Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 17:31:07 (7842)

2001-05-15 17:31:07# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns beina orðum mínum til hæstv. forseta. Þegar ég horfi yfir salinn sé ég engan ráðherra viðstaddan. Það er kannski ekki óvanalegt þegar rædd eru mikilvæg mál en ég sé heldur ekki neinn fulltrúa stjórnarmeirihlutans og ekki hinn ágæta formann sjútvn. til að hlusta á málflutning stjórnarandstæðinga og svara spurningum okkar.

Ég vildi í upphafi spyrja hæstv. forseta hvort hann teldi eðlilegt, þegar nálgast lok þessarar umræðu, að hér sé enginn staddur af hálfu stjórnarinnar, fyrir utan hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem núna var að ganga í salinn? Telur hæstv. forseti það eðlilega afgreiðslu eða málsmeðferð á hinu háa Alþingi við lok umræðunnar að aðeins einn þingmaður stjórnarliðsins sé til svara í máli sem hefur valdið mikilli umræðu hér í þinginu? Ég vildi mjög gjarnan spyrja forseta hvort hann gæti upplýst mig um það hvort hann teldi eðlilega að málum staðið í lok umræðu?

(Forseti (GuðjG): Hv. formaður sjútvn. er hér í salnum til svara fyrir málið en hæstv. ráðherra er í húsinu. Það er sjálfsagt að senda boð eftir honum ef hv. þm. óskar þess.)

Herra forseti. Ég dreg þetta ekki fram vegna þess að ég treysti ekki hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni til að svara fyrir málflutning ríkisstjórnarinnar heldur vildi ég vekja athygli á vinnubrögðum stjórnarinnar í þessum málum. Til stendur að setja lög á verkfall. Það er ein alvarlegasta aðgerð sem gerð er af hálfu löggjafans. Sá meiri hluti sem fer með valdið á hinu háa Alþingi sýnir málinu hins vegar ekki þá virðingu við 2. umr., sem er hin efnislega umræða eftir umfjöllun í nefnd, að hafa bæði ráðherra og fulltrúa stjórnarflokkanna til svara fyrir þetta alvarlega mál. Hér erum við að ræða eitt stærsta mál sem lagt hefur verið fram á þessu þingi. Þetta vil ég biðja hæstv. forseta um að hugleiða og hvernig skapa megi betri umgjörð í slíkum málum.

Varðandi efnisatriði málsins þá má fyrst nefna að til að grípa inn í kjaradeilu með lögum þurfa að vera alveg sérstakar ástæður og brýn nauðsyn. Í fyrsta lagi var framlagning þessa frv. algjörlega óeðlileg með tilliti til mikilvægis málsins og hefða sem ríkja á hinu háa Alþingi. Hins vegar eru efnisatriði frv., þ.e. bann við verkfalli og verkbanni og gerðardómur, fráleit. Þessari kjaradeilu varð að ljúka með kjarasamningum. Það hefur komið glöggt fram af hálfu forustumanna sjómanna og útgerðarmanna að báðir samningsaðilar vildu klára málið með samningum og þeir fengu það ekki.

Þá getur maður spurt sig, herra forseti: Fyrir hvern er verið að setja þessi lög? Í hvers þágu er þessi lagasetning? Rökstuðningurinn sem færður hefur verið fram í þeim efnum er að hér sé tekið tillit til hagsmuna þjóðarinnar. Bent er á að gjaldeyrisöflun sé í voða og þetta hafi mikil áhrif á hagkerfið. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim röksemdum en í þessari kjaradeilu stóðu mál þannig að það var samdóma álit samningsaðila að það yrði að berjast til þrautar. Menn hafa staðið í þessari kjaradeilu áður. Ég get sagt það hér, hæstv. forseti, að menn standa ekki í sex vikna verkfalli að gamni sínu, hvorki sjómenn né útvegsmenn. Á undanförnum árum hafa staðið yfir mörg verkföll og verið sett mörg lög sem lotið hafa að þessum tveimur atriðum sem deilt er um, þ.e. fiskverðinu og mönnuninni.

Nú er það svo, herra forseti, að þessir samningsaðilar eru ekki þeir einu sem standa frammi fyrir erfiðum málum. Það er hægt að spyrja, því kjarasamningar eru ekkert nýtt í samfélagi okkar: Hvers vegna í ósköpunum geta þessir aðilar ekki klárað kjarasamninga sína? Við því er ekkert eitt svar. Það var vinsæl kenning fyrir nokkrum árum að sökin væri hjá forustumönnunum. Það voru fjórir aðilar sem leiddu þessa viðræðu af hálfu samningsaðila til mjög langs tíma, einn af hálfu útgerðarmanna og þrír af hálfu sjómanna. Nú hafa tveir þessara forustumanna horfið til annarra starfa og tveir aðrir komið í staðinn. En þó er allt óbreytt.

