Leikskólar

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 18:14:46 (7844)

2001-05-15 18:14:46# 126. lþ. 123.14 fundur 652. mál: #A leikskólar# (starfslið) frv. 47/2001, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[18:14]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um leikskóla, nr. 78/1994, frá menntmn.

Með frumvarpinu er annars vegar kveðið á um að heimilt sé að ráða starfsfólk án leikskólakennaramenntunar sem taki þátt í að annast uppeldi og menntun barna undir stjórn leikskólakennara ef leikskólakennarar fást ekki til starfsins. Hins vegar er kveðið á um að í stað orðsins uppeldisstefna í 2. og 3. mgr. 4. gr. verði notað heitið aðalnámskrá leikskóla um uppeldismarkmið í starfi leikskóla. Er frumvarpið flutt að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga í samræmi við sameiginlega niðurstöðu Félags íslenskra leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaga í tengslum við samþykkt nýs kjarasamnings.

Það er skilningur nefndarinnar að með frumvarpinu sé opnuð leið til samninga við fólk sem hlotið hefur skemmri menntun til starfa á leikskóla eins og nú er áformað að veita við Borgarholtsskóla og svonefnt diplómanám við KHÍ.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt og er einróma í þeirri afstöðu sinni til málsins.