Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 11:20:48 (7890)

2001-05-16 11:20:48# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[11:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér hefði þótt vænt um ef hæstv. forsrh. hefði verið viðstaddur eða nærstaddur þessa umræðu. Þetta mál er á hans verksviði og ekki óeðlilegt að í tengslum við það sé drepið aðeins á stöðu efnahags-, peninga- og verðlagsmála um þessar mundir. Þær breytingar sem hér eru í vændum á lögum um Seðlabanka Íslands og breytingar á hlutverki og stöðu hans hafa verið mjög til umræðu í tengslum við efnahagsóróleikann á síðustu vikum. Ég vil því inna hæstv. forseta eftir því hvort hann geti a.m.k. gert könnun á því hvar hæstv. forsrh. er á vegi staddur.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. forsrh. er staddur í húsinu og honum hafa verið send boð um að óskað sé eftir að hann verði viðstaddur umræðuna.)

Það þykir mér vænt um að heyra, herra forseti.

Ég átti sæti í þeirri undirbúningsnefnd sem vann að samningu þessa frv. og er aðili að því samkomulagi sem tókst í þeirri nefnd. Frv. er, eins og það var lagt fram, held ég upp á stafkrók óbreytt niðurstaða þeirrar nefndar sem vann sl. vetur að því að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands og leggja til breytingar á þeim.

Ég er þar af leiðandi, herra forseti, eins og af því má ráða, í aðalatriðum sáttur við þær breytingar sem hér eru á ferðinni og hef hugsað mér að stuðla að framgangi þeirra og styðja þær. Ég reikna því ekki með því að standa að breytingum á málinu, þó ég gæti vissulega hugsað mér að öðruvísi væri gengið frá ýmsum þáttum þess. Ég mun koma aðeins nánar að því síðar.

Ég sat í þessari nefnd ásamt hv. fyrrverandi þm. Sighvati Björgvinssyni, sem þar var einnig úr röðum stjórnarandstæðinga. Ég vil leyfa mér að segja að ég tel að við höfum í nefndarstarfinu náð nokkrum árangri í átt til þeirra sjónarmiða sem við sáum fyrir okkur, sem voru að verulegu leyti sameiginleg, að þessi löggjöf ætti að þróast.

Ég hefði persónulega getað hugsað mér að ganga öðruvísi frá ýmsum málum, t.d. því sem lýtur að bankastjórn, spurningunni um einn eða fleiri bankastjóra, aðalbankastjóra og slíkt. Sömuleiðis hefði ég getað hugsað mér að haga öðruvísi ákveðnum þáttum sem varða meðferð peningamálaákvarðana innan bankans. En ég lít svo til að í undirbúningsnefndarstarfinu hafi menn náð því fram sem samkomulag gat tekist um á þessu stigi málsins og það sé ágætlega viðunandi.

Ég vil sérstaklega taka fram, herra forseti, að þó ég standi að þessu máli er það ekki þar með sagt að ég skrifi að öllu leyti upp á þá pólitísku hugmyndafræði sem auðvitað er með ýmsum hætti lögð til grundvallar í vestrænum, kapítalískum ríkjum, eins og þeir hlutir eru útfærðir í dag, þegar kemur að því að ákvarða hlutverk seðlabanka og peningamálastefnu sem þarna er lögð til grundvallar. Ég hef þar á ýmsa fyrirvara og deili sjónarmiðum með hv. 13. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni, sem hér talaði áðan og gerði greindi frá fyrirvörum sínum við þetta mál og vék þar m.a. að efni 3. gr. frv.

Hitt er annað mál, sem hefur nokkur áhrif á mína afstöðu, að löggjöf um Seðlabanka Íslands verður ekki slitin úr samhengi við það umhverfi sem sá seðlabanki verður að starfa í. Þar hefur þróun mála verið með þeim hætti sem við þekkjum, að hér hafa orðið breytingar í átt til markaðsvæðingar á ýmsum þáttum sem áður lutu öðrum reglum að verulegu leyti, t.d. skráning og verslun með gjaldeyri. Hér hefur vaxið upp verðbréfamarkaður og annað í þeim dúr sem Seðlabanki Íslands hlýtur auðvitað að þurfa að taka mið af. Það átti hverjum að vera ljóst sem las ýmis ákvæði gildandi laga um Seðlabankann að þau voru á margan hátt á skjön við þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir og lifum og hrærumst í í dag í efnahagsmálum, gjaldeyris- og peningamálum o.s.frv.