Það er allt óbreytt í samningaviðræðunum og þar koma fram öll sömu viðhorfin þegar fjallað er um þetta á opinberum vettvangi. Erfiðleikarnir í þessari kjaradeilu liggja ekki hjá einstaklingunum, enda eru forustumennirnir bakkaðir upp af sínu fólki. Það er eitthvað að við samningsgerðina, eitthvað í efnisatriðum kjarasamninga í þessari atvinnugrein sem gerir svo erfitt að ná niðurstöðu. Þess vegna ákváðu menn núna að standa ekki upp frá þessu máli fyrr en þeir hefðu náð saman. Málin þróuðust þannig að samningar náðust ekki og verkfall hófst.

Það er óviðunandi fyrir almenning að þessir aðilar semji ekki. Margir eiga í erfiðleikum vegna þess að ekki hafa náðst kjarasamningar. Það er ekki aðeins gjaldeyrismarkaðurinn heldur líka fólk í fiskvinnslufyrirtækjum og þetta hefur margvísleg önnur áhrif. Við vitum, herra forseti, að samningsrétturinn er vitaskuld réttur sem fylgja skyldur. Það er hörmulegt að Landssamband íslenskra útvegsmanna og sjómannasamtökin skuli ekki hafa náð að uppfylla þessar skyldur með því að ná niðurstöðu í kjarasamningum.

Herra forseti. Aftur á móti á löggjafinn ekki að grípa inn í kjaradeilu að óþörfu. Hann hefur vald til þess. Það vald hefur reyndar verið misnotað af öllum flokkum en réttur til inngrips í kjaradeilu getur aldrei verið annað en neyðarréttur. Þeim rétti hefur verið beitt oftar en í neyð. Það má vera að við ættum að hugleiða það sem gagnrýni á alla, ríkisstjórn, stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins, að menn hafi verið of prinsipplausir í þessum efnum. Lög hafa oft verið sett með þegjandi samþykki samningsaðila. Það er ekki góð aðferð þó að við höfum kannski á seinni árum reynt að færast út úr þessu umhverfi.

Þetta frv. leysir hins vegar engan vanda. Það leysir ekki einu sinni þessa kjaradeilu vegna þess að álitamálum um fiskverð og mönnun er ekki fundinn neinn farvegur. Það eru liðnar sex vikur án nokkurrar niðurstöðu og þegar þetta frv. verður orðið að lögum þá hafa sex vikur liðið án þess að nokkur árangur hafi náðst, fyrir utan kjarasamning vélstjóra. Vitaskuld ber að virða þá samninga eins og aðra sem gerðir eru af fúsum og frjálsum vilja.

Samfylkingin hefur skýra stefnu varðandi deiluna um fiskverðið. Hún hefur talað um að hana megi leysa á markaði. Það að setja allan fisk á markað sé hin eina rétta og raunhæfa lausn. Það er kerfi sem er víða notað erlendis.

Mönnunarmálin, þ.e. hvernig skipta eigi verðmætum vegna fækkunar í áhöfn vegna tækniframfara, eru klassískt vandamál samningsaðila og enginn getur tekið það verkefni frá þeim. Samningsaðilar hafa haft þetta uppi á borðinu og verða að klára það. Löggjafinn getur aldrei klárað þetta mál fyrir þá, hvort sem er með beinni lagasetningu eða gerðardómi.

Mistök ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eru mörg. En það hafa fleiri aðilar gert mistök í þessum málum. Það voru mistök, herra forseti, að leggja fram frv. sem frestaði verkfalli hér um páskana. Þá var tekinn kraftur úr viðræðunum. Það er ekki hægt að fullyrða um hvort náðst hefðu samningar ef frv. hefði ekki komið fram en mitt mat er að það hafi ekki greitt fyrir lausn mála, eins og raun ber vitni. Það voru fyrstu mistök opinberra aðila í þessari kjaradeilu.

Í öðru lagi voru það mikil mistök að leggja þetta frv. fram og ætla að knýja á um afgreiðslu þess. Það átti að bíða og gefa mönnum lengri tíma í kjölfar vélstjórasamningsins til að fullreyna þetta mál.

