Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:18:57 (7874)

2001-05-16 10:18:57# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:18]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það undrast sjálfsagt enginn að hart sé tekist á um mál sem þetta hér á Alþingi. Við þurfum auðvitað að vanda til þeirrar vinnu og það er ég sannfærður um að hv. sjútvn. hefur verið að gera.

En það er hins vegar alltaf sama sagan með hv. stjórnarandstöðu, a.m.k. hluta hennar, svo ég dragi nú ekki alla í sama dilkinn, það þarf alltaf að snúa út úr orðum. Sérstaklega snúa út úr orðum ráðherra hér úr þessum stóli, sem ættu þó að geta legið alveg skýr fyrir. Og það voru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Svanfríður Jónasdóttir að gera hér áðan, þau voru að gera því skóna að ég hefði gefið hér yfirlýsingar sem tækju á þeirri stöðu sem nú er upp komin og við höfðum ekki séð og gátum ekki séð fyrir á þeim tíma þegar þau orð féllu. Þau hafa talið sér það sæma að snúa út úr fyrir mér, jafnvel á þann hátt sem meira að segja sjómannaforustan skilur betur. (Gripið fram í.) Meira að segja sjómannaforustan sem er í þessari hörðu baráttu hefur skilning á því að aðgerðir þeirra geta haft áhrif á þá afstöðu sem hér er tekin. Hv. þm. virðast ekki hafa skilning á því að breyttar aðstæður geti kallað á að gera þurfi breytingartillögur við frv. Það þykir mér mjög dapurt að heyra. Ég vonast til þess að hv. þm. haldi ekki áfram þeim plagsið sínum að snúa sífellt út úr orðum einstakra þingmanna og ráðherra.

En ég tel hins vegar, herra forseti, að rétt sé að við höldum áfram þingstörfum samkvæmt dagskrá og þegar forseti telur að breytingartillögur séu fram komnar, þá getum við haldið áfram með umræðu um kjaramál sjómanna.