Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 15:22:15 (7909)

2001-05-16 15:22:15# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ef staðið hefði ,,Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands``, ef allir þessir aðilar hefðu aflýst þá hefði verið um rétta tilvitnun að ræða. Þá hefði líka verið um að ræða allt aðra stöðu. Þá hefði verið um það að ræða þegar þetta frv. væri hugsanlega orðið að lögum, þá væri um að ræða að tvö samningsumhverfi væru í gangi, það samningsumhverfi sem Vélstjórafélagið er búið að semja um og það samningsumhverfi sem Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið hefði komið sér í með því að aflýsa verkfallinu, alveg eins og það hefði orðið um tvö samningsumhverfi að ræða, ef frv. hefði orðið óbreytt að lögum og alveg eins og það verður um tvö samningsumhverfi að ræða ef frumvarpið verður að lögum eins og brtt. hv. sjútvn. gerir ráð fyrir.

Ef hins vegar hefði farið svo sem hv. þingmenn eru að láta liggja að, að þeir sem hefðu aflýst hefðu sjálfkrafa þá farið líka út úr gerðardómnum, þá hefði orðið um fimm samningsumhverfi að ræða, samningsumhverfi vélstjóra, samningsumhverfi Farmanna- og fiskimanna, samningsumhverfi Sjómannasambandsins sem aflýsti ekki, þ.e. Eyjafjarðar, samningsumhverfi Sjómannasambandsins sem aflýsti og samningsumhverfi Alþýðusambands Vestfjarða. Það hefði orðið um fimm umhverfi að ræða og það hefði orðið algjör ringulreið í kjaramálum sjómanna, í fiskverðsmálum og í mönnunarmálum fiskiskipa við Ísland.