Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:17:16 (7873)

2001-05-16 10:17:16# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:17]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er brýnt varðandi störf þingsins að réttur skilningur sé á því að hverju menn eru að vinna. Og þær hugmyndir sem hér hefur frést af, að til standi að banna verkföll sjómanna sem hafa aflýst því, er vitaskuld forkastanleg aðferð. En við tökumst þá á um það ef það verður tillagan.

Aftur á móti er annað mál sem ég vil vekja athygli á, sem er sérstaða sjómannafélaganna á Vestfjörðum. Þau hafa ekki boðað verkfall, en þau eru hins vegar aðili að verkbanni LÍÚ, sem hugmyndir hafa verið uppi um að banna. Ef þetta gengur eftir eins og þær hugmyndir sem eru víst á kreiki í sjútvn., þá verða verkfallsaðgerðir bannaðar hjá sjómannafélögum á Vestfjörðum sem þýðir að félögum sem ekki hafa farið í verkfallsaðgerðir og eru með lausa samninga er bannað að beita því vopni ef til þess kemur. Menn sjá vitaskuld að hér er komið í óefni ef menn eru að hugleiða einhverja slíka braut.

Ég vil því hvetja til þess, herra forseti, að þessi mál verði skoðuð miklu betur. Það er ekkert einfalt að taka á þessu máli, burt séð frá hinum pólitíska ágreiningi. En það er mjög varhugavert að fara inn á óþekktar brautir um að taka verkfallsrétt af stéttarfélögum sem eru ekki beinir aðilar að þeirri deilu eins og hún stendur núna.