Seðlabanki Íslands verður heldur ekki einangraður frá því alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem við erum hluti af. Þar af leiðandi, hvað sem líður grundvallarviðhorfum manna til efnahagsmála og hagfræði í heiminum, hljótum við að skoða það í hvaða umhverfi Seðlabanki Íslands er staddur í dag og hvaða starfsreglur er eðlilegt og nauðsynlegt að setja honum til þess að hann geti, í því markaðsbúskaparkerfi sem við búum við, sinnt sínu hlutverki vel.

Varðandi verðlagsmarkmiðin sem tekin eru upp í 3. gr. sem höfuð- eða meginmarkmið Seðlabankans, að stuðla að stöðugu verðlagi, þá vil ég taka sérstaklega fram að ég legg upp úr því sem sagt er í greinargerð með frv., sem er sömuleiðis niðurstaða af samkomulagi eða umfjöllun um málið í undirbúningsnefnd, að það ber auðvitað ekki að skilja þetta meginmarkmið 3. gr. frv. til laga um Seðlabanka Íslands þannig að það sé öðrum markmiðum æðra í efnislegum skilningi. Það er fyrst og fremst sett fram með þessum hætti sökum þess að það er í eðli þeirra stjórntækja sem Seðlabankinn hefur í sínum höndum að þeim verður fyrst og fremst beitt með árangursríkum hætti gagnvart því og til þess að leggja grunn að stöðugleika í verðlagsmálum. Seðlabankinn hefur peningaleg stjórntæki sem eru best til þess fallin að stuðla að verðstöðugleika sem getur þá lagt grunninn að því að önnur jafngild og mikilvæg markmið, t.d. að tryggja fulla og stöðuga atvinnu, tryggja hagkvæma og skynsamlega nýtingu framleiðsluþáttanna, tryggja vernd og varðveislu umhverfis o.s.frv., geti jafnframt náð fram að ganga.

Í þessu sambandi, herra forseti, vísa ég t.d. í orðalag greinargerðar á bls. 11, en þar segir m.a., með leyfi forseta, um þessi stjórntæki Seðlabankans:

,,Til langs tíma hefur stefnan í peningamálum því áhrif á verðlag en síður á hagvöxt og atvinnu. Þar sem seðlabankar hafa í aðalatriðum aðeins eitt stjórntæki, þ.e. vexti, og geta því aðeins náð einu þjóðhagslegu markmiði til langs tíma er eðlilegt að meginmarkmið peningastefnunnar sé stöðugt verðlag. Þetta þýðir ekki að markmiðið um stöðugt verðlag sé mikilvægara en t.d. markmið um fulla atvinnu.``

Þetta, herra forseti, held ég að sé mjög mikilvægt að menn hafi í huga. Þessi skilningur, þessi nálgun gerir það að verkum að ég treysti mér til að standa að þessu samkomulagi eins og það var fram sett.

Þau álitamál voru talsvert rædd í nefndinni sem snúa að spurningunni um einn bankastjóra eða fleiri, spurningunni um það, sem vissulega var rædd, hvort hér ætti að velja þá leið að stofna til embættis eins aðalbankastjóra sem síðan gæti eftir atvikum haft nokkra aðstoðarbankastjóra sér til fulltingis, sem væru þá fyrir einstökum sviðum innan bankans.

Að mörgu leyti hef ég verið hallur undir það sjónarmið að heppilegast væri að þarna væri einn bankastjóri. Það er kannski ekki, herra forseti, af mjög hagfræðilegum eða þróuðum rökum, þ.e. út frá því að ég hafi myndað mér mjög djúpstæðar skoðanir á því hvernig þetta fari best í því tilliti, út frá verkefnum bankastjóra eða að þetta sé eins og að hafa einn skipstjóra á skútunni. Ég hef séð þann stóra kost í því að hafa einn seðlabankastjóra að þá mundi brotna upp það þriðjungaskiptafyrirkomulag sem stjórnmálaflokkarnir hafa lengi viðhaft, að troða gæðingum sínum, einn frá hverjum inn í bankann. Þannig var það eins og kunnugt um mjög langt árabil og fyrst og fremst voru það Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. sem mönnuðu þessar skútur. Ef um væri að ræða einn aðalbankastjóra þá hefði ég bundið vonir við að líkurnar mundu aukast á að um faglega ráðningu yrði að ræða.

