Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 12:19:51 (7898)

2001-05-16 12:19:51# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[12:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. forsrh. er alls ekki fráhverfur því að hafa einn bankastjóra og það þyrfti þá að laga frumvarpið að því. Ég vissi ekki um þessa afstöðu hæstv. ráðherra í þessu efni, en ég hafði ekki tækifæri til þess að vera hér við 1. umr. og heyrði því ekki sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi hæfisskilyrði. Ég var erlendis á þeim tíma.

Vegna þessara orða er kannski full ástæða til þess að skoða málið milli 2. og 3. umr. aftur í efh.- og viðskn. fyrst hæstv. forsrh. er opinn fyrir því að skoða málið út frá því sjónarmiði að sé bara einn bankastjóri.

En mér finnst hæstv. ráðherra líka gera of lítið úr þeim yfirmönnum bankans sem vinna á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu bankans í peningamálum vegna þess að þeir fá aukið vægi og aukna þyngd, þ.e. skoðanir þeirra, með því að sitja í slíkri nefnd, peningastefnunefnd, sem tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. Skoðanir þeirra eru jafnréttháar í þeirri nefnd og annarra sem þar sitja, eins og bankastjóranna. Mér finnst því hæstv. ráðherra gera of lítið úr því.

Varðandi hæfisskilyrðin þá veit ég ekki um skoðanir hæstv. ráðherra á þeim af því ég hafði ekki tækifæri til þess að vera við 1. umr. Ég tel að við hefðum átt að fara þá leið, eins og gert er í þessum breytingartillögum, að setja ákveðin skilyrði varðandi hæfi. Það hefur verið allt of mikið litið á þessar bankastjórastöður sem eins konar pólitískt hæli fyrir stjórnmálamenn og við höfum tekið þá áferð og þann stimpil meira af því með því að setja þarna ákveðin hæfisskilyrði, eins og víðtæka þekkingu og reynslu á meginstarfssviði Seðlabankans eða eitthvað í þá veru. Mér finnst ekki nógu góð vinnubrögð að skilja við málið þannig að þarna er algjörlega eyða varðandi hæfni þeirra sem skipa þessa stöðu.