Í þriðja lagi er hægt að gagnrýna það hvernig frumvarpið var lagt fram og hvernig gengið var á svig við hefðir á hinu háa Alþingi.

Í fjórða lagi er hægt að leggja annað mat á stöðuna heldur en sáttasemjari gerði. Í þessari deilu hefði verið eðlilegt að fram hefði komið miðlunartillaga, t.d. skömmu fyrir vélstjórasamninginn eða strax í kjölfarið, þannig hefði farið fram atkvæðagreiðsla milli samningsaðila, milli útgerðarmanna og sjómanna, um einhvers konar miðlunartillögu sem mögulega hefði fengist samþykkt. Jafnvel þó hún hefði ekki verið samþykkt þá hefðu það verið ákveðin skilaboð inn í þessa deilu. Að mínu mati hefði verið nauðsynlegt að fá fram miðlunartillögu og atkvæðagreiðslu um hana.

Í fimmta lagi má nefna að þetta frv. er ekki vel unnið og vísunin í gerðardóm, eins og hér hefur margoft komið fram í umræðunni, er mjög ábótavant. Hringlandaháttur hæstv. sjútvrh. í þeim efnum er ekki til að bæta virðingu hins háa Alþingis.

Eina skynsamlega niðurstaðan í þessu máli eða tillaga til afgreiðslu þess er að annaðhvort verði þetta frv. fellt eða dregið til baka og málinu aftur vísað til samningsaðila. Deilumálin væru hvort eð er öll óleyst við næstu kjarasamninga. Það að búa við sífelld verkföll og verkbönn í sjávarútvegi er óþolandi fyrir almenning, fiskvinnslufólk, hagstjórnina og marga aðra þætti í þessu samfélagi. Undan þeirri ábyrgð getur enginn skorast.

Það er ekki, herra forseti, hlutverk löggjafarvaldsins að grípa inn í þessi mál fyrr en komið er í þvílík óefni að þjóðarhagur sé í alvarlegri hættu. Jafnvel þó að verkfallið hafi staðið í sex vikur þá var sú staða ekki komin upp. Við höfum heyrt ákall samningsaðila, sérstaklega sjómannaforustunnar, um að þeir vildu klára þetta mál.

[17:45]

Sú leið sem farin er í frv., að leggja til gerðardóm, er fráleit leið til kjarasamninga. Það gengur ekki nema menn vilji taka samningsréttinn af útgerðarmönnum og sjómönnum og setja launaákvarðanir í kjaranefnd, eins og gildir um ýmsar starfsstéttir, eins og presta og lögreglumenn og nokkrar aðrar stéttir, séu menn algjörlega búnir að gefast upp á því að þessir aðilar geti nokkurn tíma náð niðurstöðu í kjaraviðræðum sínum. Gerðardómsleiðin er skref í átt að þeirri hugmyndafræði en samningsaðilar verða líka að hugsa til lengri tíma. Það að afnema samningsrétt launaþegafélags er fráleit aðferð. Afleiðingarnar verða líka miklar og þær eru kannski alvarlegastar fyrir skipulag verkalýðshreyfingarinnar á næstu missirum.

Herra forseti. Í kjölfarið á þessum lögum mun verktaka verða algengara samningsform eða launþegaform innan sjávarútvegsins og að farið sé fram hjá skipulögðum launþegahreyfingum og launþegafélögum. Þessi breyting hefur víða orðið í nágrannalöndunum. Þetta hefur gerst erlendis í ýmsum greinum og er mjög vond þróun. Hér kemur líka fram hinn skýri pólitíski ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli. Stjórnarliðar hafa ekkert á móti því að kjaraviðræður þróist fram hjá samtökum launafólks og yfir í verktöku fram hjá eðlilegum samtökum launþega, hvort sem er í heildarsamtökum eða í einstökum stéttarfélögum. Það er hinn stóri pólitíski ágreiningur í þessu máli.

Grundvöllur jafnaðarstefnunnar, sem Samfylkingin byggir á, er einmitt frjáls samtök launafólks og með þessum lögum er vegið að rótum jafnaðarstefnunnar.

Þetta frv., þegar það verður að lögum, verður ólög sem leysa ekki vandamálin á milli samningsaðila. Þetta frv. grefur undan skipulagi launþegahreyfingarinnar og niðurstaðan er að frv. er algjörlega ótímabært inngrip í hefðbundna launþegabaráttu. Menn verða að hlíta þeim leikreglum sem gilda í samfélaginu og lagasetning í kjaradeilu og bann á verkföll, er ekki, herra forseti, hluti af þeim leikreglum.