, kljúfa sundur veiðar og vinnslu og koma á eðlilegu starfsumhverfi í þessari atvinnugrein eins og í öðrum atvinnugreinum.

Stjórnvöldum þótti við hæfi, og það var ekki gagnrýnt í þjóðfélaginu, að gera Landssíma Íslands það skylt að taka GSM-símakerfið út úr almenna kerfinu hjá sér og gera það upp sérstaklega til að tryggja það sem kallað var eðlilegt samkeppnisumhverfi í fjarskiptum. Það var ekkert óeðlilegt við þá ákvörðun. En þegar menn velta fyrir sér fyrirkomulaginu hvað varðar útgerð og fiskvinnslu á Íslandi þá komast sömu stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að það sé í góðu lagi og að útgerðarmenn sem reka líka fiskvinnslu eigi áfram að fá að semja við sjálfa sig um verð. Þó er að vísu um að ræða breytingu á þessu atriði í hugmyndum sem hér liggja fyrir í þessu frv. og í samningi Vélstjórafélagsins við útvegsmenn.

[16:00]

Ég ætla einmitt að ræða dálítið um þennan samning. Ég tel að þetta sé þríhliða samningur, hæstv. forseti. Hann hafi orðið þannig til að fram hafi farið þríhliða viðræður milli Vélstjórafélags Íslands, Landssambands íslenskra útvegsmanna og ríkisstjórnarinnar. Ég ætla að reyna að rökstyðja það. Mér finnst satt að segja ekki erfitt að sýna fram á að svo hafi verið.

Ef menn lesa samning þann sem gerður var á milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands þá er í 6. gr. talað um lög um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna en þar stendur:

,,Aðilar skulu fara þess á leit við stjórnvöld að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna:

Aðgangur samningsaðila að upplýsingum um misræmismál verði opnaður.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd vinni að samningsmarkmiðum. Í þeim fisktegundum sem í 1. gr. greinir miði úrskurðarnefnd við samningsmarkmiðin á hverjum tíma.``

Þetta er tekið upp í frv. ríkisstjórnarinnar. Síðan er haldið áfram í 6. gr. samnings Vélstjórafélagsins, með leyfi forseta:

,,Tillaga að breytingu á 1. gr. laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna: 2. mgr. 1. gr. orðist þannig: ,,Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um verðlagningu á fiski á gildistíma kjarasamnings, skal Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla, stuðla að því með störfum sínum og úrskurðum að þau markmið nái fram að ganga.````

Og hvað gerist? Þessi tillaga er lögð fram nákvæmlega orðrétt á Alþingi Íslendinga í lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Algjörlega orðrétt. Halda menn virkilega að ekki hafi verið einhver aðili frá ríkisstjórninni staddur við samningaborðið úr því að hægt var að orða greinarnar nákvæmlega þannig að síðar mætti leggja þær fram óbreyttar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar?

Sama er að segja um ákvæðið um Kvótaþing. Þar verða aðilar sammála um að beina því til ríkisstjórnarinnar að Kvótaþing verði afnumið. Þess er farið á leit við stjórnvöld að lögunum um stjórn fiskveiða verði breytt þannig að skilyrði fyrir staðfestingu á flutningi á aflamarki frá skipum verði að upplýsingar um verð aflamarksins verði skráð. Allt kemur þetta fram í frv. ríkisstjórnarinnar. Halda menn virkilega að hægt sé að gera heilan kjarasamning þar sem alls konar verkefni eru færð til Alþingis án þess að þriðji aðili hafi komið að málum? Hvað er þá athugavert við það? Það er það sem ég ætla að halda áfram að rökstyðja.

Það sem er athugavert við þetta er að stjórnvöld ganga til samninga með þríhliða viðræðum við einn aðila að kjaradeilu til að kljúfa í sundur samtök sjómanna og til að ná fram þeim göfugu markmiðum sínum að verja hið umdeilda fyrirkomulag sem gildir sem hefur valdið öllum þeim vanda sem við hefur verið að etja í samningamálum sjómanna til margra ára. Þarna var búinn til fleygur til að reka á milli þessara aðila og það hefur örugglega verið vilji stjórnvalda allan tímann og ásetningur þeirra með því að taka þátt í þessum þríhliða viðræðum við Vélstjórafélag Íslands og Landssamband íslenskra útvegsmanna til að fara svo með lagasetninguna beint inn á Alþingi. Auðvitað liggur þetta allt í augum uppi.