[11:30]

Ekki varð samkomulag um að ganga svo langt. Hins vegar er staða formanns bankastjórnar gerð sterkari en áður var og gerð í raun og veru sérstök. Það vísar veginn í þessa átt. Ég vil trúa því og treysta og vil að það liggi fyrir prentað í þingtíðindunum upp á síðari tíma, herra forseti, að með þessu séu menn líka að skuldbinda sig til að vanda sérstaklega valið á þeim einstaklingi sem í framtíðinni kemur til með að skipa það ábyrgðarmikla starf að vera formaður bankastjórnarinnar og þar eigi að vera alfarið um faglega en ekki pólitíska ráðningu að ræða. Það er mjög mikilvægt.

Hitt sem ég vil nefna er svo spurningin um hvernig Seðlabankinn stendur að ákvörðunum sínum á sviði penngamála, þ.e. hinar afdrifaríkustu ákvarðanir um peningapólitískar aðgerðir eins og vaxtabreytingar og það sem því tengist.

Þar var uppi umræða um hvort koma ætti á fót einhvers konar peningamálaráði, sérstakri stjórn sem færi með þann þátt málsins og gerði grein fyrir ákvörðunum á því sviði sérstaklega. Síðan væri að öðru leyti búið að stjórn bankans eins og frv. gerir ráð fyrir og venja er.

Niðurstaðan varð sú að fara ekki út í það, a.m.k. ekki að svo stöddu, ég lít ekki svo á að þar með sé útilokað um ókomin ár að það kunni að verða niðurstaðan. En það var ýmislegt sem menn færðu þar fram svo sem að það gæti hreinlega reynst erfitt að manna slíkt peningamálaráð í okkar litla samfélagi þannig að tryggt væri að um fullkomlega óháða aðila gæti orðið að ræða, þ.e. ef valið væri að skipa að einhverju leyti aðilum utan bankans eins og víða er gert, að peningamálaráð er blanda af yfirmönnum bankans og aðilum utan úr þjóðfélaginu. Það gæti orðið dálítið flókið að koma því fyrir og það má vissulega til sanns vegar færa.

Niðurstaðan er sú sem frv. greinir, og menn eiga ekki að gera lítið úr, að sérstaklega er kveðið á um það í 24. gr. að gera skuli opinberlega grein fyrir og rökstyðja ákvarðanir bankastjórnar í peningamálum og forsendur þeirra. Þetta leggur bankastjórninni þær skyldur á herðar að gera mjög skilmerkilega grein fyrir því, ekki bara hverjar ákvarðanirnar eru, heldur líka á hvaða forsendum þær byggjast eða á hvaða forsendum þær eru teknar. Bankaráðið fær þarna síðan hlutverk skv. 28. gr., það verður eitt af verkefnum bankaráðsins að staðfesta reglur sem bankastjórn setur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana í peningamálum, sbr. 24. gr. Þetta þýðir m.a. að bankaráðið mun væntanlega setja um það reglur, vinnureglur fyrir bankastjórnina, hvernig hún undirbýr í fyrsta lagi þessar ákvarðanir, þar með talið t.d. hvaða yfirmenn einstakra sviða bankans eru þátttakendur í því ferli og síðan í framhaldinu hvernig þetta er rökstutt, á hvaða forsendum ákvarðanirnar eru teknar og hvernig þær eru kynntar.

Með þessu tel ég að menn séu að nálgast það býsna mikið að búa til formlegt peningamálaráð. Menn eru vissulega að nálgast það með þessum aðferðum. Ég tel að þetta sé ágætisniðurstaða, a.m.k. að svo stöddu, og rétt sé að láta á það reyna að svona verði að þessu staðið og hvort þetta geti ekki þjónað tilgangi sínum bærilega. Ég sætti mig í sjálfu sér allvel við þá niðurstöðu sem þarna varð, herra forseti, og eins og áður sagði, hef ekki staðið að því að flytja breytingartillögur við frv. enda lít ég svo á að ég beri nokkra ábyrgð á því ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, sem var einnig af hálfu stjórnarandstöðunnar, í að landa þessu samkomulagi.

