Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:15:36 (7872)

2001-05-16 10:15:36# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:15]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það þarf í rauninni ekki annað en að endurtaka það sem ég sagði hérna áðan. Í fyrsta lagi liggur fyrir að þetta mál er á dagskrá þingsins. Einnig liggur fyrir að fullt er af öðrum málum sem þarf að ræða jafnframt, það eru hér þriðju umræðu mál og önnur mál sem á eftir að ræða. Og þess vegna er engin þörf á því í rauninni að fresta þessum fundi. Það er eðlilegast að halda fundinum áfram.

Sjútvn. hefur komið saman tvisvar sinnum út af þessu máli og í rauninni var ekki tilefni til þess að kalla til annars fundar eða halda lengur áfram þeim fundi. Þær upplýsingar sem sjúvtn. kallaði eftir lágu allar fyrir, afstaða aðilanna og enn fremur lögfræðilegt álit á málinu. Ég held því að í sjálfu sér sé sjútvn. fullbúin til þess að móta sér afstöðu í málinu. Hins vegar vilja menn auðvitað vanda sig við að ganga frá breytingartillögum og þess háttar til þess að málið sé sem best úr garði gert. Og það er auðvitað vilji okkar allra að svo sé.

Menn þurfa ekki að koma hér og láta í ljósi einhverja undrun yfir því að gera þurfi breytingar á frv. Það lá í augum uppi eftir atburði gærdagsins þegar Sjómannasambandið afturkallaði verkfallið að það hlaut að kalla á breytingar á 1. gr. frv. og menn eru að reyna að vinna að því og gera það með bærilegum hætti. Þess vegna þurfa menn ekkert að vera með einhver undrunaróp yfir því að enn þurfi að gera breytingar á frv., það lá í augum uppi og því var lýst yfir úr þessum ræðustól strax í gærdag, bæði af mér og hæstv. sjútvrh.