Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 16:29:27 (7833)

2001-05-15 16:29:27# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki til þess að þetta mál hafi verið tafið um eina einustu mínútu á hv. Alþingi enn þá. Það hefur ekki verið möguleiki á að afgreiða það hraðar en stefnir í samkvæmt öllum reglum sem eru í gildi. Þó að við tölum um þetta mál og um þau mál einmitt sem hv. þm. nefndi, eins og alþjóðasamninga, þurfti ekki að gera það? Hvers vegna var ríkisstjórnin að breyta þeim ákvæðum sem voru í frv.? Vegna þess að menn sannfærðust um það að þetta gæti ekki gengið. Ætli það hafi ekki skipt máli að talað var um þessi atriði? Ætli það hafi ekki skipt máli til þess að sannfæra ríkisstjórnina um það með því að benda á ákvæði í þessum samningum og með þeirri umræðu sem hefur farið fram um þessi atriði? Allt varð þetta til þess að ríkisstjórnin hrökklaðist frá því að hafa málið þannig.

Auðvitað er ekki leikur að vera í verkfalli. En hvenær hefði nokkurt verkalýðsfélag, hvenær hefði nokkur verkamaður fengið bætur á kjörum sínum ef menn hefðu ekki þurft að fórna einhverju til þess? Allt það sem hv. þm. sagði áðan um þessar fórnir á við í öllum verkföllum og verkföll eru ekki leikur. Ég mæli ekki með því að menn þurfi að fara í verkföll. Þau eru enn þá verri og það er enn þá erfiðara að sætta sig við að verkföll séu þegar stjórnvöld eiga hlut að máli með þeim einstæða hætti eins og hér á við þar sem búið er til umhverfi til samninga fyrir þessa aðila sem er gjörsamlega eins og myrkrið og menn þurfa að takast á í þessu myrkri um það hvernig þessi kjör eiga að vera vegna þess að stjórnvöld hafa ekki komið hlutum í eðlilegt horf.