Það sem ég vil svo í lokin, herra forseti, aðeins nefna og þykir þá vænt um að hæstv. forsrh. er viðstaddur, er að ég var ekki alveg sáttur við hvernig síðan þessar breytingar voru kynntar. Ég hafði reyndar á lokaspretti starfsins innan undirbúningsnefndarinnar varað mjög við því, og hér eru menn sem geta staðfest að svo var, að vandasamt yrði að kynna þessar breytingar þannig að það skapaði ekki sjálfu sér viðbótaróróleika í efnahagslífinu og var þó ekki á bætandi. En því miður gerðist það að mínu mati að nokkru leyti. Ég tel að dálítið glannaleg kynning á þessum málum í tengslum við aðalfund Seðlabankans á dögunum hafi verið hluti af því sem jók á óróleikann í efnahags- og gengismálum næstu vikur þar á eftir og sem stendur enn.

Mér fannst nokkuð glannalegt að gera þetta allt í senn, að kynna breytingarnar, að henda vikmörkum gengisins og ákveða vaxtalækkun. Enda tókst það ekki mjög vel, ég held enginn geti haldið því fram að það hafi heppnast mjög vel. Ég taldi þvert á móti að ástæða væri til þess að fara mjög varlega í sakirnar og leggja á það alveg sérstaka áherslu í tengslum við kynningu þessara breytinga að þó svo að horfið væri frá t.d. þeim gengisfestumarkmiðum sem eru í gildandi lögum --- út af fyrir sig var kannski ekki beinlínis hægt að hverfa frá með tilskipun af því það er þó enn þannig að í gildi eru lög um Seðlabanka Íslands --- hefði átt að fara mjög varlega í það og leggja á það ríka áherslu að þetta þýddi ekki að sleppa ætti krónunni lausri og hún fengi að vera í frjálsu falli þó að þessar aðgerðir stæðu til heldur reyndu menn að vanda sig mjög við að gera þetta rólega og yfirvegað þannig að það yki ekki á óróleikann.

Ekki meira um þetta, herra forseti. Tímans vegna og aðstæðna hér, þar sem fram undan er eldhúsdagur að kveldi og meiningin að reyna að hafa stutta þingfundi í dag, ætla ég ekki að orðlengja um þetta. Ég segi þá aðeins að lokum að eitt angraði mig til viðbótar í sambandi við þessar breytingar og það var ósköp einfaldlega tímasetning þeirra, þ.e. að það yrði enn vandasamara en ella að standa að þessu og vera að ræða þetta í þeirri efnahagslegu óvissu og þeim óróleika sem yfir stendur. Auk þess er í sjálfu sér aldrei auðvelt að velja sér tíma til slíkra hluta og ekki hægt að sitja með þetta tilbúið einhvers staðar ofan í skúffu og bíða missirum saman eftir því að nákvæmlega réttu efnahagslegu aðstæðurnar séu fyrir hendi. En þó er það nú þannig að ef menn gera breytingar af þessum toga þá skipta aðstæðurnar mjög miklu. Það er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Þetta sjáum við víðar í kringum okkur. Það var t.d. þannig í Bretlandi, þar sem menn rífast af mikilli list í þinginu og annars staðar, og voru mjög ósammála um það og eru, eins og við heyrum í kosningabaráttunni núna, hvort Bretland eigi að gerast aðili að Evrópska myntbandalaginu, að allir voru sammála í umræðum um það á síðasta og þarsíðasta ári að það væri a.m.k. ekki rétti tíminn fyrir Breta að taka upp evruna eins og þá stóð á, ósköp einfaldlega vegna þess að efnahagslegar aðstæður væru þannig að hlutföllin stæðu greinilega mjög óheppilega af sér fyrir Breta til að fara út í slíkar breytingar, burt séð frá því hvort menn voru þeim síðan sammála eða ekki sammála. Ég held, svo ég vísi til þessa dæmis og mætti taka ýmis fleiri, að þá sé það auðvitað eitt af því sem menn þurfi að huga að, hvernig málin standa nákvæmlega þegar menn eru að fara út í breytingar af þessu tagi án þess að ég vilji nú vera gera of mikið úr þeim. Ég lít ekki svo á að hér sé kannski um einhverjar meiri háttar grundvallarbreytingar í efnahagslegu tilliti að ræða eða hvað hagstjórn snertir, en það er a.m.k. fyrir hendi sú hætta að menn oftúlki hana og það geti valdið misskilningi og óróleika.

Hvernig er þá staðan til að ráðast í þetta núna? Hún er ekki góð. Hún er þvert á móti mjög slæm.

