Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 16:35:15 (7836)

2001-05-15 16:35:15# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvað hafi orðið um hæstv. sjútvrh. og hv. formann sjútvn. Hafa þeir ekki tíma til að hlusta hér á umræður eða hafa þeir öðrum hnöppum að hneppa.

(Forseti (ÍGP): Út af þessum ummælum hv. þm. skal þess getið að báðir þessir ágætu menn eru hér í þinginu samkvæmt upplýsingum forseta og mun forseti gera ráðstafanir til þess að þeir komi hingað. Forseti sér reyndar að formaður sjútvn. er þegar mættur á staðinn.)

Ég þakka hæstv. forseta.

Mér fannst umhugsunarvert að hlýða á orð talsmanns Sjálfstfl. hér við umræðuna, hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem vill bæði banna verkföll og setja skorður við málfrelsi í þinginu. Ég skildi ummæli hans ekki á annan veg. Honum finnst mjög til óþurftar að við ræðum þessi mál, að Alþingi ræði frv. sem felur í sér bann við verkfalli og sviptir íslensku sjómannastéttina samningsrétti.

Hæstv. forsrh. gekk reyndar lengra í framlagi sínu til þessarar umræðu hér í gær þegar hann líkti umræðu á Alþingi við uppákomu. Hann gagnrýndi stjórnarandstöðuna harðlega fyrir slíkar uppákomur sem menn leyfðu sér að leggjast í í tengslum við þetta mál.

Stjórnarandstaðan óskaði eftir því í dag að umræðunni yrði frestað á meðan málin skýrðust. Staðreyndin er sú að upp er komin nokkuð flókin og erfið staða sem tengist þessu frv. Í morgun var efnt til fundar í Sjómannasambandi Íslands og ákvörðun tekin um það þar að aflýsa verkfalli. Öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands tóku um þetta ákvörðun nema Eyfirðingar. Sjómenn í Eyjafirði tóku ákvörðun um að halda verkfallinu til streitu. Í hádeginu var síðan boðað til fundar í Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og þar var samþykkt svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta:

,,Fundur haldinn í samninganefnd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þann 15. maí 2001 mótmælir harðlega fyrirliggjandi frv. til laga um kjaramál fiskimanna. Fundurinn lýsir yfir að ekki standi til að aflýsa yfirstandandi verkfalli fyrr en samningur við samtök útvegsmanna hefur tekist. Fundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að draga til baka lagafrumvarpið og veita samningsaðilum svigrúm til að ljúka deilunni með samningi. Ef ekki er orðið við þessari ósk skorar samninganefndin á Alþingi Íslendinga að hafna lagafrumvarpinu. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi lýsir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands fullri ábyrgð á hendur stjórnvalda.``

Með öðrum orðum er hér komin upp mjög flókin staða. Þeir aðilar sem verkfallsbannið á að taka til hafa sumir hverjir afboðað verkfall eða lýst því yfir að þeir hyggist afboða verkfall. Aðrir hafa ekki gert það. Stjórnarandstöðuþingmenn óskuðu eftir fresti á umræðunni til að fá botn í hvað stjórnarmeirihlutinn hygðist gera við þessar aðstæður. Á að halda lagafrv. til streitu og ef svo er á það að taka til allra deiluaðila, einnig þeirra sem nú hafa tekið ákvörðun um að aflýsa verkfalli eða á að undanskilja þá lagafrumvarpinu? Á að dæma þá undir gerðardóminn á grundvelli verkbanns atvinnurekenda eða hver verður framvinda málsins? Um þetta vildu menn fá umræður og skoðun í nefnd áður en þeir tjáðu sig frekar um þetta frv. Þetta var eðlileg ósk sem stjórnarmeirihlutinn neitaði að verða við.

Við fengum að kynnast því hver hugur sjómanna er til þessara mála. Við fengum að kynnast því á kröftugum mótmælafundi fyrir framan Alþingishúsið í hádeginu þar sem saman voru komnir á milli 400 og 500 sjómenn, að drjúgum hluta Grindvíkingar en einnig sjómenn héðan úr Reykjavík. Og að því er mér var sagt var ákveðið að boða til þessa fundar með mjög skömmum fyrirvara. Ég efast ekki um að fundurinn hefði orðið miklu fjölmennari ef öðruvísi hefði verið staðið að boðun. En þetta er vísbending um hug sjómanna.

