Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 12:14:10 (7895)

2001-05-16 12:14:10# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú margt sem getur haft áhrif á það hvort skuldastaða þjóðarbúsins og viðskiptahalli er varasamur eða ekki, ég hef áður fært rök fyrir þeim eðlismun sem þar er á og hv. þm. viðurkennir hér í ræðu sinni núna.

Ég tel til að mynda að miklu meiri vá hafi verið yfir þjóðarbúinu fyrir þremur eða fjórum árum þegar við athugun kom í ljós að nánast allt bankakerfið var með meginlán sín í skammtímalánum og hlutfall skammtímalána af þeirra lánastokki var orðið afar hátt, jafnhátt og það var í Mexíkó þegar skellurinn kom þar. Þetta hefur síðan gjörbreyst, þannig að hlutfall langtímalána og skammtímalána hefur algjörlega breyst bankakerfinu í hag. Það segir miklu meira í mínum huga um stöðu þjóðarbúsins til að uppfylla skilyrði sín og skuldbindingar en var til að mynda fyrir tveimur, þremur árum sem fór reyndar ekki í umræðu þá, ég vil leyfa mér að segja sem betur fer. Hefði það farið í umræðu þá, hefði það sama getað gerst eins og gerðist í Mexíkó, sem voru ekki efnahagsleg rök fyrir, að bankarnir erlendu urðu hræddir og kölluðu allir lán sín inn í einu og Mexíkóarnir höfðu ekki tök á því að verjast þessu í einni svipan.

Þetta hefur gjörbreyst. Nú er hlutfall skammtímalána miklu lægra og hlutfall langtímalána miklu hærra og þess vegna er geta bankakerfisins til að bregðast við vanda miklu meiri og betri en var fyrir þremur árum. Að því leyti til er ég miklu rólegri um stöðu efnahagsmála en ég var fyrir þremur árum.