Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:13:59 (7871)

2001-05-16 10:13:59# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:13]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur komið fram að málið sem átti að ræða í dag er algjörlega vanbúið. Við þurfum miklu meiri tíma til þess að koma því í höfn. Það er alveg ótækt að mínu mati að hefja 3. umr. um málið ef stjórnarmeirihlutinn er ekki búinn að koma sér niður á það hvernig hann vill láta frv. líta út. Þess vegna held ég að það sé algjör krafa okkar nefndarmanna í sjútvn. að hlé verði gert á þessum fundi og reynt að vinna að málunum þannig að þau verði þingtæk. Ég treysti mér ekki til að fara í 3. umr. um mál þar sem maður veit ekki og gerir sér enga grein fyrir hvert stjórnarmeirihlutinn stefnir.

Í morgun komu fram veigamiklar upplýsingar sem að öllum líkindum gjörbreyta stöðu málsins þannig að það þarf að vinna það upp á nýtt. Það verður ekki farið fram með þessum hætti. Raunar voru þau efnisatriði sem komu fram á fundi sjútvn. í morgun komin fram hér í umræðunni í gær. Margir hv. þm. bentu á galla frv.

Virðulegi forseti. Ég ætlast til þess sem þingmaður að fá tækifæri til þess að vinna vel að þeim málum sem mér eru falin. Þess vegna held ég að það verði að vera algjör krafa okkar að fundi verði frestað og tími gefinn í þá vinnu nefndarinnar sem nauðsyn ber til.