Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 14:50:44 (7905)

2001-05-16 14:50:44# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að reyna að gera mér upp orð. Ég vitnaði einungis í það sem stendur í frhnál. og hann getur lesið þar.

Ég sagði að tvær ástæður væru fyrir lagasetningunni. Það er annars vegar að fyrir liggur verkfall frá sjómannafélögum í landinu og hins vegar verkbann Landssambands ísl. útvegsmanna. Þetta er ástæðan og kemur mjög glögglega fram í 1. gr. frv. Þess vegna er algjör óþarfi af hv. þm. að vera að reyna að snúa út úr þessu. Það er ekki verið að ganga erinda Landssambands ísl. útvegsmanna, það er mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé að bregðast við þessu ástandi, það sé farið að hafa alvarleg áhrif og það þurfi að bregðast við því. Hv. þm., sem situr í sjútvn. Alþingis, er mætavel kunnugt að við kölluðum á alla deiluaðila til að geta rætt við þá þannig að allir þingmenn sem eiga sæti í sjútvn. Alþingis gætu átt þess kost að ræða við fulltrúa deiluaðila, spyrja þá út úr þessari lagasetningu og komast að sjónarmiðum þeirra. Um þetta snýst málið, þannig hefur þetta mál verið unnið.