Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 14:45:18 (7901)

2001-05-16 14:45:18# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frhnál. á þskj. 1362 um frv. til laga um kjaramál fiskimanna og fleira frá meiri hluta sjútvn.

Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umr. Til fundar við nefndina komu Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Grétar Mar Jónsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Ástráður Haraldsson hrl.

Aðildarfélög Sjómannasambands Íslands, að undanskildu Sjómannafélagi Eyjafjarðar, aflýstu í dag verkfalli sínu. Aðildarfélög Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafa á hinn bóginn ákveðið að halda verkfalli sínu áfram. Sama á við um Sjómannafélag Eyjafjarðar. Þá stendur verkbann aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna enn og hefur ekkert komið fram um að til standi að aflýsa því, hvorki að hluta né í heild. Staðan í vinnustöðvuninni er því óbreytt enda komast engin skip á sjó og deilan um kjaramálin í jafnmiklum hnút og áður.

Í 14. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, er gert ráð fyrir jöfnum rétti verkalýðsfélaga og atvinnurekenda til að beita verkföllum og verkbönnum til að knýja á um framgang krafna sinna og til verndar rétti sínum. Það skiptir því ekki máli hvort vinnustöðvun stafar upphaflega af verkfalli eða verkbanni. Þar sem verkfall var ekki boðað í upphafi eða þar sem verkfalli hefur nú verið aflýst stendur eftir sem áður verkbann. Afleiðingar þess eru hinar sömu fyrir þjóðarbúið. Þess vegna er jafnbrýnt og verið hefur að leysa kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna. Því er nauðsynlegt að gerðardómurinn taki heildstætt á þeim úrlausnarefnum sem um getur í 2. gr. frv. varðandi alla deiluaðila, enda er hann í eðli sínu sjálfstæður í störfum sínum.

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af framansögðu leggur meiri hlutinn því til tvenns konar breytingar á frv. Í fyrsta lagi að gerð verði sú breyting á 1. gr. frv. eins og kveðið er á um í sérstöku þingskjali og í öðru lagi var það svo að sjútvn. lagði til breytingu á 3. gr. frv. sem samþykkt var í gær en í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram var sett á niðurstöðu þeirrar ákvörðunar leggur meiri hlutinn enn til að gerðar verði breytingar á 3. gr. og að felld verði brott skírskotun 2. mgr. 3. gr. til gildistíma annarra skyldra kjarasamninga.

Meiri hlutinn leggur til að frv. verði síðan samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nál. rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Kristinn H. Gunnarsson, Magnús Stefánsson, Vilhjálmur Egilsson og Árni R. Árnason.