Í þessum samningum hefur verið gengið frá því að þarna skyldu menn líka miða við fjögur og hálft ár eins og var meiningin en er búið að draga til baka núna. Til að binda þetta almennilega svolítinn tíma og hafa frið. Hafa frið fyrir sjómönnum og útvegsmönnum einhvern tíma að ekki stæðu yfir deilur á milli þeirra.

Ég tel að þessi vinnubrögð séu forkastanleg. Ég tel að í þessum samningi við Vélstjórafélagið og því lagafrumvarpi sem liggur fyrir, séu verulega hættuleg atriði sem menn geti ekki séð fyrir endann á í sambandi við verð á fiski.

Á fundi nefndarinnar þar sem forustumaður Vélstjórafélagsins mætti til að útskýra fyrir nefndarmönnum samninginn þá verð ég að segja fyrir mig og meðganga það í ræðustól á hv. Alþingi, að mér tókst ekki að skilja hvernig þetta verðlag ætti að þróast. Ég er sannfærður um að þeir sem gerðu samninginn geta ekki með neinu móti fullyrt hvernig verðlagið muni þróast.

Það er t.d. þannig að ekki er gert ráð fyrir því í samningnum að breytingar verði á fiskverði fyrr en eftir ár. Ekki nema Verðlagsstofa skiptaverðs hafi af því frumkvæði að gera breytingar. Gengi íslensku krónunnar hefur verið á býsna miklum hraða undanfarið. Einu sjómennirnir sem hafa gengistryggð laun eru þeir sem eru á frystitogurum. Aðrir sjómenn þurfa að búa við það verð sem fæst á mörkuðum innan lands.

Það er það flókinn ferill að því viðmiðunarverði sem er verið að búa til í þessum samningi Vélstjórafélagsins að enginn getur fullyrt um þróun þess, hvaða breytingar verði á framboði á fiskmörkuðunum. Ég held að mikil ástæða sé til að hafa af því áhyggjur að hér geti verið að myndast landssambandsverð eða einhvers konar verð sem er hægt að líkja við landssambandsverðið gamla.

Við spurðum einmitt fulltrúa sjómanna, sem voru á þessum fundi með okkur í nótt, um þetta. Þeir svöruðu því til að þeir teldu að þetta mundi verða viðmiðunarverð og veruleg hætta væri á því að ýmsir aðilar sem hefðu sótt sér verðviðmiðanir á markaðinn á undanförnum árum mundu taka þetta verð upp.

En eins og ég nefndi í ræðu minni í gær hefur það komið fram í gögnum frá Þjóðhagsstofnun að mismunurinn á milli þess verðs sem er á mörkuðunum og þess verðs sem kemur úr beinum viðskiptum á milli aðila hefur verið að vaxa verulega. Það var þannig að 1995 var mismunurinn upp á 3,5 milljarða en á árinu 1999 var mismunurinn kominn upp í 6,5 milljarða. Það er því ekki lítið sem menn eru að takast á um þegar tekist er á um hvað eigi að koma til skipta.

Annað kom fram í viðræðum við þessa aðila í nótt sem var mjög athyglisvert. Bæði fulltrúi LÍÚ og fulltrúar sem voru þarna á fundi hjá nefndinni frá sjómönnum sögðu frá því að menn væru að semja um fiskverð á fiskiskipum, tengt mönnunarbreytingum, þannig að þegar fækkað væri í áhöfn væri líka breytt verðinu á fiskinum. Það er nefnilega þannig þó það standi í samningum að útgerðarmönnum sé skylt að leita hæsta verðs fyrir afurðirnar, fyrir hráefnið sem kemur úr sjónum, að þá ganga kaupin samt svona fyrir sig á eyrinni. Það er verið að búa til þetta verð og það getur breyst við hvað sem er.

