Ríkisútvarpið

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 18:24:50 (7848)

2001-05-15 18:24:50# 126. lþ. 123.16 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv. 50/2001, EMS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp til að vekja athygli á lítilli klásúlu í nál. hv. menntmn. Það er ljóst að í frv. er raunverulega bara verið að færa lögin til nútímans. Þau ákvæði sem voru í lögunum um Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins eru að sjálfsögðu barn síns tíma og í raun er löngu tímabært að leggja sjóðinn af.

Hins vegar kom fram í umfjöllun nefndarinnar að því miður hefur raunverulega gengið miklum mun verr að byggja upp dreifikerfi Ríkisútvarpsins en menn höfðu vonað. Það er þó ekki því að þakka eða kenna að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins hafi verið til staðar og það má færa fyrir því rök að meiri líkur séu á því að betur geti gengið þegar sjóðurinn er horfinn en ella. En það er að sjálfsögðu stofnunarinnar að gera áætlanir um rekstur og uppbyggingu dreifikerfis og óþarfi að vera að eyrnamerkja einhverja peninga til þess því að eins og ég sagði áðan þá hefur það a.m.k. ekki dugað til þess að byggja upp það dreifikerfi sem við viljum hafa hjá þessari stofnun og í raun og veru kom það einnig fram hjá forsvarsmönnum stofnunarinnar sem komu á fund nefndarinnar að það er vilji þeirra einnig, en þeir kenna um fjárskorti og öðru síku að þetta hafi ekki tekist betur en benda að vísu á að það eru ýmsar tækninýjungar sem kalla hugsanlega á að staðið verði öðruvísi að þessu en gert hefur verið.

Herra forseti. Það sem ég vil vekja sérstaka athygli á er einróma álit nefndarinnar að ekki hafi tekist nægjanlega vel til í þessum efnum og ástæða sé til að gera um þetta áætlanir. Hins vegar kom fram að því miður liggur sú áætlun ekki fyrir hjá stofnuninni en það er fullur vilji nefndarinnar, það kom fram á fundum hennar, að hún muni á næstu árum fylgjast með því hvernig til tekst og ef ástæða þykir til kalla fulltrúa stofnunarinnar á fund nefndarinnar og fara yfir hvernig þessum málum vindur fram. Þess vegna er full ástæða fyrir þeirri klásúlu sem hér kemur fram og ég vil vitna til, með leyfi forseta:

,,Leggur nefndin áherslu á að þeirri uppbyggingu verði lokið þrátt fyrir að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins verði lagður niður í núverandi mynd.``

Þetta er eindreginn vilji nefndarmanna og eftir þessu verður gengið og með því fylgst að við þetta verði staðið.