Þarna voru mættir ýmsir forsvarsmenn úr þeirra röðum, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Sjómannasambandi Íslands auk fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands. Forseti ASÍ var og viðstaddur þessi mótmæli.

Mér finnst þau skilaboð sem Alþingi fékk fyrir framan Alþingishúsið í hádeginu vera þess efnis að okkur beri að taka þau alvarlega. Skilaboðin eru skýr, þ.e. krafa um að þetta frv. verði dregið til baka, á því verði ekki gerður einhver bútasaumur, frv. verði einfaldlega dregið til baka. Í rauninni er það hið eina boðlega í stöðunni og það sem ríkisstjórninni ber að gera, að biðja sjómannastéttina afsökunar á þeirri móðgun að leggja þetta frv. fram, og draga það síðan til baka.

En stjórnarandstaðan vildi að meira yrði gert og hefði það verið unnt að gera ef krafa okkar um frestun á umræðunni hefði náð fram að ganga, t.d. að boða félmn. til fundar til að fara yfir ýmsa þætti þessa máls sem snerta starfssvið hennar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sté í pontu áðan og býsnaðist yfir því að menn væru að taka tíma til að ræða þessi mál, mál sem snerta alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga, um vinnurétt, um félagafrelsi, skuldbindingar sem eru þess efnis að næstum óhætt er að fullyrða að frv. eins og það birtist þinginu á laugardag, hefði verið dæmt kolólöglegt ef á það hefði verið látið reyna hvort það stæðist þessar skuldbindingar. Ég held að fáir menn efist um að svo hefði verið enda hefur ríkisstjórnin nú tekið ákvörðun um að reyna að sníða allra verstu vankantana af frv. Síðan leyfir talsmaður Sjálfstfl., hv. þm. Pétur H. Blöndal, sér að koma í pontu og býsnast yfir því að menn séu að ræða málið.

Mér finnst sú umræða sem hér hefur farið fram í dag hafa verið mjög fróðleg. Hún hefur verið gagnleg og hún hefur verið fróðleg. Hún hefur verið gagnleg fyrir þær sakir að ýmislegt sem lýtur að kjörum sjómanna er fólki orðið ljósara en áður var. Staðreyndin er sú að kjarasamningar sjómanna eru um margt mjög flóknir. Ég held að staðreyndin sé sú að almennt skilji fáir samningana í reynd aðrir en þeir sem eru innvígðir í þennan heim, en aðrir botni lítið í þeim. Þess vegna held ég að okkur hafi mörgum þótt fróðlegt að hlýða á hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sem hélt hér tveggja, þriggja tíma fróðlega kennslustund í kjörum sjómanna.

[16:45]

Mér fannst mjög upplýsandi að hlusta á hann lýsa aðdraganda þeirrar stöðu sem nú er komin upp. Lýsa því hvernig sjómannasamtökin buðu skammtímasamning í janúar, samning sem ætti að gilda út þetta ár, fram í desember, þar sem tekið yrði á tekjutryggingu sjómanna, á slysatryggingum, á lífeyristryggingum, hlífðarfatnaði og ýmsu sem lýtur að aðbúnaði sjómanna, á sama tíma og ákvörðun yrði tekin um að taka hin erfiðari mál sem öllum er ljóst að erfitt er að ná niðurstöðu í, mönnunarmálin og verðmyndunarkerfið, og setja þau inn í annan farveg. Þetta var tilboð sjómanna. Og því var hafnað. Þessu höfnuðu útgerðarmenn.

Ég held að okkur sé hollt að fara að hugsa þessa kjaradeilu upp á nýtt. Þetta er varnarbarátta sjómanna. Það eru útgerðarmenn, það er Landssamband íslenskra útgerðarmanna sem er í reynd að heyja kjarabaráttu gegn íslenskum sjómönnum. Með þvergirðingshætti sínum komast þeir hjá því að standa skil á eðlilegum kjaragreiðslum til sjómanna. Og þeir vita að þeir geta leyft sér að standa á bremsunni því að þeir eiga sér bakhjarl og það er hæstv. ríkisstjórn Íslands. Þess vegna komast þeir upp með að heyja kjarabaráttu gegn íslenskri sjómannastétt á þann hátt sem þeir hafa gert núna í ein 13, 14 ár. Á þeim tíma hafa sjómenn verið samningslausir í sex og hálft ár.