Við vorum ekki fyrir löngu búin að ganga frá þessu frv. þegar út kom maíhefti Peningamála hjá Seðlabankanum. Hver er boðskapur þess? Hvernig kemur árið í fyrra út þegar það er gert upp? Þetta er eitthvert versta ár hvað varðar hallarekstur þjóðarbúsins og aukningu erlendra skulda sem við höfum séð framan í á seinni áratugum. Það er sambærilegt við mestu kreppuár í íslenskri eftirstríðsárasögu, efnahagsmálasögu. Það er því miður einfaldlega þannig. Og hrein staða þjóðarbúsins, ekki bara brúttóstaða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum heldur hrein staða, versnar meira en eru eiginlega dæmi um á milli áranna 1999 og 2000.

Aukning erlendra skulda er sem sagt sökum viðskiptahalla, vaxtabyrði af vaxandi erlendum skuldastabba, þannig að nettóhlutfall erlendra langtímaskulda af landsframleiðslu rýkur upp úr 50% á árinu 1999 upp í 63,5%, úr 50,5% upp í 63,5%. Það er sem sagt hækkun um 13 prósentustig af landsframleiðslu og er það þó engin smátala á einu einasta ári.

Nú væri fróðlegt, herra forseti, að hæstv. forsrh., sem fer með efnahagsmálin í ríkisstjórn landsins, eða gerði það til skamms tíma, a.m.k. á meðan var góðæri, færi yfir það, þó ekki væri nema í mjög stuttu máli, hvernig hann metur þessa stöðu. Er hæstv. forsrh. ekkert brugðið eftir að hafa fengið í hendur maíhefti Peningamála frá Seðlabankanum þar sem sl. ár er gert upp?

Í fyrra vörðu menn sig með því þegar skuldaaukningin milli áranna 1998 og 1999 var til umræðu, og ég man sérstaklega eftir því að hæstv. fjmrh. hampaði mjög þeirri tölu, að nettóskuldaaukningin væri nú ekki svo mikil vegna þess að á móti ört vaxandi erlendum skuldum hefðu byggst upp miklar eignir erlendis. Menn fluttu sem sagt talsvert fé úr landi, sérstaklega lífeyrissjóðirnir á árinu 1999 þannig að þó að erlendar skuldir ykust þá mjög, væri það ekki svo alvarlegt, sagði hæstv. fjmrh., vegna þess að nettóskuldastaðan ykist ekki að sama skapi. En nú er því ekki til að dreifa. Heldur þvert á móti. Nú er það einmitt nettóstaðan sem versnar mjög ískyggilega um það sem ég nefndi áðan.

Það væri nú gaman að heyra þá menn, sem hafa helst reynt að standa í málsvörninni fyrir því að þetta væri víst allt í lagi og bullandi góðæri, gullöld og gleðitíð, ræða aðeins um þessar tölur. Hvað segir t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal um þessa gríðarlegu aukningu á nettóskuldum þjóðarbúsins út á við? Einhver þarf að borga þetta. Og það þarf að borga það með verðmætum. Þau þurfa að vera til innan lands í aðalatriðum. (Gripið fram í: Virkja?) Það þarf a.m.k. að vera til gjaldeyrir fyrir þeim. Já, virkja, segir hv. þm. Og auka erlendu skuldirnar um svo sem eins og 200 milljarða í viðbót til að borga af hinum lánunum. Er það hin aðferðin?

Ætli við þurfum nú ekki aðeins að fara að hyggja ósköp einfaldlega að greiðslustöðu þjóðarbúsins og möguleika okkar yfir höfuð til að ráða við þessar skuldir?

Ætli það sé ekki býsna háskalegur hugsunarháttur að detta ofan á það lausnarorð að auka enn á þær? Það þarf að vera viðunandi arðsemi, a.m.k. af þeim fjárfestingum ef á að vera gáfulegt að bæta við skuldirnar til þess að borga hinar skuldirnar. Það er hagfræði hv. þm. Péturs H. Blöndals og hann er auðvitað ekki einn um þetta.