Auðvitað er langur vegur frá því að þarna sé að skila sér það verð sem gert er ráð fyrir í samningum sjómanna og útvegsmanna, þ.e. að útgerðarmaður leiti eftir hæsta verði. Auðvitað mun aldrei nást niðurstaða í málið fyrr en stjórnvöld koma á fyrirkomulagi sem gerir mönnum skylt að skilja á milli veiða og vinnslu. Það mun auðvitað aldrei gerast fyrr.

Þetta er það verkefni Alþingis, sem það hefur svikist um árum saman að koma frá sér og klára sem ég tel að menn eigi ekki að ýta lengur á undan sér. Hér liggja reyndar fyrir tillögur í hv. Alþingi um að tekið verði á málinu. Ég held það væri hollt að menn settust yfir þær tillögur og reyndu að afgreiða þær. Ég held reyndar að ef menn störfuðu hér á ábyrgð, frá hendi stjórnvalda, hefðu þeir átt að lýsa því yfir að stefnt yrði að því að skilja á milli veiða og vinnslu á einhverju tilteknu tímabili og gera áætlun um hvernig staðið yrði að því. Ef það lægi fyrir þá yrði um alla hluti auðveldara fyrir sjómenn og útvegsmenn að ná saman um kjör sjómanna.

Þetta kom mér satt að segja mjög á óvart. Ég átti ekki von á að í viðtölum við þingmenn mundu útvegsmenn segja frá því eins og venjulegum hlut að svona væri vélað með fiskverðið. Auðvitað vissi ég að það er gert svona. Það er brot á samningum. Það liggur fyrir alveg klárt að útvegsmenn eiga að leita hæsta verðs. En vegna þess að það er daglegt brauð að ganga fram hjá þessum ákvæðum þá eru menn orðnir svo vanir því að þeim finnst allt í lagi að tala um það, jafnvel við alþingismenn þegar farið er yfir frumvörp eins og þarna í nótt. Hér er greinilega verk að vinna sem þyrfti að taka á sem allra fyrst.

En afleiðingarnar sem ég nefndi áðan að gætu orðið af þessu, ég hef af því miklar áhyggjur að þær muni koma fram, þ.e. að aðilar sem hafa ekki notfært sér svona aðferðir við að búa til fiskverð fari að búa til fyrirtæki til að kaupa fiskinn af sjálfum sér, á lægra verði og selja hann síðan á hærra verði án þess að hafa svo sem mikið gert við hann í millitíðinni. Það er mikið stundað í þessari atvinnugrein að fara svona að. Það er náttúrlega ekki einleikið að fleiri og fleiri útgerðarmenn skuli unnvörpum kjósa að hætta að selja fisk á markaði og að það skuli minnka framboð núna á undanförnum árum á fiski sem kemur inn á markaðina þó að það liggi fyrir að mismunur á beinni sölu á markaði og því sem menn eru að fá í beinum viðskiptum, t.d. núna í febrúar, er ekki minni en það að í beinni sölu eru menn að tala um 100 kr. en á mörkuðunum var verðið 198 kr. Hvaða hagsmunir útgerðarmanna geta nú ráðið því að þeir vilji frekar selja fiskinn sinn á hundraðkall en 198 kr.? Gaman væri ef menn glímdu við að svara því á hv. Alþingi.

[16:15]

Auðvitað vitum við hvaða hagsmunir það eru. Það eru þeir hagsmunir að losna við að borga sjómönnum part úr 98 krónunum eins og þeir eiga samkvæmt kjarasamningum. Vandamál þeirra aðila sem hér hafa átt og eiga í kjaradeilu er sá óheiðarleiki sem er í öllum þessum samskiptum og að Alþingi víkur sér undan því að leysa þessi vandamál. Fjölmargir hafa komist að þessari niðurstöðu fyrir langalöngu, þau verða aldrei leyst öðruvísi en að láta þennan fisk taka verð á markaði með einhverjum hætti. Ekki er þar með sagt að aðilar sem bæði gera út og eru í fiskvinnslu geti ekki unnið fiskinn á skipunum sínum. Það er ekkert vandamál að koma því fyrir ef menn vilja það. En þeir þurfa auðvitað að horfast í augu við að þeir þurfa þá að borga sjómönnunum eðlilegan hlut úr því verði sem er á mörkuðum.

