Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 16:55:55 (7837)

2001-05-15 16:55:55# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að fylgjast með þessari umræðu eins og ég hef getað í dag. (Gripið fram í: Og hefur vit til.) Og hef vit til, hv. þm. Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt hvað harðast í umræðunni í dag er að 2. gr. frv. sé fullítarleg forskrift um þau verkefni sem gerðardómurinn eigi að takast á hendur.

Menn hafa hins vegar sagt: Það væri þá skárra ef síðasti stafliðurinn í þessari upptalningu í 2. gr. væri vísbendingin sem gerðardómurinn ætti að fjalla um, þ.e. að fjalla um kjör sjómanna. Út af fyrir sig er þetta sjónarmið. En þá gerist það allt í einu að hv. 13. þm. Reykv. kemur fram með sjónarmið og í raun og veru ræðst að sínum eigin flokksmönnum (ÖJ: Nú.) og finnur því sérstaklega til foráttu að þessi síðasti stafliður sé svo opinn að hann sé að færa því sem hann kallar nefnd, sem er gerðardómurinn, allt vald um það að ákvarða um kjör sjómanna.

Nú verð ég að segja, virðulegi forseti, að menn verða náttúrlega að reyna að vera svolítið sjálfum sér samkvæmir. Annaðhvort eru menn þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera nein forskrift og taka þá undir það að þessi síðasti stafliður eigi að vera leiðsögnin eða þá að menn tala um að teikna eigi þetta nákvæmar niður.

Og nú vil ég spyrja hv. þm.: Er hann ósammála félögum sínum? Er hann ósammála talsmönnum sjómannasamtakanna sem komu á fund sjútvn. í gær og töldu að höfuðgalli frv. eins og það yrði eftir brtt. væri ekki síst sá að verið væri að teikna þetta mál of ítarlega niður í 2. gr. og nær væri að nota síðasta stafliðinn sem grundvöll, ef menn á annað borð ætluðu að fara þessa leið, án þess að sjómannasamtökin væru neitt að mæla með því að fara þessa lagasetningarleið, en þá væri að þeirra mati miklu eðlilegra að hafa þetta algjörlega án forsagnar eins og þeirrar sem fram kemur í 2. gr.?