Hæstv. utanrrh. úttalaði sig um það með mjög merkilegum hætti á aðalfundi Verslunarráðs að fram undan væri svartnætti ef ekki yrði virkjað og virkjað og virkjað. Hann gaf þar með efnahagsástandinu eins og það er í dag og möguleikum íslensks atvinnulífs að óbreyttu auðvitað ekki háa einkunn, taldi að þá væru dökkir tímar fram undan. (Gripið fram í: Það var hjá Útflutningsráði.) Já, Útflutningsráði. Hvað varð mér á að segja, hv. þm.? (Gripið fram í: Verslunarráði.) Nú, Verslunarráðinu, ég biðst innilega velvirðingar á þessu mismæli mínu, það er kannski af því hv. þm. situr hér úti í salnum sem mér varð þetta á.

[11:45]

Það var á hinum merka fundi Útflutningsráðs sem hæstv. utanrrh. útmálaði þessa framtíðarsýn sína, að hér væri bara myrkur fram undan nema það yrði bara virkjað og virkjað og bætt við erlendu skuldirnar til þess að borga af hinum skuldunum. Hefur þó hagfræðingum gengið illa að reikna lágmarksarðsemi í þessar fjárfestingar.

Ætli það sé ekki akkúrat öfugt, herra forseti, að þjóðir ættu við þessar aðstæður, komnar svona tæpt með skuldastöðu sína og með svo mikinn viðskiptahalla, fremur að skoða möguleika til innlendrar verðmætasköpunar án mikillar lántöku erlendis, án mikilla fjárfestinga sem kalla á frekari skuldir, t.d. að gera sem mest útflutningsverðmæti úr hugviti og úr þekkingargreinum? Danir hafa áttað sig á þessu. Þeir hafa áttað sig á því að það þarf ekki að taka erlend lán þó maður láti hausinn á sér vinna og geri afraksturinn af því að útflutningsvöru. Danir eru mjög snjallir í að gera sér verðmæti úr verkþekkingu sinni, úr hönnun og öðru slíku. Íslendingar gætu margt af þeim lært.

Af hverju hafa Danir þurft að leggja sérstaka áherslu á þetta? Jú, af tveimur ástæðum sérstaklega. Vegna þess að þeir eru ekki mjög rík þjóð hvað auðlindir snertir og hinu að þeir voru mjög skuldug þjóð. Á áttunda og níunda áratugnum voru Danir líklega skuldugastir allra Norðurlandaþjóðanna. Þeir sáu að þeir þyrftu að grípa til mjög róttækra aðgerða til að byggja upp atvinnulíf og auka verðmætasköpun án þess að auka erlendar skuldir. Þeir þurftu að reyna að gera sér mat og verðmæti úr huglægum þáttum, verkþekkingu sinni, hönnun og öðru slíku. Þeir hafa gert það alveg prýðilega. Þeir hafa um helminginn af útflutningsmarkaði heimsins, t.d. fyrir vindmyllur, vindrafstöðvar og alls konar tæknibúnað sem þeim tengist. Bang & Olufsen hljómflutningstækin eru u.þ.b. helmingi dýrari en tæki af sambærilegum gæðum, sem ekki hafa þetta vörumerki. Hvað er það sem gerir Bang & Olufsen svona dýrmæta útflutningsvöru um allan heim? Jú, það er hugvitið. Það er hönnunin. Þetta eru listmunir um leið og þetta eru hágæða hljómflutningstæki.

Ýmsu af þessum toga, herra forseti, væri gaman að velta upp í þessari umræðu. Ég held að það væri gáfulegri áhersla en sú sem stjórnarliðar sitja því miður rígfastir í, að það eina sem geti orðið okkur til bjargar og forðað því svartnætti sem annars er fram undan, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það á fundi Útflutningsráðs og hv. þm. Pétur Blöndal kallaði hér fram í, sé stóriðja gærdagsins.

Mér var hugsað til sálmaskáldsins Björns í Laufási þegar ég heyrði af þessari ræðu utanrrh. Sá mæti klerkur átti stundum, eins og við sjálfsagt öll í bland, erfiða daga. Til eru textar eftir hann og kveðskapur sem vitnar um það. Þar kemur fyrir hendingin:

  • hyldjúpan næturhiminn
  • helltan fullan af myrkri.
  • Mér varð hugsað til Björns í Laufási þegar ég heyrði af þessari svartnættisræðu hæstv. utanrrh. á fundi Útflutningsráðs sem ég hef hér aðeins leyft mér að gera að umtalsefni í lokin undir þessum lið, um Seðlabankann, enda eðlilegt að aðeins sé tæpt á efnahagsmálum í almennu samhengi þegar þessa hluti ber á góma.