Stjórnmálamenn hafa ýtt þessu á undan sér árum saman. Hitt vandamálið sem ég fór líka yfir í ræðu minni í gær og ætla líka að minnast aftur á er kvótakerfið. Ég benti þá á að allan tímann sem menn hafa tekist á um þetta kvótakerfi hafa menn ekki haft sömu afstöðu til þess í sjómannasamtökunum, þeim þremur sem um er að ræða. Svo undarlega vill til að Vélstjórafélagið hefur haft forustumann sem hefur mælt með þessu kvótakerfi allan tímann. Svo verður þessi undarlega tilviljun núna í þessum samningum að hægt var að gera samning akkúrat við þetta félag en ekki hin. Sá samningur er gerður með þríhliða viðræðum að næturþeli og í þeim samningi eru búnar til lagagreinarnar og birtast stafréttar í þingskjölum Alþingis.

Ég tel að þessi vinnubrögð séu gjörsamlega óboðleg frá hendi löggjafans og framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar. Þetta allt saman, öll þessi átök þjóðarinnar um þessa auðlind og þetta slugs Alþingis og framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar þar sem menn taka ekki á þeim málum sem nauðsynlegt er að taka á í sambandi við verðlagsmál, fiskverð og það að koma á eðlilegu umhverfi í þessari atvinnugrein, hefur orðið til þess að það er bókstaflega búið að eyðileggja félagslegt umhverfi sjómanna og útvegsmanna. Allt samskiptakerfið er ónothæft. Enginn veit hvaða áhrif öll þessi mál hafa t.d. bara á þau félög sem eiga hlut að máli. Hvernig verður það í félagsskap sem fær aldrei að sinna aðalhlutverki sínu sem er að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna? Það hlýtur að molna undan slíkum samtökum og erfitt er að varðveita samstöðuna þegar stjórnvöld koma sífellt að öllum málum og setja lög á lög ofan. Það er eins og menn horfi alltaf fram hjá því hver ástæðan er fyrir þessu.

Við höfum horft upp á það dag eftir dag í þessari deilu að fréttamenn taka viðtöl við hina og þessa og þeir eru að spyrja: Hvernig stendur á að þið getið ekki klárað samningana? Verður ekki að fara að skipta um menn í samninganefndunum?

Það er ekki komið hingað inn á Alþingi til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann ætli að reyna að koma á einhverju eðlilegu umhverfi fyrir þessa aðila til þess að semja í, að það sé hægt að takast á um þessi mál í einhverju eðlilegu umhverfi, að það sé klárt og eðlilegt hvernig fiskverð myndast og að það sé alveg klárt að ekki sé verið að blanda viðskiptum með auðlind þjóðarinnar inn í kjaramál sjómanna. Nei, það er ekki verið að spyrja um það. Það er bara bent á þessa þolendur sem eru samningsaðilarnir og þeim er stillt hér upp að veggjum að þeir hafi ekki verið menn til að semja. Þetta er afar ósanngjarn málatilbúnaður fyrir utan það að hann segir okkur að í fjölmiðlum sé ekki nægilega mikil þekking til staðar til að fjalla um þessi mál og ekki lagt nógu mikið í umfjöllun um jafnmikilvægt mál og þetta til að þjóðin sé almennilega upplýst um hvað liggi að baki átökunum.

