Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:02:13 (7865)

2001-05-16 10:02:13# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það fer að verða mjög fróðlegt ferlið sem þetta frv. um kjaramál fiskimanna og fleira hefur farið í á hinu háa Alþingi. Ég vil, herra forseti, enn og aftur vekja athygli á því hversu undirbúningi þessa máls hefur verið gríðarlega ábótavant allt frá því að það var fyrst lagt fram fyrir þingið.

Í gær var send út dagskrá til hv. þingmanna þar sem þetta mál átti að vera fyrst á dagskrá. Í fjölmiðlum í morgun hefur ítrekað verið sagt að frv. verði orðið að lögum fyrir hádegi og væntanlega bíður nú fiskiskipafloti landsmanna þess að geta farið af stað um hádegisbilið, hvaðan sem þær upplýsingar koma, herra forseti, því að enn er eftir 3. umr. málsins á hinu háa Alþingi. Þetta hljómar allt mjög undarlega, herra forseti. Það væri fróðlegt að fá að heyra í upphafi fundar, þar sem við hv. þingmenn gerðum ráð fyrir því að taka þetta mál fyrst á dagskránni, hver staða málsins er, hvað hafi gerst í hv. sjútvn. sem hafi orðið til þess að ekki er unnt að taka málið fyrst á dagskrá eins og til stóð.

Ég sé að hv. formaður sjútvn., hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, er hér staddur og vænti þess að hann geti upplýst fyrir þingheimi hvað hafi gerst í nefndinni sem valdi þessum töfum.