Ég skil mjög vel reiði þeirra manna sem söfnuðust fyrir fram Alþingishúsið í dag. Þetta eru menn sem hafa verið kauplausir núna í sex vikur í verkfalli. Í sex vikur hafa þeir verið kauplausir í verkfalli og þegar verkfallið er að byrja að bíta, þegar verkfallið, sem er nauðvörn þessara manna, er loksins farið að bíta, þá stendur rýtingurinn, ríkisstjórnarrýtingurinn úr bakinu á þeim. Þá er grundvellinum kippt undan þeim og verkfallið bannað með lögum. Og skyldi nokkurn undra að þessir menn verði reiðir?

Síðan koma þingmenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hér í pontu og kvarta yfir því að menn séu að tala um þessi mál. Fjargviðrast út af þessum málum. Mér finnst þetta skammarlegt. Mér finnst þetta ekki aðeins ámælisvert, mér finnst þetta skammarlegt.

Hér hófst dagurinn í morgun á því að hv. formaður sjútvn. sagði að meiri hluti nefndarinnar hefði komist að þeirri niðurstöðu á næturfundi að gera breytingar á þessu frv. sem sviptir íslenska sjómenn samningsréttinum. Það mátti skilja á orðum hans að mannréttindabrotið hefði verið mildað. Hann talaði með nokkrum þjósti og spurði hvað menn vildu upp á dekk. Hvort menn skildu ekki að búið væri að gera grundvallarbreytingar á frv. En mannréttindabrot er það eftir sem áður. Vegna þess að samkvæmt frv. eins og það stendur nú og þrátt fyrir þær breytingar sem kunna að verða gerðar á því, stendur það enn eftir að íslenskir sjómenn eru sviptir samningsrétti og þeir eru færðir undir gerðardóm. Gerðardóm? Hvað er gerðardómur? Hvaða málskilning leggja menn í gerðardóm? Er það ekki dómur sem deiluaðilar koma sér saman um, þá er málið sett í gerð til að leysa hnútinn, hugsanlega skipaður einn af hvorum deiluaðila og sá þriðji skipar oddamann? Er það ekki sá skilningur sem við höfum á því hugtaki, gerðardómur? Þetta er enginn gerðardómur sem hér á að skipa. Þetta er nefnd sem Hæstiréttur Íslands á að skipa til að ákvarða kjör íslenskra sjómanna eftir að þeir hafa verið sviptir samningsréttinum.

Í frv., og þar hefur engin breyting orðið á, í 2. gr. þess, er sagt hvað þessi nefnd á að ákvarða um kjör sjómanna. Og það er talið þar upp hvað það sé. Það eru ekki aðeins kauptryggingar og slysatryggingar og aðrir slíkir þættir, heldur er það fullkomlega opinn tékki. Því hér segir í g-lið, með leyfi forseta: ,,önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál``. Það er allt undir sem nefnd --- enginn gerðardómur, þetta er hlægileg misnotkun og ósvífin misnotkun á þessu hugtaki --- á að ákvarða kjör sjómanna frá a-ö. Hún fær það hlutverk. Hún á að ákvarða kjör þeirra manna sem söfnuðust fyrir framan Alþingishúsið í hádeginu og kröfðust samninga, að gengið yrði frá kjaramálum þeirra í samningum, í frjálsum samningum. Nei, þessi nefnd fær það hlutverk að ákvarða allt um kjör þeirra. Og svo koma þingmenn stjórnarliðsins hingað upp og spyrja: Hvað vilja menn upp á dekk? Hvað eru menn að þvæla hér um þessi mál? Mannréttindi, hvers konar rugl er þetta? Þetta var boðskapurinn sem við fengum úr pontu áðan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal.

Sannast sagna fyndist mér það ekki slæmur kostur við þessar aðstæður að fá þetta mál aftur til nefndar, sjútvn., til rækilegrar skoðunar. Og mér segir svo hugur að ef menn gengju fordómalaust að starfi þar, þá yrði niðurstaðan sú að draga þetta mál algerlega til baka. Þá yrði það niðurstaðan. Eina færa leiðin í þessu máli er að draga það til baka.

Ég ætla í þessari fyrri ræðu minni við 2. umr. málsins að leggja áherslu á þessa áskorun til ríkisstjórnarinnar, til stjórnarmeirihlutans, að draga þetta frv. til baka.