Því miður komum við til með að búa við þetta ástand áfram. Ekki er líklegt að sú ríkisstjórn sem nú situr og sá meiri hluti sem er nú til staðar á Alþingi taki á þessum málum, afar litlar líkur á því. Þá á ég við bæði þessu stóru mál, bæði eignarhaldið á veiðiheimildunum sem spilar inn í þetta og veldur þessu að verulegu leyti, verðlagsmálin sem forvígismenn stjórnarflokkanna vilja ekki tala um, mál sem þeir hafa engan áhuga á að tala um og dregst ekki upp úr þeim orð varðandi hvaða afstöðu þeir hafi til þessara mála annað en að ekki megi raska grundvellinum undir stórum fyrirtækjum sem beri uppi atvinnulífið í byggðarlögunum. Það liggur bara fyrir að t.d. á höfuðborgarsvæðinu vinnur miklu fleira fólk hjá fiskvinnslufyrirtækjum sem hafa engan kvóta og eru að kaupa á mörkuðunum. Það er verið að taka tækifærin frá þessu fólki með þeim aðferðum sem hér er verið að beita og því að fiskur kemur í minna mæli inn á markaðina, og færa þetta inn í fyrirtækin, inn í bein viðskipti þar sem er ekki skipt upp úr eðlilegu verði á fiski.

Ég er á því að ekki þurfi mjög langan aðlögunartíma að því að koma á eðlilegu fiskverði sem tekur mið af markaðnum. Það er hægt að gera það á tiltölulega stuttum tíma. Það kann að vera að einhver fyrirtæki sem eru rekin núna þyrftu að breyta rekstri sínum, en er nokkuð að því? Ef fyrirtæki sem geta ekki keppt á markaði hafa haft verkefni á undanförnum árum vegna þess að þau hafa haft aðgang að hráefni á miklu lægra verði en önnur fyrirtæki sem eru á markaði þá sjá allir að hin fyrirtækin sem geta borgað hærra fá þá aðgang að meiri fiski og munu skapa meiri auð í þjóðarbúið. Eiga menn að hafa einhverjar óskaplegar áhyggjur af því? Mér finnst það ekki. Hins vegar er ástæða til þess að skoða vandlega með hvaða hætti eigi að standa að svona breytingu því að hún er viðamikil. En hún er óumflýjanleg og stjórnvöld verða að taka á þessu máli. Ef það verður gert munu menn ekki þurfa að horfa upp á verkföll, svo langvinn sem menn hafa séð, og ættu að vera lausir við það að Alþingi Íslendinga setji lög á kjaradeilur sjómanna sífellt og endalaust.

En eins og ég sagði áðan er ekki líklegt að menn séu að fara að gera breytingar á þessu. Nú mun þetta mál halda áfram í umræðu. Á fundi nefndarinnar sem verður á eftir verður sjálfsagt lögð fram tillaga um breytingu sem leiðir af því að Sjómannasamband Íslands hefur ákveðið að aflýsa verkfalli sínu. Ég á svo sem ekki von á því að hv. stjórnarliðar geri meiri breytingar. Þó verður reynt til þrautar í nefndinni að fá fram þær breytingar sem gætu lagfært þetta eitthvað. Aðalmálið sem við erum að fjalla hér um, sem er það að verið er að setja lög yfir sjómenn og koma í veg fyrir að þeir nái samningum á eðlilegum grundvelli við viðsemjendur sína sem hafa verið tregir í taumi vegna þess að þeir hafa alltaf mátt eiga von á því að hlaupið sé undir bagga með þeim og sem hafa setið með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og Vélstjórafélaginu við að búa til þingmálið sem liggur hér fyrir.

Mér finnst ástæða til að draga athyglina að þessum vinnubrögðum hér og ég held að það sé ekki hv. stjórnarliðum til sóma að standa þannig að málum. Ég held að miklu nær hefði verið að láta þá um það, sjómenn og útvegsmenn, að klára mál sín. Ég er alveg sannfærður um að þeir hefðu verið búnir að því ef stjórnvöld hefðu ekki verið að kássast í þessum málum í allan vetur, fyrst með lagasetningunni til að bjarga loðnunni, sem kallað var, og svo núna. Allan tímann hafa menn haft spurningarmerki á eftir orðum sínum þegar spurt hefur verið um hvort lög yrðu sett á sjómenn.

Í raun og veru þarf ekkert spurningarmerki, sjómenn hafa bara ekki fengið að klára að semja til margra ára. Engin ástæða er til að halda að þau stjórnvöld sem nú sitja við og leggja allt undir til að tryggja að þetta umhverfi verði áfram eins og það hefur verið séu neitt að fara út af sporinu í þeirri stefnu sinni.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri.